20.05.1933
Efri deild: 77. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1099 í B-deild Alþingistíðinda. (1188)

6. mál, verðtollur

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Það er aðeins stutt aths., sem mér er leyft að gera, og ég skal reyna að misnota ekki það leyfi. Ég má til að svara hv. 3. landsk. örfáum orðum. Honum fannst, að ég væri að ógna mönnum til þess að greiða atkv. öðruvísi en þeirra sannfæring byði. Hann taldi, að þetta væri ekki rétt aðferð hjá mér, heldur ætti ég að reyna að vinna þjóðina til fylgis við þann málstað, sem ég bæri fram. Nú vona ég, að hann beri ekki á móti því, að ég hafi lagt fram talsvert verk til þess að vinna þjóðina til fylgis við þann málstað, sem ég ber fram. Ég skal játa, að það er alltaf hægt að heimta meira, en mér finnst ekki vera sérstök ástæða til þess að saka mig um, að ég hafi vanrækt það. Hitt er misskilningur hjá honum, þegar honum finnst ég vera að ógna hv. þm. til þess að greiða atkv. öðruvísi en þeirra sannfæring býður þeim. Ég er aðeins að halda áfram því starfi, sem ég hefi unnið meðal þjóðarinnar til þess að afla þessum málstað fylgis. Ég er að reyna að sannfæra hv. þm. um, að þeir eigi að víkja frá andstöðu sinni gegn þessu máli. Ef hv. þm. finnst kannske málið vera fast sótt öðruhverju, þá verð ég að biðja hann um að líta á aðstöðumuninn. Við, sem berum fram kröfurnar, verðum að sækja á. Hinir, sem standa á móti, sitja í borg, rammlega víggirtri borg og þurfa ekkert annað en að skýla sér með skjöldum sínum og múrgörðum, sem sú gamla stjórnarskipun, sem við höfum, hefir hlaðið í kringum þá. Við verðum þess vegna að beita þeim vopnum, sem til greina geta komið sem árásarvopn, og hv. þm. eiga á engan hátt að misskilja þetta, enda höfum við á engu stigi þessa máls farið á nokkurn hátt út fyrir það, sem heiðarlegar bardagaaðferðir og þinglegar reglur fullkomlega heimila. Þegar ég benti á, hvaða afleiðingar það gæti haft að standa á móti þessari kröfu, að gefa einræðisstefnu þeirri, sem er í uppsiglingu í Norðurálfunni, byr undir vængi hér á landi, þá gerði ég með þeim orðum ekkert annað en að endurtaka og undirstrika það, sem hæstv. forsrh. var búinn að segja um þetta málefni nú á fundinum í dag. Hafi hv. 3. landsk. ekki fundið ástæðu til þess að skoða það sem hótun frá hæstv. forsrh., þá er heldur ekki nein ástæða til þess að skoða þetta sem hótun frá mér. Ég bendi aðeins á staðreyndir, sem vega ekki sem röksemdir hjá hv. þm. Framsóknar við ákvörðun þeirra um þetta mál. Ég get ekki annað gert málinu til framgangs hér í þinginu en borið fram þær röksemdir, sem mér finnst hníga að því að styðja mitt mál.

Ég þarf eiginlega ekki að svara hæstv. forsrh. neinu. Í hugleiðingum hans um flokksstolt og flokkseinræði fann ég ýmsar gagnlegar áminningar til stærsta flokksins hér í þinginu, sem ég vona, að flokksmenn hans hafi tekið til sín ekki síður en hinir. — Hv. 2. þm. Árn. þarf ég litlu að svara. Það var aðeins skemmtiræða, sem hann hélt hér, og það var ákaflega gagnlegt — eftir þessi alvöruþrungnu ummæli, sem höfðu fallið af vörum okkar hæstv. forsrh. og hv. 3. landsk., að fá ofurlitla skemmtun til þess að létta hugann. Ég skildi það þó af ræðu hv. þm., að nú er hann sannfærður um, að kosningar séu í nánd, því að hann er þegar byrjaður á því að reyna að slá upp gyllingum á sér og sínum flokki. Skáldskapur er það að vísu, en það hefir svo oft verið gert áður að nota skáldskapinn til slíkra hluta. Nú á það að vera Framsókn og hv. þm. hennar til framdráttar, að þeir hafi ákveðið að bjóða að skila völdunum í mínar hendur, svo að það sé svo sem ekki þeim að kenna þó að — ég má ekki segja, að illa hafi verið stjórnað, því að ég ætlaði ekki út í neinar deilur við hæstv. forsrh. um þetta, en það má ekki kenna Framsfl. um, þó að eitt eða annað hafi mistekizt í stj. landsins. Framsfl. hafi boðið 1. landsk. að taka við völdunum, en hann vilji það ekki. Þetta mun eiga að vera kosninganúmer í næsta kosningaundirbúningi. Ég skal taka það fram til upplýsingar þeim, sem hér hlusta á, að um þetta tilboð hefi ég aldrei frétt. Ég hygg, að það muni fara sönnu nær, sem hv. 1. þm. Reykv. skaut fram i, að þetta verði að teljast til greina skáldskaparins.