12.04.1933
Efri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1645 í B-deild Alþingistíðinda. (1918)

86. mál, samkomulag um viðskiptamál milli Íslands og Noregs

Jón Baldvinsson:

Við umr. í gærkvöldi urðu nokkrar orðræður milli mín og hv. 1. þm. Reykv. út af þessum samningum. Fannst mér, sem fleirum, hann fara lofsamlegum orðum um samn. og halda því fram, að þeir væru ekki afleitir, samanborið við samninginn 1924. Hv. þm. mótmælti þessu í síðari ræðu og skoraði á mig að ræða nokkur atriði samninganna við 3. umr. Þessi ummæli hv. þm., sem ganga út á það að verja samningana, eru ljósasti votturinn um hug hans í málinu. Vil ég verða við tilmælum hans og sýna, að hér eru meiri réttindi veitt Norðmönnum en 1924. Hv. þm. sagði í gær, að ekkert nýtt hefði komið fram í umr., og getur þá verið, að ekkert nýtt komi fram nú fremur en áður. Það, sem ég mun segja, er að vísu ekkert nýtt, en úr því að hv. þm. þóttist ekki hafa heyrt það áður, mun ég taka sumt af því fram á ný.

Það er þá fyrst það atriði, að norsku verksmiðjurnar fá leyfi til að starfa áfram, og þar sem þær nú eru einkafyrirtæki, má búast við því, að þær muni halda þeim rétti, enda þótt samningunum við Norðmenn verði sagt upp. Þetta er það fyrsta. Þá eru önnur atriði, sem hafa mikla þýðingu fyrir aukna sölu síldar í landi. Eftir 6. gr. er aukin sala reknetasíldar í land úr 500 í 700 tunnur og snurpinótasíldar úr 700 í 1200 tunnur. Þýðir þetta, að Norðmenn munu selja hér meiri síld og auka samkeppnina við ísl. síldveiðimenn, en það hefir auðvitað lækkandi áhrif á verðið. Þá eru erlendum fiskiskipum veitt réttindi, sem þau höfðu ekki áður, eins og segir í aths. við 3. og 4. gr., þar sem stendur: „Enda þótt erlend fiskiskip hafi til þessa ekki öðlazt með íslenzkri löggjöf eða leyfi ríkisstj. Íslands neina almenna heimild til þess að bæta veiðarfæri á íslenzkum höfnum eða flytja þau í land í því skyni, þá mun slíkt hafa fram farið“ o. s. frv. Og samningsmenn benda á það, að norskum skipstjóra hafi einu sinni verið veitt stjórnarleyfi til að bæta net á Siglufirði. Þetta var aðeins einstakt dæmi, en á nú að leyfast almennt. Þetta þýðir stórum betri aðstöðu fyrir þá.

Þá er 7. gr. samningsins. Hingað til hefir engin heimild verið talin fyrir því að búlka afla á íslenzkri höfn. Þetta er nú veitt á 2 höfnum á Norðurlandi, sem þar með eru orðnar einskonar fríhafnir fyrir Norðmenn, og er það alveg nýtt. Þeim er heimilað að búlka afla sinn á Akureyri og Sigluf. Þetta var ekki í samningnum frá 1924. Ýms fleiri ákvæði eru; sem víkka réttindi Norðmanna, en ég mun ekki fara nánar út í þau.

Útgerð Norðm. hér við land eykst við þetta, en að sama skapi dregur úr íslenzkum síldveiðimönnum, sem eiga að keppa við þá. Eru þeir því almennt andvígir samningunum. M. a. má benda á það, að á Akureyri, sem verða á önnur fríhöfnin, hafa á almennum borgarafundi verið samþ. einróma mótmæli gegn samningunum af öllum flokkum í sameiningu.

Ég vék að því í gær, sem hv. þm. þóttist ekki hafa heyrt fyrr, að sjómenn í Hafnarfirði og víðar segja: Við treystumst alls ekki til þess að fara á síldveiðar næsta sumar, því að Norðmenn auka svo veiði sína, að ekki verða nokkrir möguleikar til að hagnast á útgerðinni; þó að ísl. skip fengju leyfi til þess að komast að ríkisbræðslunni, þá getur það ekki borið sig, þó að allt yrði selt í bræðslu. Verðið á síldinni er svo lágt, að ekki eru líkur til, að útgerðin beri sig að dómi útgerðarmanna, aðeins 3 kr. málið, en við söltun er verðið tæplega lægra en 6—7 krónur tunnan. Þetta er mikill munur. Af þessu má sjá, að ekki eru líkurnar miklar til þess að ísl. veiðiskip geti séð sér fært að fara á síld. Enn er það, hve mjög þessir samningar gera landhelgisgæzlunni erfiðara fyrir, ef þeir ganga í gildi. Að mínu áliti er það einkum fyrir ákvæði 12. gr., að hún verður torveldari, sökum þess að hér er um svo mörg skip að ræða, sem þurfa nákvæms eftirlits. Síldveiðiskip norsk og mörg önnur, segjum mörg hundruð, eru dreifð um afarstórt svæði, og getur nærri, að þá muni erfitt að gæta þess, að ekkert komist óhegnt inn fyrir línuna, því ekki er unnt að hafa gætur á þeim öllum, jafnvel þótt gæzla væri aukin. Mundi þurfa að margfalda kostnaðinn við landhelgisgæzluna, ef duga skyldi. Ákvæði 12. gr. eru og þannig, að þau geta hæglega gefið tækifæri til þess að láta sig reka inn í landhelgina óvart, en það er í samningnum vítalaust, og mun þá vera allerfitt að færa sönnur fyrir sektum, þótt skipið sé tekið innan línunnar. Þetta er í stuttu máli það helzta, sem ég hefi fundið samningnum til foráttu, og þótti mér rétt að rifja það upp aftur, því svo skildi ég hv. 1. þm. Reykv., að hann þættist ekkert af því hafa heyrt.