28.03.1933
Neðri deild: 38. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1734 í B-deild Alþingistíðinda. (2074)

107. mál, happdrætti fyrir Ísland

Frsm. (Ólafur Thors):

Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum um þessar till. hv. þm. V.-Húnv. og hv. þm. Borgf. Það er nú náttúrlega enginn vafi á því, að þingheimur allur skilur glöggt, að í þjóðfélaginu er fyrir hendi mjög rík þörf fyrir aðstoð hins opinbera til lausnar á margvíslegum vandamálum, sem sérstaklega stafa frá yfirstandandi kreppu. Það er held ég ekki vafi á því, að hugur manna í þessu efni, að því er snertir þá stétt, sem hv. flm. till. nefndi, bændastéttina, er mjög óskiptur og allur í þá áttina að verða þeim að liði, eftir því sem föng standa til. En mér finnst þessi málaflutningur hv. þm. (HJ) allur ógeðslegur. Annarsvegar þetta tilfinningarsöngl hans um þörf bænda, og hinsvegar að ónýta þær hugsjónir, sem liggja til grundvallar fyrir frv. Og hv. þm. Borgf. vil ég spyrja sérstaklega að því, hvort hann sem kreppunefndarmaður hafi í sínum vísdómi komið auga á þessa einu leið til þess að bjarga við kreppumálum landsins. Og hv. þm. Str. vil ég einnig spyrja hins sama. Ef þessir menn, sem eru jafnkunnugir bændaþörfinni eins og hv. þm. Borgf. og hv. þm. Str., og sem af einlægum og heilum hug hafa á undanförnum árum unnið að því að reyna að leysa þessi þrifamál bænda, hafa í allri sinni viðleitni og einlægni komið auga á það, að ráðið til þess að leysa bændakreppuna væri að ásælast hugmynd háskólans um happdrætti, þá er ég ekki trúaður á þetta eina ráð.

Það er alltaf óviðfelldið, þegar menn bera fram einhverjar hugmyndir, að taka þær til fósturs í allt öðrum tilgangi og skilja svo þetta mál, sem hugsjónamennirnir hafa borið fyrir brjósti, eftir á gaddinum.

En ég tek það skýrt fram, að við, sem stöndum að því að lofa háskólanum að njóta þess, sem forystumenn hans hafa borið fram til þess að leysa hans málefni, göngum þess ekki duldir, að hjá bændastéttinni og í rauninni öðrum stéttum líka er mikil og rík þörf fyrir hendi um aðstoð frá hinu opinbera. En þessu tvennu er óþarfi að rugla saman, eins og flm. þessara till. gerði.

Ég hefi ekki leyfi til þess að tala fyrir hönd n. í þessu máli, þó ég sé frsm. hennar, en ég get þó sagt það, að ég hygg, að n. muni halda fast við þær till., sem hún bar fram, með þeim breyt., sem fyrir tilstilli hennar voru gerðar. Ég tjái því ekki fylgi till. þeim, sem hér liggja fyrir.

Um till. hv. 3. þm. Reykv. get ég heldur ekkert sagt f. h. n., en mun sjálfur greiða henni atkv.