03.05.1933
Efri deild: 62. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

6. mál, verðtollur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

[óyfirl]: Hv. 2. landsk. finnst nú ganga nokkuð ört og vill nú leggja lið sitt til þess að stöðva mál, sem ekki er hægt að stöðva á þessu þingi, ef sjá á fyrir þörfum ríkisins.

Í sambandi við þetta mál og næsta mál á dagskránni vil ég geta þess, að ekki verður hjá því komizt að framlengja þessa skatta frekar en áður hefir verið. Það ber engin nauðsyn til þess að nota þau til þess að stöðva, því að mörg önnur mál, sem fyrir þinginu liggja, má nota í þeim tilgangi, ef meiri hl. annararhvorrar deildarinnar telur nauðsyn bera til slíks. Ég vil segja, að óheppilegra sé að nota þessi mál til þess að stöðva en mörg önnur nýrri, er á dagskrá hafa komið.

Hv. 2. landsk. sagði, að ekkert bólaði á því, að nota ætti neitt af þessum tolli til þess að styrkja verkalýðinn. Í núgildandi fjárl. er heimild til atvinnubóta, sem verður 330 þús. kr., ef peningar eru fyrir hendi, og lána má önnur 330 þús. bæjar- og sveitarfélögum, ef þau hafa 1/3 til að leggja á móti. Þessar heimildir er ekki hægt að nota nema svona tollar verði framlengdir. Þó er hæpið, hvað miklu fé er hægt að verja til þeirra, þó að stj. væri öll af vilja gerð að nota þessa heimild. Hv. 2. landsk. þyrfti því ekki nema þessa, núgildandi heimild til næstu áramóta, til þess að fylgja framlengingu þessara mála, sem hér um ræðir. Með því að leggja lið sitt til þess, að svona tollar falli út gildi, dregur hv. þm. úr öllum möguleikum til þess, að hægt sé á sínum tíma að nota slíkar heimildir. Að því er snertir ráðstafanir til næsta árs, þá er það vitanlegt, að við sjáum ekki svo langt fram í tímann, að við getum dæmt um atvinnubótaþörf næsta árs. Ég hygg, að ekki sé óheppilegt af þessu þingi að leggja það á vald næsta þings, sem byrja á eftir næstu áramót, því að sú heimild, sem nú er fyrir hendi, gildir til áramóta. Þess vegna er ekki nauðsynlegt að gera slíkar ráðstafanir nema fyrir tímann til næsta þings, í byrjun næsta árs, því að það tekur ákvarðanir um þetta mál.

Með stjskr.málið gengur eins og svo oft með önnur stórmál, sem komin eru í burðarliðinn, að samkomulag fæst ekki fyrr en á síðustu stundu.

Ég mun ekki tala frekar um þetta mál en ég gerði í gær, en ég hugsa, að stj. álíti, að á þessu þingi þurfi að afgr. kreppumál landbúnaðarins, sem fyrir Nd. liggja, og skattafrv., sem eiga að svara til kreppuráðstafananna, ekki eingöngu að fjárupphæðinni til, heldur líka að eðlismun, þannig að skatturinn verði ekki heimtur af þeim, sem á að hjálpa, því að það eru ekki bændurnir frekar en aðrir, sem geta dregið sjálfa sig á hárinu upp úr mýrinni.

Ef þingið lýkur þeim viðfangsefnum, sem fyrir því liggja, þá getur hv. þm. ekki kvartað yfir því, að það hafi verið aðgerðalaust. Með vissu er ekki hægt að segja það á þessu stigi, en ég tel engu minni von nú en svo oft áður, að þingið taki þær ákvarðanir, sem kringumstæðurnar heimta, og geri það með engu minni myndarskap en áður hefir tíðkazt.