07.03.1933
Efri deild: 18. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1151 í B-deild Alþingistíðinda. (1250)

66. mál, lögreglumenn

Jón Baldvinsson:

Ég gat þess í fyrstu ræðu minni, að mér þætti ótrúlegt, að frv. væri flutt af allri stj. og færði þar til nokkur ummæli, sem hæstv. núverandi forsrh. lét falla á þingi 1925, þegar samskonar mál var til umræðu. Nú segir hæstv. dómsmrh., að frv. sé flutt af stj., og eina skýringin hlýtur því að vera sú, að frv. sé flutt af meiri hl. stj., en hæstv. forsrh. sé ekki með í því að flytja frv. Ég ræð þetta af orðum núv. forsrh. 1925, og jafnframt af orðum þess, sem nú er eitt traustasta reipi samsteypustjórnarinnar, m. a. sökum frændsemi og vináttu við hæstv. forsrh., hv. þm. Str.

Orð hans féllu á þá leið 1925, að ótrúlegt er, að sú stjórn, sem hann styður, beri þetta frv. fram. Ég vil, með leyfi hæstv. forseta, vitna í fáeinar setningar úr ræðum hans þá. Hann segir m. a. svo (Alþt. 1925, C. bls. 662—664):

„Málið er þegar orðið mikið æsingamál, og þó er aðeins um byrjun að ræða. Af henni verður það þegar ráðið, að úr getur orðið eitthvert mesta æsingamál, sem hafizt hefir á landi hér. Það getur orðið upphaf nýrrar Sturlungaaldar á Íslandi. Og það er sjálf landsstjórnin, sem viðinn ber á bálköstinn.

Æsingaeldurinn logar þegar dátt í kaupstöðunum. Fundarsamþykktir um málið drífur að úr öllum áttum. Fyrir eru í kaupstöðunum harðandstæðir pólitískir flokkar. Er síst bætandi á þann eld, sem er í milli“.

Þetta á alveg eins við nú, er fundarsamþykktir til mótmæla gegn ríkislögreglunni drífa að úr öllum áttum.

Hann segir líka:

„Þeir (verkamenn og sjómenn) telja, að þetta lið eigi að verða einskonar pólitískur lífvörður íhaldsins. Þykir mér ekki ólíklegt, að þeir geti hengt hatt sinn á einhver ógætileg ummæli af íhaldsmanna hálfu í þá átt, því að slík ummæli hefi ég einnig heyrt úr þeirri átt. Er ekki að undra þótt blóðið hitni, er menn gera sér slíkar hugmyndir.

Á þessum grundvelli er málið rætt, og verður. Áfram mun stefna eins og nú horfir. Getur engum dulizt, hvað nú er framundan. Og það er landsstjórnin sjálf, sem viðinn ber á bálköstinn“.

Þessar sömu ástæður eru enn fyrir hendi, og þykist ég því vita, að hv. þm. Str. haldi þessa sömu ræðu aftur nú á þinginu í þessu máli.

Og enn kvað hann:

„Hér er pólitískri stjórn gefið alveg ótakmarkað vald til að velja svo háa eða lága tölu manna, sem henni gott þykir í þetta lið, og vopna það með þeim tækjum, sem henni gott þykir. Það liggur í augum uppi, að ekkert er því til fyrirstöðu, að slíku pólitísku, vopnuðu úrvalsliði getur hin pólitíska stjórn beitt, eftir því sem henni gott þykir og öldungis eins og henni býður við að horfa. Allar dyr eru opnar fyrir landsstjórnina að misbeita þessu liði gegn borgurum og stjórnarskipun landsins“.

Þessi ummæli hæstv. forsrh. og hv. þm. Str. bera vitni um það, að varla er mögulegt, að hæstv. forsrh. sé meðsekur í flutningi eða tilbúningi þessa frv. Því eru sterkar líkur til þess, að það sé gerræði Sjálfstfl. í stj., sem veldur því, að frv. er fram borið. Þó gæti hugsast, að frv. væri borið fram af meiri hl. stj., þ. e. hæstv. dómsmrh. og þeim ráðh., sem ekki hefir látið skoðun sína um þetta mál í ljós áður, hæstv. atvmrh.

Það kom fram játning um það hjá hæstv. dómsmrh., að þessi bjargráðaráðstöfun, varalögreglan, væri búin að kosta ríkissjóð yfir 90 þús. kr., án nokkurrar heimildar. (JakM: Hvað sagði hæstv. fjmrh.?). Ja, ég veit ekki, hversu uppivöðslusamir sjálfstæðismenn eru í ríkisstj., en helzt er svo að sjá, að þeir geti leyft sér þar hvaða ósóma sem er. Annars mun hæstv. fjmrh. hafa verið fjarverandi öðru hvoru, en hvernig sem um það er, hefir hæstv. dómsmrh. komizt í ríkissjóðinn á einhvern dularfullan hátt og varið því, sem hann náði þaðan, í þetta uppbyggilega fyrirtæki.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að það væri undir mér og mínum flokksmönnum komið, hversu mannmargur þessi her íhaldsins yrði. Ég vil svara honum því, að ég tel ekki nema eðlilegt, ef þessar ráðstafanir verða að lögum, að þá búist hinar vinnandi stéttir í landinu til varnar, og afleiðingarnar af hvorutveggja hvíla á herðum þeirra, sem bera fram þetta frv. og samþ. það. En ég vil vænta þess, að til slíks komi ekki, heldur skeri Alþingi þennan óburð niður — helzt þegar við þessa umr.

Ég vil nota tækifærið til að beina þeirri fyrirspurn til hæstv. dómsmrh., hversu margir menn séu í varalögreglunni nú, hvort þeir séu 100, 150 eða 200. Ef eitthvað af þessum tölum skyldi standa heima, vill hann þá segja mér, hvort hann telur þessa tíma þeim mun hættulegri en næstu ár, að hann áliti, að 10 manna fast lið dugi eftirleiðis?

Mér fannst það undarlegt af hæstv. ráðh. að bera sig saman við Stauning, þar sem það er á allra vitorði, að Stauning hefir barizt fyrir því að leggja niður danska herinn, en þessi hæstv. ráðh. er að burðast við að stofna her í herlausu og vopnlausu landi.