12.04.1933
Efri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Á mánudaginn var kom fram ósk um, að þetta mál væri tekið út af dagskrá, og var það veitt umyrðalaust. Er til þess ætlazt, að málið verði ekki tafið af þeim ástæðum. Þau tilmæli, að beðið verði eftir heimkomu Sveins Björnssonar hafa ekki við neinar viðvaranir frá honum að styðjast. Hefi ég reyndar heyrt það út undan mér, að stj. eigi að hafa fengið slíkar viðvaranir, en það er alveg tilhæfulaust. Þegar ég spurði Svein Björnsson, hvort Englendingar hefðu gefið nokkurt tilefni til þess að norsku samningarnir væru ræddir í sambandi við samningana við Breta, svaraði hann, að þeir hefðu ekkert tilefni gefið til þess. Síðan hefi ég staðið í skeytasambandi við hann viðvíkjandi ensku samningunum og hann engar viðvaranir gefið. Sveinn Björnsson fylgdist vel með kjöttollsmálinu, var t. d. í Noregi, þegar samningarnir voru gerðir, en hann hefir sem sagt engar viðvaranir gefið stj. Ef slíkt hefði verið væntanlegt frá honum, væri það komið í skeytaformi, því að honum var kunnugt um það, að laugardagurinn næstkomandi er síðasti dagurinn. Vil ég ekki taka þá ábyrgð á stj. að bíða lengur með þetta mál.