19.03.1933
Neðri deild: 25. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1460 í B-deild Alþingistíðinda. (1760)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Haraldur Guðmundsson [óyfirl.]:

Ég vil byrja mál mitt með því að minna hæstv. forsrh. á það, að gert er ráð fyrir því, að einhverntíma nú á næstunni fari fram á ný samningatilraunir við Englendinga. Og ef það er rétt, sem víst mun vera, þá vil ég spyrja hæstv. ráðh. að því, hvort samþ. þessa samnings, með öllum þeim fríðindum Norðmönnum til handa, sem í honum felast, muni gera aðstöðu okkar til samninga við Englendinga betri? Ég fullyrði, að samþ. samningsins gerir hana verri.

Ég spurði, hvort einungis hefðu verið fluttar 6000—7000 tunnur af saltkjöti til Noregs í haust. Ég fékk ekkert svar og geng því út frá því, að þögn sé sama og samþykki. Það sýnir, að þessi réttur, sem okkur er gefinn í samningnum hefir ekki komið nema að hálfum notum þetta haustið. Ég fékk heldur ekki neitt svar við þeirri spurningu minni, hvort rétt væri, að nú væri saltkjötsekla hér innanlands. Ég verð því að ganga út frá því, að það sé rétt, sem ég hefi heyrt, að erfitt væri nú að fá saltkjöt hér innanlands. Það er dálítið undarleg bardagaaðferð, sem beitt hefir verið af formælendum samningsins, að gera okkur andstæðingum hans upp orð og setningar og slást svo við þessar sjálftilbúnu vindmyllur, en svara ekki beinum spurningum, sem koma kjarna málsins við. En það er einmitt kjarninn, sem hv. formælendur samningsins forðast. En í stað þess grípa þeir hvert hálmstrá sér til bjargar, sem þeir ná í. Nú hafa þeir náð í eitt slíkt strá, sem er samþ. 57 sjálfstæðismanna og nokkurra — ótiltekið hve margra — framsóknarmanna á Siglufirði. Þetta er strá, sem þeim er verðugt að hanga á, með öðru áslíka haldgóðu. Verði þeim að góðu!

Eins og ég gat um áður, þá eru þeir að berjast við ummæli, sem enginn hefir látið falla. Svo er t. d. um það, þegar þeir eru að kveða niður útilokunartolla. Hér hefir eingöngu verið talað um tolla af innfluttum fiski og síld, sem til hags gæti orðið fyrir ríkissjóð. Verður vitanlega að fara bil beggja um slíkan toll. Er það engin útilokunarstefna.

Þá sagði hæstv. forsrh., að ef eitthvað hefði skort á góðan undirbúning þessa máls, þá væri okkar sócíalistum þar um að kenna. Ég held nú, að hæstv. forsrh. sé eitthvað farinn að ruglast í ríminu. Ég hélt, að það hefði verið hann, sem var forsrh. og þá hans að sjá um undirbúning vegna samninganna, en ekki okkar. Ég er hræddur um, að hann hefði beðið mig með sinni kurteisi og prúðmennsku að hypja mig, ef ég hefði farið að spjalla við Norðmenn um þessa hluti. Hinu mótmælti hann ekki, að tíminn, þegar farið var fram á nýja samninga, var miðaður við það, sem Norðmönnum kæmi bezt. Þeir höfðu notið síldveiðanna, en við áttum eftir að kaupa leyfi til að koma okkar kjöti til þeirra. Ég hefi aldrei gert lítið úr því að selja kjötið. Það munar um minni upphæð. En menn mega muna það, þegar menn eru með heilögum fjálgleik að gaspra um kreppuna, að það er líka kreppa í Noregi. Ef okkur er alvara að útvega okkar vörum markað og útvega vinnu, þá er Norðmönnum það engu minna kappsmál. Að viðskipti Norðmanna við okkur séu ekki meiri en sem svarar 1% af viðskiptum þeirra við aðrar þjóðir, er tóm vitleysa, sem sést bezt á því, að umsetning Norðmanna á þessu ári var talsvert yfir 1200 millj. í norskum kr. Það þýðir ekkert að taka upp í sig fullyrðingar út í loftið, eins og úði og grúði af í síðari hl. ræðu þessa ágæta þm.

Hæstv. ráðh. sagði, að það myndi koma niður á okkur sjálfum, ef við legðum skatt á siglingar Norðmanna, af því að skip þeirra væru svo ódýr. En ég hygg, að hægt sé að fá fyllilega eins ódýr skip annarsstaðar. Norðmenn hafa að vísu haft mestar siglingar hér, en ég býst við, að það sé af því, að þeir hafa elzt sambönd, að þeir hafa tryggt sér flutninga hér, þar sem þeir geta þó boðið sömu kjör og aðrir.

Eitt þykir mér undarlegt bæði hjá hæstv. ráðh. og hv. þm. G.-K. Þeim finnst mjög til um það ósæmilega háttalag okkar jafnaðarmanna að skrifa pólitískar greinar og halda pólitískar ræður um þetta mál. Ég veit ekki, hvað er pólitík, ef ekki það, sem fer fram í sölum þingsins, þegar um viðkvæmt og stórt utanríkismál er að ræða, sem varðar mjög mikinn þorra landsmanna: Ef þeir eru hræddir um það, að kjósendurnir skjótist yfir til okkar jafnaðarmanna, kann að vera, að ég hafi ekkert á móti því. En að bera sig eins hörmulega og manneskjurnar gerðu, það finnst mér ekki karlmannlegt, hvað sem að öðru leyti má segja um þetta.

Ég ætla það væri hv. þm. G.-K., sem valdi mér og flokksmönnum mínum það viðurnefni, að við værum „afleggjarar Dana“. Nú held ég, að í umr. félli þau orð, að mér virtist honum vera gefið viðurnefni og kallaður Óli norski. Megum við báðir vel við una að fá svo sköruleg viðurnefni.

Um síldarmagn Norðmanna ætla ég ekki margt að segja. Ég vænti þess, að hv. þm. og hlustendur aðrir hafi fest sér í minni tölur mínar. Það er óhrekjandi, að eftir samningnum hefir snurpinótaskip rétt til að tryggja sér bræðslusölu á 1200 tunnum. Ekkert er því til fyrirstöðu, að allur norski flotinn geti gert þetta, eins og hv. þm. viðurkenndi. Hann kallaði það samningsrof, en sagði þó, að við því væri ekkert að gera. Og það hefir alveg gleymzt að leggja viðurlög við.

Ég verð svo að ljúka máli mínu og vinnst lítt tími til að svara því, sem sagt hefir verið. Ég vil leiðrétta, að ég hafði ekki rétt eftir hæstv. atvmrh., að hann áliti verð kjötsins 1/2 millj. Ég hefi nú reiknað þetta síðan, og munu 700 þús. kr. láta nærri. En ég vil bæta því við, að engum þarf að detta í hug, að kjötið verði verðlaust með öllu, þótt samningar verði hafnir.

Að lokum tel ég heppilegasta afgreiðslu þessa máls að fella samninginn eða fresta afgreiðslu og setja heimildarlög um víðtækar heimildir til ráðstafana gagnvart verzlun og siglingum. Í byrjun júlímánaðar næsta ár mun það sýna sig, að Norðmenn vilja kaupa nokkru verði réttindi sín hér við land.

Ég býst ekki við, að ég fái að segja meira. Ég þakka hlustendunum fyrir áheyrnina og vænti þess, að þegar menn skapa sér skoðun um þetta mál, þá festi þeir fremur í minni sér rökin heldur en gífuryrðin og hávaðann.