20.05.1933
Neðri deild: 79. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1053 í B-deild Alþingistíðinda. (1109)

16. mál, varnir gegn því að næmir sjúkdómar berist til Íslands

Jóhann Jósefsson:

Ég lét það í ljós í upphafi, að ég teldi þá breyt., sem hér er farið fram á að gera á sóttvörnunum, allvafasama að því er snertir breyt. á skipa skoðuninni, sérstaklega þó fyrir þær hafnir, sem mest aðstreymi er að af útlendum skipum. Í grg. frv. er því hinsvegar haldið fram, að þetta nýja fyrirkomulag, sem í frv. felst, sé jafngott og betra, af því að það sé í flestum tilfellum óþarft að senda lækni út í skipin, og kann þetta rétt að vera í sumum tilfellum. Eftir því sem ég hefi athugað þetta mál betur, hefir mér þó orðið það ljósara og ljósara, að hentugast er að halda því fyrirkomulagi, sem er, að því er snertir læknisskoðun á aðkomuskipum, sérstaklega þó fyrir Vestmannaeyjar og Rvík. Samkv. gildandi 1., nr. 31 frá 1923, er þeirri reglu fylgt í þessum efnum, að læknisskoðun er framkvæmd áður en farþegar fara í land, og hefi ég áður sýnt fram á það, að heppilegast er, að læknir fari út í hvert skip, og þeir, sem þessar ferðir kosta, þurfa ekki að kvarta undan þessu fyrirkomulagi, því að í því tilfelli, að læknis þurfi með, sparar þetta aðra ferðina, eins og ég benti á. Aðalatriðið í þessu máli er þó það, að því verður ekki réttilega haldið fram, að nægileg trygging sé fólgin í athugun heilbrigðisástands skips, ef framkvæmd er af ólærðum manni, heldur sé þetta að sjálfsögðu gert af lækni. Þetta er aðalatriðið í mínum augum, að það sé tryggt, að á helztu höfnunum sé þessi skoðun framkvæmd af kunnáttumönnum. Því hefir að vísu verið borið við, að svo geti staðið á, að ekki náist til héraðslæknis á stundinni, svo að skip verði að bíða þess, að til hans náist, og má þetta rétt vera, en að því er snertir bæði Rvík og Vestmannaeyjar, er það víst, að hægt er að ná til héraðslæknis strax að kalla, og orkar það þannig ekki tvímælis, að þetta fyrirkomulag er öruggara bæði hér og í Vestmannaeyjum, og auk þess hagkvæmara að ýmsu leyti. Í Ed., kom og fram till. í þessa átt, að undanskilja þessar hafnir, þannig að um þær gildi áfram ákvæði 1. nr. 31 frá 1923, um læknisskoðun aðkomuskipa, en þessi till. féll með eins atkv. mun, og þar sem telja má álitamál, hvort þm. hér muni ekki geta fallizt á að setja slíkt ákvæði inn í frv., hefi ég leyft mér að bera hér fram till. í þá átt. Þá er og rétt að geta þess, þótt það sé að vísu aukaatriði, að báðir læknarnir á þessum stöðum verða fyrir verulegum tekjumissi, ef ákvæði frv. í þessu efni haldast óbreytt, og finnst mér sem það atriði beri líka að taka til greina, auk þess sem ég lít svo á, að því verði ekki á móti mælt, að sjálfsagt sé að fela Sóttvarnarskoðunina fagmönnum á þessum höfnum, sem flest skip sigla á erlendis frá allra hafna hér á landi.