11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 69 í D-deild Alþingistíðinda. (1429)

190. mál, byggðarleyfi

Bernharð Stefánsson:

Hv. 2. þm. Rang. þótti það fjarstæða að ræða þetta mál í sambandi við fátækraframfærsluna. En þegar það var borið fyrst fram hér á þingi, var það eingöngu með tilliti til þeirra mála, til þess að fyrirbyggja, að menn gætu flykkzt í sérstök héruð og orðið þar til byrði. Er því hæpið hjá hv. 2. þm. Rang., að þetta mál komi fátækraframfærslunni ekkert við. Í fátækramálunum er ekki sanngjarnt eða eðlilegt nema eitt af tvennu: annaðhvort að gera allt landið að einu framfærsluhéraði, eða þá að taka upp byggðarleyfi í einhverri mynd. Annars blandar hv. þm. of mjög saman búsetu og atvinnudvöl. Eftir till. virðist mér vera um það eitt að ræða, undir hvaða skilyrðum menn geta tekið sér búsetu í vissum héruðum. En þótt menn færu í önnur héruð í atvinnuleit, án þess að taka þar fast heimili, þá myndi það ekki koma hér undir og ekki ástæða til amast við því.