27.04.1933
Efri deild: 57. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1747 í B-deild Alþingistíðinda. (2089)

107. mál, happdrætti fyrir Ísland

Jón Baldvinsson:

Menn hafa löngum verið í vafa um það hér í d., hvort rétt væri að stofna til happdrættis. Þinginu hefir jafnan þótt það leiða til spillingar í landinu að ýta undir menn að kaupa happdrættismiða. Saga þessa máls er orðin löng hér á þingi. Hér voru einu sinni samþ. l. um þetta, sem ráðh. bar þó ekki fyrir konung, og braut þar að vísu á móti Alþingi. En hann mótiveraði þetta með því, að þessi l. væru svo skaðleg, að hann hefði ekki viljað bera þau fram. Hefir verið svipaður hugur þingmanna til málsins síðan, þar til nú, er samþ. var í Nd. að stofna til happdrættis í sérstöku augnamiði. Mun ég ekki fara nákvæmlega út í frv. Ég viðurkenni nauðsynina á því, að háskólinn sé styrktur til þess að koma sér upp byggingum, þó að það gæti vitanlega orðið á annan hátt en þennan. En fyrst málið lá nú hér fyrir, fór ég að athuga einstök atriði frv., og fannst mér að því búnu ekki rétt að samþ. öll ákvæði óbreytt, enda þótt mér fyndist höfuðatriðin mega standa. Þess vegna flyt ég 3 brtt. á þskj. 460. Mér þykir í fyrsta lagi sektarákvæði í 3. gr. nokkuð há og ósanngjörn, miðuð við hugsanleg brot á l. Ef einhverjum hefði orðið það á að selja 25 aura eða 10 aura lotteríseðil, mætti refsa honum með 200 kr. útlátum eða meiru. Er það óhæfilega mikið, og væri 10 kr. nægileg sekt fyrir slíkt brot. Er hugsanlegt, að sá, sem seldi, gæti ekki borgað 200 kr., og yrði hann þá e. t. v. að fara að Litla-Hrauni, til þess að sitja af sér sektina. Væri það þá svipað og 25 aura sakamálið á hendur hreppstjóranum á Vesturlandi hérna um árið.

Þá er önnur brtt. mín við 3. gr., sem er í því fólgin, að ég vil láta slá því föstu, að það sé ekki talið brot á l. að selja hlutamiða happdrættisins innan ákveðins félagsskapar. Ýms félög hafa happdrætti innan vébanda sinna í sérstöku skyni, menningarskyni eða góðgerðaskyni, og vil ég ekki, að talið sé brot á l., þótt happdrættismiðar séu seldir innan þessara félaga. Í 2. málsgr. 3. gr. er ráðh. að vísu heimilað að veita undanþágu um happdrætti, sem eingöngu er stofnað til í góðgerðaskyni. Vil ég ekki, að þetta heyri svo beint undir ráðh., og sízt, að hægt væri að banna ákveðnum félagsskap að leggja sérstök gjöld á meðlimi sína til þess að kaupa innanfélagshappdrætti. Þau leyfi, sem ráðh. má veita, eru ekki veitt nema fyrir einn bæ eða sveitarfélag og aldrei nema fyrir einn dag í einu. Myndi þessi till. mín leysa félög, sem vildu koma á happdrætti innan vébanda sjálfra sín, undan því ómaki að þurfa að leita leyfis ráðh. Tel ég eðlilegast, að þetta sé eins og nú, nema fram komi skýr yfirlýsing frá ráðh. um það, að þetta muni verða heimilað eftirleiðis. Leyfi lögreglustjóra til þess að hafa happdrætti innan félaga held ég, að ekki þurfi að hafa.

Þá er 3. brtt. mín. Hún er sú, að ekki skuli það teljast brot á 1., þótt ríkissjóður bjóði út innanlands happdrættislán á einkaleyfistímabilinu.

Í kreppuráðstöfunarfrv. Alþfl., sem borið var fram í Nd., er lagt til, að ríkissjóður fari þessa leið, þótt ekki sé í eins stórum stíl og þetta happdrætti, sem hér ræðir um. Vil ég ekki, að ríkissjóður sé svo bundinn við þessa löggjöf, að hann megi ekki setja slíkt lán í gang. Má gera ráð fyrir því, ef l. verða samþ. óbreytt, að gefið verði út skjal handa háskólanum, þar sem honum séu veitt einkaréttindi á að hafa happdrætti hér á landi, og mætti þá efast um það, hvort ríkissjóði væri þetta heimilt. Þess vegna fer ég fram á þessa breyt. á 3. gr. Meðan happdrættið er í höndum ríkissjóðs sjálfs. getur hann ákveðið þetta, en það getur hinsvegar bundið löggjafarvaldið, ef ákveðinni stofnun hefir verið veitt þetta leyfi, og mætti þá sækja ríkið til sekta, ef það stofnaði sjálft til happdrættis.

Vænti ég því þess, að hv. d. samþ. þessar till. mínar.