23.05.1933
Efri deild: 79. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1177 í B-deild Alþingistíðinda. (1268)

66. mál, lögreglumenn

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Ég hefi flutt hér nokkrar brtt. við þetta frv., á þskj. 612. Nokkru eftir að þær komu fram flutti hv. 2. þm. S.-M. brtt. á þskj. 644, sem hann hefir nú lýst, og það er rétt hjá honum, að að sumu leyti er ekki langt bil á milli þessara till. T. d. hefir hv. þm. sýnt mér þann heiður í 6. og 7. brtt. sinni að taka upp 6. og 7. brtt. mína alveg orðrétta. Mér finnst, að vel hefði nú mátt spara þessa prentun, úr því að till. voru komnar á öðru þskj., en efniságreiningur er þó nokkur, og er það þá fyrst, að mér þykir fulllangt farið í 1. gr. og brtt. á þskj. 644, þar sem stj. er gefin heimild til að fyrirskipa bæjum, að þar skuli vera allt að einn starfandi lögregluþjónn á hverja 500 íbúa. Ég hefi velt þessu atriði töluvert fyrir mér og hefi ekki getað sannfærzt um, að rétt væri að fara lengra en að heimila að skipa einn á hver 600 manns. Það má auðvitað fyrst líta hér til höfuðstaðarins, sem hefir nú sem stendur um 30 þús. íbúa, og þá þýðir ákvæði frv., sem hv. 2. þm. S.-M. vill halda óbreyttu að efni, að hér mætti fyrirskipa að hafa 60 fasta lögregluþjóna. Nú sem stendur eru þeir 27, og viðurkennt er, að þetta sé of lítið. En ég álít ekki, að það sé nein nauðsyn og ekki nokkur þörf vegna venjulegra lögreglustarfa á venjulegum tímum að hafa hér fleiri en 50 lögregluþjóna. Mér finnst það algert hámark, sem ekki sé nokkur ástæða til að fara yfir. Jafnvel þótt þrískipt sé verði, eins og nú er tízka, þá má gera ráð fyrir, að af 50 lögregluþjónum komi a. m. k. 15 á hvern vörð, þegar frá eru taldir menn, sem eru , að halda sinn vikulega frídag, og þeir, sem hafa vörð á lögregluvarðstofunni. Og þetta er sú breyt. frá því, sem nú er, að ég ætla, að nú séu venjulega 5 og allra mest 6 á verði samtímis, — og sýnist mér ekki ástæða til að stiga stærra spor en að fjölga þeim upp í 50. Er ég sannfærður um, að hér er nægilega langt gengið. Og líti menn á næstu kaupstaðina, sem eru að verða með kringum 4000 íbúa, eins og Hafnarfjörður, Vestmannaeyjar og Akureyri, þá ætti eftir frv. að fyrirskipa þeim að halda 8 lögregluþjóna, en eftir uppástungum mínum væri ekki hægt að skipa venjulega nema 6. Ef litið er á getu lögregluliðsins til þess að halda uppi lögum og reglu, þegar einhver óregla er á ferðum, þá er auðséð, að þessi flokkur lögreglu verður jafnónógur, hvort sem í honum er 6 eða 8 menn. Aftur má segja, að í Rvík geti munað einhverju, hvort lögregla er skipuð 50 eða 60 mönnum, og má ímynda sér, að fasta liðið geti nægt, þótt einhver ofurlítill órói sé, og e. t. v. frekar 60 lögregluþjónar en 50. En í hinum bæjunum hefir þetta enga þýðingu. Þar er fasta liðið ónýtt undir eins og eitthvað verulegt ber út af.

Frá fjárhagslegu sjónarmiði tel ég hentugasta leið í þessu máli að hafa hið fasta lið hvergi fjölmennara eða kostnaðarsamara en nægi öllum daglegum þörfum, en sjáanlegt, að ekki verður komizt hjá því að hafa a. m. k. möguleika til þess að geta fljótlega skipað fram liði. Því fylgir ávallt nokkur kostnaður, og það verður því auðveldara að ráða við þann kostnað, sem minna hefir verið lagt í kostnað við hið fasta lið, sem ávallt verður nokkuð tilfinnanlegur hverjum kaupstað eftir þessu frv. Ég læt þetta nægja til þess að rökstyðja þá till. mína, að ég tel ekki rétt að fara lengra en að heimta einn lögregluþjón á hverja 600 íbúa. — Að öðru leyti en þessu held ég að 1. brtt. mín sé að efni til tekin upp í brtt. hv. 2. þm. S.-M. á þskj. 644.

Brtt. mín við 2. gr. er einungis orðabreyt. og skal ég ekki frekar um hana ræða. Hið sama má í rauninni segja um brtt. mína við 3. gr., en ég tel það sérstaklega athugavert við brtt. hv. 2. þm. S.-M. við 3. gr., að með síðara staflið till. sinnar fellir hann burt heimildina til þess að skipa fulltrúa eða yfirlögregluþjón til þess að stjórna liðinu, ef lögreglustjóri óskar þess. Þetta er að forminu til gert í 3. brtt. minni, en ég hefi tekið þetta ákvæði upp aftur á öðrum stað, nefnilega í niðurlagi 4. brtt. minnar við 6. gr., þar sem það á betur heima, eftir því sem efni þeirrar gr. verður samkv. mínum till. En hv. 2. þm. S.-M. vill nema þetta alveg burt úr frv., og það af þeirri ástæðu, að það má ekki gera ráð fyrir því, að unnt verði að velja lögreglustjóra í alla kaupstaði og kauptún landsins með það fyrir augum, að þeir hafi nægilega liðsforingjahæfileika til þess sjálfir að stýra liðinu, þegar út í einhver vandræði er komið. Í þessar stöður verður að velja lögfræðinga, sem geta verið góðir til að gegna þeim dómara- og umboðsstörfum, sem við þeirra embætti eru tengd, þótt þá bresti hæfileika til þess að vera forystumenn í þeim viðureignum, sem geta komið fyrir milli lögreglunnar og þeirra, sem þarf að stilla til friðar hjá. Ég tel það þess vegna verulega skemmd á frv., ef síðari liður 3. brtt. hv. 2. þm. S.-M. yrði samþ., án þess að 4. brtt. mín næði samþykki. Ég vildi í sjálfu sér gjarnan leita samkomulags um það við hann, hvort hann gæti ekki fallizt á, að þessi heimild fengi að standa í einhverri mynd í frv., annaðhvort þar sem hún er nú eða eins og hún er í 4. brtt. minni.

Þá er 4. brtt. mín við 6. gr. Þar munar ekki mjög miklu á því, sem hv. þm. hefir tekið upp í sína 5. brtt. Það sem á milli ber er aðallega það, að hann heldur því ákvæði frv., að kostnaður við lögregluliðið skuli skiptast milli ríkissjóðs og bæjar- eða sveitarsjóða, og það á þann hátt, að framlag ríkissjóðs sé takmarkað, en bærinn eða sveitin verða að bæta við því, sem til vantar. En ég legg til, þótt það sé ekki tekið fram í þessari till., heldur þeirri næstu, að allur kostnaðurinn við lögregluna greiðist úr ríkissjóði. Ég álít, að með þeim mjög svo takmörkuðu tekjustofnum, sem bæjar- og sveitarfélög eiga yfir að ráða, þá sé búið að gera þeim nægilega hlutdeild í því aðalverkefni að halda uppi lögum og reglum, þegar þeim er gert að greiða 5/6 hluta kostnaðar af hinu fasta lögregluliði, og ennfremur, að þar sem það eftir till. mínum og líka hv. 2. þm. S.-M. er alveg á valdi ríkisstj. að fyrirskipa það, að lögregluliðið skuli stofnað, þá sé rétt, að ríkissjóður beri í því tilfelli eins og öðrum kostnaðinn af ákvörðunum ríkisstj. Ég álít það vera alveg óeðlilegt og óheppilegt fyrir fjárstjórn bæjar- og sveitarfélaga, að ríkisstj. hafi vald til þess, hvenær sem henni sýnist, að gera ákvarðanir, sem skylda þá til útgjalda, sem ekki voru vituð fyrirfram, og þess vegna hafa ekki verið tekin upp í fjárhagsáætlanir yfirstandandi árs hvers sveitarfélags. Það hlýtur að hagga reikningsjöfnuðinum þar og geta sett þau í vanda, en fjárveitingavald ríkisins ætti að áætla í hverjum fjárl. upphæð til þessa þáttar löggæzlunnar, sem stj. grípur svo til sem nauðsynlegra útgjalda við varalögreglu, þegar til hennar þarf að taka.

Þá flyt ég loks eina brtt. Er það sú fimmta á þskj. 612, sem ekki á sér nein tilsvarandi ákvæði, hvorki í frv. sjálfu né í brtt. hv. þm. á þskj. 644. Þar er ákvæði um, að það skuli vera borgaraleg skylda hverjum verkfærum karlmanni að gegna kvaðningu í varalögreglu, nema hann geti fært ástæður, sem ráðh. meti gildar; ennfremur eru viðurlög gegn því, að nokkur maður tálmi því á neinn hátt, að kvaðningu til varalögreglustarfs sé gegnt. Ég álít, að eftir því, sem fram hefir komið, þá verði að telja þetta ákvæði alveg nauðsynlegt, til þess að varalögreglan fái þá aðstöðu í þjóðfélaginu, sem henni ber. Nú stendur þannig á, að hér í Rvík hefir þótt nauðsynlegt að stofna varalögreglu, og hefir það verið gert. Skylda til þess að gegna kvaðningu eins og sú, sem um ræðir í brtt., hefir ekki þótt vera nægilega skýr, a. m. k. ekki í lögum, og henni hefir þess vegna ekki verið beitt. Þess vegna hefir verið farið hina leiðina, að leita eftir því með frjálsum samningi við menn, að þeir taki sér stöðu í varalögreglunni. Þessir menn hafa þá aðstöðu, að það er hægt að segja um þá, að þeir hafi gengið í þennan flokk án þess að nokkrar nauðir eða borgaraleg skylda hafi rekið þá til. Nú er hér andstaða á móti stofnun og tilveru varalögreglunnar, fyrst og fremst frá þeim flokki, kommúnistum, sem hafa það beint að markmiði að gera upphlaup og taka ráðin yfir þjóðfélaginu í sínar hendur með ofbeldi, og það er algert samræmi í því af hálfu þess flokks, að hann hefir gert allt, sem hann getur til þess að spilla fyrir því, að varalögreglan sé til, og m. a. hefir hann beitt því ráði, að reyna með öllu móti að ófrægja þá menn, sem í varalögregluliðinu hafa valið sér stöðu, fyrir það að hafa gefið sig í það starf. Það hefir borið svo undarlega og óheppilega að, að nokkur hluti Alþýðuflokksins, sem annars vill vera löghlýðinn og borgaralegur flokkur, hefir í þessu máli tekið sér stöðu við hliðina á kommúnistunum, sennilega af ótta við, að einhverjir af flokksmönnum myndu dragast frekar yfir til kommúnista, ef forystumenn flokksins tækju í þessu máli sömu afstöðu og hinir borgaralegu flokkarnir. Þessi hluti Alþýðuflokksins hefir svo orðið ofan á innan flokksins og innan verklýðsfélaganna, og þessir menn hafa beitt sínu afli og áhrifum til þess að hindra það eftir megni, að menn taki stöðu í varalögreglunni og reynt að hrjá og hrekja þá menn á alla lund, sem þrátt fyrir það hafa starfað í lögregluliðinu. Á þessu þarf að verða breyt.; ef núverandi tilhögun er haldið áfram óbreyttri, er ákaflega hætt við því, að þessi byrjunarmótstaða frá kommúnistum og Alþýðuflokksmönnum verði til þess, að sá blær komist á varalögregluliðið, að það sé skipað einhliða mönnum úr öðrum flokkum; en það er óheppilegt fyrir löggæzluna í landinu, að varalögreglan í kaupstöðum og kauptúnum þurfi að fá á sig þann blæ, og til þess að komast hjá því, er hér stungið upp á að gera það að borgaralegri skyldu að gegna kvaðningu í varalögreglu. Þá er framkvæmdarvaldinu innan handar að skipa varalögregluna þannig, að hún fái ekki á sjá flokksblæ. Með þessu móti er Alþýðuflokknum opnuð leið til þess að komast út úr þeim ógöngum, sem hann hefir hleypt sér út í með því að taka sér stöðu við hliðina á kommúnistum í því að rísa öndverður gegn tilveru slíkrar varalögreglu. Það er ljóst, að Alþýðuflokkurinn hér eins og í öðrum löndum hlýtur að taka upp þá borgaralegu þjóðfélagsstefnu í þessu máli að vera þess styðjandi, að nægilega sterkt varalögreglulið sé á hverjum tíma og hverjum stað til þess að halda uppi lögum og friði í landinu. — Ég álít, að það sé nauðsynlegt að samþ. 5. brtt. til þess að þessi stofnun fái þá aðstöðu í þjóðfélaginu, sem henni ber. Um tvær síðustu brtt. mínar þarf ég ekkert að ræða. Hv. 2. þm. S.-M. hefir lýst fylgi sínu við þær með því að taka þær upp óbreyttar í sínar till.