03.06.1933
Neðri deild: 94. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1289 í B-deild Alþingistíðinda. (1531)

7. mál, gengisviðauka og tekju- og eignarskattsauka

Magnús Jónsson [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Reykv. er væntanlega orðið það ljóst, að uppgötvunin um flokkasamkomulag hefir verið út í bláinn, og það er vitaskuld ekki um samninga milli flokka að ræða, þar sem þm. Sjálfstfl. eru hér óbundnir um atkv. Það er auðvitað alveg rétt, sem bæði hæstv. dómsmrh. og hv. þm. G.-K. sögðu, að það er nú komið í slíkt óefni, að þingið er búið að stofna til mikilla útgjalda án þess að hafa séð fyrir nægilegum tekjum á móti. En ég vil ekki draga af því þá ályktun, að ég sé þar fyrir skyldugur að greiða atkv. með þessu frv. Ég legg sökina algerlega á fjmrh., ef svo skyldi fara, að ekki reyndust nægilegar tekjur eða ekki yrði séð fyrir nægilegum tekjum, því að mér er kunnugt um, að það hefir hvað eftir annað verið boðið fram samkomulag um nægilega tekjuöflun til þess að standast þennan kostnað. En mér er ekki kunnugt um, að fjmrh. hafi leitað neins samkomulags um aðra leið til þess að leysa þetta mál. Hann hefir því vafalaust fyrir nokkru síðan séð, hvernig fara myndi um tekju- og eignarskattsfrv. í Ed., enda ber þessi prentaða brtt. hans vott um það og ekkert annað, að hann var búinn að sjá, hvernig fara myndi um þann tekjuauka í Ed. Það hefði því verið í lófa lagið að afgr. þetta mál með samkomulagi tveggja stóru flokkanna í þinginu, að afla tekna á annan hátt. Ég tel mig því óbundinn og enga sök hvíla á mér né öðrum í þessu efni, þótt skortur verði á nægilegum tekjum. Auk þess er sú leið, sem samþm. minn benti á, að hægt væri að sjá fyrir því síðar á árinu, að tekjur aukist, ef þessar nægja ekki.