08.05.1933
Efri deild: 66. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 82 í D-deild Alþingistíðinda. (1450)

122. mál, kaup eða leigu á síldarbræðslustöð

Jón Baldvinsson:

Aðalatriði í þessu máli er vitanlega það, að afnotaréttur fáist á þessari verksmiðju, og þá helzt með kaupum, eins og mér skildist, að hv. frsm. telja öruggt, að fást mundi. Og ef slíkt er áreiðanlegt, mun ég ekki heimta frv. mitt fram, því tilgangi þess er þá náð. Annars hefði mér þótt gott að heyra, hvað hæstv. stj. hefir um þetta að segja. Máske hefir n. talað við hana. Mér finnst brtt. n. ekki fullnægjandi, því orðalag gr. er víðtækara en orðalag fyrirsagnarinnar. Í fyrirsögn till. er gert ráð fyrir kaupum eða leigu á síldarbræðslustöð. En mér finnst tillgr. gefa það í skyn, að ríkisstj. megi taka á leigu hverja óstarfrækta stöð, enda þótt verksmiðja dr. Pauls verði keypt. En ég held, að fyrirsögnin útiloki það, að um nema annaðtveggja, kaup eða leigu, verði að ræða. Ég vil beina þessu til hv. frsm., og vænti jafnframt að heyra frá hæstv. stj., hvort hún ætli að framkvæma þetta, ef till. verður samþ. Annars má vel vera, að hv. n. hafi rætt þetta við stj. og geti því gefið þessar upplýsingar nú þegar.