28.04.1933
Efri deild: 58. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (2039)

138. mál, meðalalýsi

Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er komið frá hv. Nd. og var flutt þar að tilhlutun fiskalýsissamlagsins hér í Rvík.

Eins og hv. dm. mun vera kunnugt, fjallar það um mat á meðalalýsi og verkun þess. Það eru til 1. um mat á lýsi frá 1917, en eftir því sem lýst er í grg. frv., hafa þau mjög lítið eða jafnvel ekki komið til framkvæmda.

Nú er það svo, að meðalalýsi er svo dýr vara, að miklu arðvænlegra er að framleiða það heldur en að framleiða úr lifrinni aðrar tegundir lýsis, til iðnaðar eða þess háttar. Það er því ekki lítils virði fyrir lýsisframleiðsluna og þjóðina í heild, að gert sé það, sem gera má, til þess að þessi vara geti orðið sem vönduðust og verðmætust. Þess vegna er þetta frv. fram komið, sem ekki einungis inniheldur ákvæði um mat á meðalalýsi heldur einnig ákvæði um, að engar bræðslustöðvar geti starfað að framleiðslu þessarar vöru nema undir eftirliti og með leyfi ríkisstj.

Sjútvn. hefir athugað frv. Telur hún fulla nauðsyn á að setja lagaákvæði um þetta efni. En eins og nál. ber með sér, lítur n. svo á, að fullrar varúðar verði að gæta að því er snertir kröfur um útbúnað lýsisbræðslustöðva í smærri verstöðvum. Þessi vinnsla er ekki á svo háu stigi né svo arðvænleg, að of háar kröfur megi gera til hennar. En af því að n. játar, að þörf sé á einhverju eftirliti með bræðslustöðvunum, vill hún mæla með því, að frv. gangi fram. Hún treystir því, að a. m. k. fyrst í stað verði ekki gerðar of harðar kröfur til hinna minni lýsisbræðslustöðva. Hinsvegar játar n., að á því veltur mikið, að bræðsla meðalalýsisins fari vel úr hendi, að við hana sé gætt fyllsta þrifnaðar og allrar varúðar gætt um meðferð lifrarinnar áður en hún er brædd; ella er enginn kostur að fá úr henni góða vöru.

Að öðru leyti hefir n. það að athuga við frv., að hún telur litlar líkur til þess, að hægt verði að fá hæfan yfirlýsismatsmann fyrir þau laun, sem frv. gerir ráð fyrir, sem eru aðeins 1500 kr. Ef þetta starf á að koma að dálitlum notum, hlýtur að fylgja því töluvert erfiði, a. m. k. fyrst í stað. Ef kippa á í lag því ólagi og bæta úr þeim ófullkomleika, sem vera kann nú á lýsisbræðslustöðvum úti um land, þá hlýtur yfirmatsmaðurinn að verða að hafa allmikil ferðalög meðan á því stendur.

Í grg. þeirri, sem upphaflega fylgdi þessu frv., kemur fram, að þeir, sem að frv. stóðu, hafa litið svo á, að til mála gæti komið, að forstöðumaður rannsóknarstofunnar hér í Rvík gæti einnig verið yfirlýsismatsmaður. Ég hefi borið þetta bæði undir hæstv. atvmrh. og viðkomandi mann, og töldu báðir, að ekki mundi vera hægt að sameina þessi tvö störf, a. m. k. alls ekki nema bæta um leið við manni. Virðist ekkert eftirsóknarvert að taka þá stefnu í málinu, að gera forstöðumann rannsóknarstofunnar að yfirlýsismatsmanni, ef bæta þarf við starfsmanni hvort sem er. Því auðvitað mundi forstöðumaður rannsóknarstofunnar láta yfirlýsismatsmanninum í té allar þær rannsóknir, sem hann kynni að þurfa að láta framkvæma. Er raunar engum efa bundið, að til þess að fá ríkismatið á meðalalýsi í virkilega gott horf, þarf aðstoð rannsóknarstofunnar, því það er afarþýðingarmikið, að lýsið sé efnisgreint og vottorð geti fylgt því þess efnis.

Að þessu öllu athuguðu leggur n. til, að launaákvæði frv. verði þannig, að laun yfirlýsismatsmanns verði 2400 kr., í stað 1500 kr. Telur n. ekki hægt að vænta þess, að hæfur maður fáist til þess starfa fyrir minni laun.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fara mikið fleiri orðum um þetta frv. Aðeins skal ég benda á það, ef einhverjum hv. þdm. kynni að þykja óvarlega farið í till. n. um að hækka laun yfirlýsismatsmannsins, að ríkissjóður hefir sjálfur nokkurra hagsmuna að gæta á þessu sviði. Af lýsinu er greiddur verðtollur í ríkissjóð, og aukast því tekjur hans við hverjar þús. kr., sem hægt er að hækka lýsisframleiðsluna í verði. Líti maður til annarar matsstarfsemi í landinu, er heldur ekki hægt að segja, að þessi laun séu mjög há, þar sem þetta er eini maðurinn, sem launaður á að vera af ríkisins hálfu til að líta eftir framleiðslu þessarar vörutegundar. Vænti ég, að hv. d. líti fremur á það, að hvaða gagni þessi starfsemi má koma, heldur en hitt, að spara þessa litlu upphæð, þó mikil þörf sé á sparnaði á þessum tíma, því það er spá mín, að sá sparnaður mundi hefna sín.