24.03.1933
Neðri deild: 35. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1531 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég fæ ekki séð, að norski samningurinn snerti neitt enska samninginn. Þau hlunnindi, sem Norðmenn fá með þessum samningi, eru hliðstæð þeim, sem þeir áður hafa haft hér á landi. Hvort samningur þessi er kallaður beztukjarasamningur eða ekki, skiptir vitanlega ekki miklu máli og breytir í engu áhrifum þeirra. En þegar um það er að ræða, hvort ein samningsþjóð muni nota sér þau fríðindi til fulls, er hún fær með samningnum eða ekki, þá á vitanlega að miða við það, hvernig hún hefir notað sér þessi fríðindi áður, og reynslan í þessum efnum hefir orðið sú, að Norðmenn hafa ekki notað þann rétt til fulls, er þeir hafa haft til þess að setja síld á land hér, og Englendingar hafa ekki notað þann rétt á nokkurn hátt. Ég hefi spurzt fyrir um það í Noregi, hvort væri meiri viðbúnaður en áður eða hugur á því að stunda síldveiði hér við land á komanda sumri, og hefi ég fengið þau svör, að það sæjust engin merki slíks og bæri ekki á neinum ráðstöfunum, er bentu til þess, að svo mundi verða. Að vísu er undirbúningurinn fyrir síldveiði á næsta sumri ekki kominn í fullan gang enn, en þó svo, að allmikið má þegar marka af honum, hversu mikið þessi veiði muni stunduð af Norðmönnum á komandi sumri hér við land. (HV: Hvernig er með þriggja króna verðfallið á síldinni?). Það sýnir ekkert. Það eitt getur verið nægileg ástæða í því efni, að Þjóðverjar hafa nýlega hækkað innflutningstoll á síld úr 3 upp í 9 ríkismörk á tn. Annars er það nú svo á þessum síðustu og verstu tímum, að allmiklar verðbreyt. eiga sér stað, án þess að nokkrir samningar fari fram.

Það eru allar líkur til þess, að Norðmenn noti réttindi sín á líkan hátt og áður, en ef svo fer, að það verði eitthvað meira, þá verður það til þess að auka atvinnu ísl. síldarfólksins og verzlun ísl. síldarkaupenda. Á hinn bóginn vinnum við það að losna við kjötið, sem við annars yrðum í miklum vandræðum með. Ég fæ ekki séð, hvernig Englendingar eiga að fara að því að losa okkur við 6—13 þús. tunnur af saltkjöti á ári. Hinsvegar er, eins og allir vita, ógerningur fyrir bændur í hinum strjálu byggðum landsins að koma öllu kjötinu í frystingu. Samningurinn gerir það að verkum, að okkar kjöt verður 50% meira virði í Noregi en annað innflutt kjöt þar í landi. Þess vegna eru þeir okkur í raun og veru meira virði en sem svarar verði þessara 6—13 þús. tunna, því að sú lokun, sem Norðmenn halda uppi, sú girðing, sem þeir setja kringum innlendan kjötmarkað, er þess valdandi, að okkar kjöt þangað komið er selt 50% hærra en í nágrannalöndunum. Kjöt, sem selt er til Danmerkur, er um 50% lægra en í Noregi. Það hefir að vísu verið reynt að telja mönnum trú um, að þessi norski markaður væri lítils eða einskis virði, því Norðmenn mundu ekki kaupa nema lítinn part af því kjöti, sem á markaðinn kemur. Það, sem út hefir verið flutt í ár til Noregs, er allt selt, og það mundi vera hægt að selja miklu meira, ef nokkurt saltkjöt væri til. En það var af sérstökum ástæðum í haust, sem menn söltuðu ekki meira en þetta. Það mun kannske hafa verið fryst of mikið, en saltað of lítið. Þetta getur vitanlega komið fyrir, en það er náttúrlega til leiðbeiningar á næstu árum. En það var nú svo í haust, að kjötverðið var svo lágt, að bændur vildu slátra sem minnstu, og það verða vitanlega ekki tekin ráð af mönnum í slíkum efnum.

Þessi hlunnindi í Noregi eru svo mikils virði, að tvímælalaust á að samþ. samninginn.

Í samningagerðinni við Englendinga ættum við að standa saman um það, að tala ekki of mikið um það í opinberum umr., hvernig hver lítur á einstök atriði fyrr en að endanlegum úrslitum kemur. Meðan okkar menn og Englendingar eiga eftir ótalað og eru ekki búnir að ganga frá samningnum, þá eiga menn að hafa sem minnstar opinberar umr. um hann.