06.04.1933
Efri deild: 44. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (1956)

114. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Pétur Magnússon [óyfirl.]:

Ég hefi leyft mér að flytja litla brtt. við þetta frv. Gengur hún út á það, að kjörtímabil hafnarstj. verði lengt úr einu ári upp í 4 ár, þ. e. a. s. að kjörtímabil hafnarstjórnar verði jafnlangt og kjörtímabil bæjarstj. Ég flyt þessa till. eftir tilmælum hafnarstjórans í Reykjavík, en hafnarstj. hafði lagt fyrir hann að fara fram á það við Alþingi, að það gerði þessa breyt. á hafnarlögunum.

Ástæðan til þess, að hafnarstjórnin telur heppilegra að hafa kjörtímabilið 4 ár, er m. a. sú, að með því fæst meiri trygging fyrir því, að hafnarnefndarmennirnir hafi þekkingu á lögum hafnarinnar, þegar ekki er hægt að skipta um menn í n. árlega.

Auk þess kemur sú ástæða til greina í þessu efni, að í gildandi hafnarlögum er ákvæði um það, að samþykktir bæjarstj., sem snerta fjárhag hafnarinnar, öðlast ekki gildi fyrr en samþykki hafnarstjórnarinnar kemur til. Þetta ákvæði þykir verða lítils virði, ef bæjarstj. getur árlega skipt um menn í hafnarstjórn. Afleiðingin af því verður sú, að ef hafnarstjórn gengur á móti samþykktum bæjarstj., verða bara valdir inn í hafnarstjórnina nýir bæjarfulltrúar.

Reykjavíkurhöfn er nú orðin mjög umsvifamikið fyrirtæki og hefir að ýmsu leyti sérstöðu á meðal þeirra mannvirkja, sem bærinn hefir með höndum, enda er stjórn hennar eftir gildandi lögum óháðari bæjarstjórn heldur en þær nefndir, sem stjórna öðrum fyrirtækjum bæjarins. Það sýnist því ekki nema eðlilegt, að höfninni sé tryggt það, að stjórn hennar geti starfað nokkurnveginn sjálfstætt, án þess að bæjarstj. geti tekið af henni ráðin hvenær sem henni sýnist.

Ég hefi sem sagt flutt þessa brtt. eftir tilmælum hafnarstj. sjálfrar, og vænti ég, að bæði sú n., sem þetta mál hafði til meðferðar, og hv. d. í heild líti til hennar með velvilja.