20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1093 í B-deild Alþingistíðinda. (1185)

6. mál, verðtollur

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hæstv. forsrh. endaði á því, að ef bylting ætti að verða út af 10 eða 12 þingsætum, þá væri ekki fyrir hana girt þótt 12 sæti yrðu samþ. Og mikill hluti ræðu hans gekk út á að sýna, að þetta væri lítilfjörlegt. En finnst hæstv. ráðh., að það sé ekki á hans ábyrgð sem foringja meiri hl., ef hann sprengir samvinnuna út af þessu litla atriði? Það er meiri hl. þingsins, sem ber ábyrgðina, ef allt fer út um þúfur — ábyrgð, sem er þeim mun þyngri, sem ágreiningurinn er minni. Annars stóð ég upp til þess að lýsa yfir því, að það er ekki meining Sjálfstfl. að vera með neinar ógnanir. Flokkurinn gekk til samvinnu á seinasta þingi til þess að fá leyst þetta mál. Ef flokkurinn teldi ekki að sú lausn væri viðunandi, þá liggur í hlutarins eðli, að samvinnunni væri slitið. Það er bara samningur, sem um er að ræða. Ef ekki getur orðið samkomulag um lausnina, þá hlýtur samvinnunni að vera lokið. Um áhuga ráðherrans á lausn málsins getur hann auðvitað talað fagurt. Um það verður hver að trúa því, sem honum þykir trúlegast, og ég er sannfærður um, að ekki þarf nema góðan vilja hjá ráðh., og þar með er Framsfl. kominn að því, sem allir geta vel við unað.

Ég tek undir kröfuna, sem hv. 1. landsk. hefir borið hér fram, um að málið verði tekið út af dagskrá að sinni. Að það hefir verið sett á dagskrá, er ekki hægt að skoða öðruvísi en sem yfirlýsingu um, að nú eigi samningaumleitunum að vera lokið. Ef ekki ber að skoða það svo, þá er útlátalaust að taka málið af dagskrá, því að það hefir ekki verið tekið á dagskrá í d. í fulla tvo mánuði þangað til síðustu dagana. (Forseti: Telur ekki hv. þm. það, þegar málið var hér til 2. umr.?).