28.04.1933
Efri deild: 58. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (2004)

101. mál, hafnargerð á Húsavík

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Fyrir hönd n. hefi ég fátt að segja um þetta frv. Það er komið frá Nd. og er flutt af hv. þm. S.-Þ. Frv. er, eins og titillinn bendir til, um hafnargerð á Húsavík og er samið að heita má orði til orðs eftir öðrum frv. um hafnargerðir, sem gengið hafa gegnum þingið á undanförnum árum, að undanteknum orðabreytingum, sem hljóta að koma fyrir vegna staðhátta.

Í grg. frv. er það tekið fram, hver er ástæðan fyrir því, að frv. er fram komið. Það er sem sé í ráði að hefja að einhverju leyti undirbúning að bryggjugerð á þessum stað, en bryggja sú verður nokkur hluti hafnargerðarinnar. Þess vegna er það, að viðkomendur óska eftir að fá 1. um hafnargerð í heild, þó ekki sé að svo stöddu gert ráð fyrir, að í hafnargerðina verði ráðizt nema að því leyti, sem bryggjuna snertir.

Ég ætla, að ekki sé að neinu leyti áhætta fyrir þingið að samþ. þessi l., þar sem ákvæði 1. gr. mæla svo fyrir, að frá ríkisins hálfu verði ekki lagt í þetta mannvirki nema eftir því sem fé er veitt til þess í fjárl.

Ég vil svo fyrir hönd n. mæla með því, að frv. gangi fram eins og það liggur fyrir. Ég býst alls ekki við, að það sé nein þörf á breytingum á því, því n. hefir athugað frv. og borið það saman við önnur hliðstæð frv.