11.04.1933
Efri deild: 48. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1679 í B-deild Alþingistíðinda. (1963)

114. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Pétur Magnússon (óyfirl.):

Það er rétt, sem hv. 2. þm. N.-M. sagði, að þessi brtt. miðar að því að gera hafnarnefndina einráðari í málum hafnarinnar heldur en nú er. En hitt álít ég aftur á móti, að ekki sé rétt, sem hv. þm. sagði, að við höfnina eigi að nota sömu meðferð og önnur fyrirtæki Reykjavíkurbæjar. Ef maður lítur t. d. á vatnsveituna, rafmagnsstöðina eða gasstöðina, þá eru þetta allt augljóslega einkafyrirtæki Rvíkurbæjar, mannvirki, sem Rvík ein nýtur hagsmuna af, en ekki aðrir hlutar landsins. En það gegnir öðru máli með höfnina. Það má segja, að Rvíkurhöfn sé fyrirtæki, sem snerti hagsmuni alls landsins. Það er kunnugt, að mikill hluti verzlunarinnar gengur í gegnum Rvík, og sama er að segja með útgerðina, að mikill hluti togaraflotans er gerður út héðan, og margir aðrir togarar og fiskiskip, sem ekki eru gerð út héðan, nota höfnina að meira og minna leyti. Einmitt það, hvað höfnin hefir víðtæka þýðingu, sýnist mér að geri það að verkum, að það sé eðlilegt, að hún hafi sérstöðu innan fyrirtækja bæjarins, og að sú stjórn, sem yfir hana er sett, fái að vera nokkuð einráð um stjórn hafnarinnar. Bæjarstj. getur eftir sem áður haft sinn íhlutunarrétt, fyrst og fremst af því, að hún kýs hafnarnefndina og getur haft tök á því að velja þá menn í hafnarstj., sem hún treystir til þess að stjórna höfninni í samræmi við hagsmuni bæjarins. En svo er hitt, að vegna þeirrar flokkaskiptingar, sem nú er orðin í bæjarstj., eins og kunnugt er, þá er aðstaða allra flokkanna þannig, að þeir geta haft áhrif á það, hvernig nefndin er skipuð. Ég get ekki séð nokkra hættu samfara því að samþykkja þessa brtt.