22.04.1933
Neðri deild: 55. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1800 í B-deild Alþingistíðinda. (2228)

154. mál, áveitu á Flóann

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Landbn. hefir orðið sammála um það, að flytja við frv. á þskj. 351 brtt. á þskj. 426, og mælir hún með því, að frv. verði samþ. með þeim breytingum.

Höfuðbreytingin með till. n. er fyrst og fremst sú, að í stað þess, að í frv. er gengið út frá því sem aðalreglu, að bændur á áveitusvæðinu endurgreiði lán ríkissjóðs til áveitunnar með landi, er gengið út frá því í brtt., að þessar greiðslur verði aðallega peningagreiðslur. N. leit svo á, að bændum mundi þessi aðferð yfirleitt eins farsæl, sérstaklega þar sem ekki er um hærra gjald að ræða en hér er. Hinsvegar leit n. svo á, að ef meiri hl. þessara greiðslna yrðu í landi, þá mundi þessum eignum ríkissjóðs fylgja svo mikill og margháttaður kostnaður fyrir ríkissjóð, að slíkt mundi ekki borga sig, og gæti þá svo farið, að ríkissjóði yrði betra að losna alveg við löndin fyrir ekki neitt heldur en að bera væntanlegan kostnað af þeim. Það var gert ráð fyrir því í n., að þessi lönd, sem ríkissjóði yrðu greidd eftir till. frv., mundu verða í mörgum smásneplum víðsvegar um áveitusvæðið, sem oft gæti orðið erfitt að sameina í nægilega stór lönd fyrir nýbýli. Ennfremur þótti mjög líklegt, þegar ríkissjóður væri farinn að eiga nýbýli víðsvegar um Flóann, að búast mætti við ótal kröfum um vegalagningar, framræslu og fleira þessháttar, sem ríkissjóði yrði ekki fært að sinna. Með öðrum orðum, n. varð sammála um það, að bezta og einfaldasta afgreiðsla þessa máls væri sú, að taka greiðslur þessar aðallega í peningum, en ekki í landi. Hinsvegar vildi n. ekki alveg taka fyrir það, þar sem svo stæði á, að sérstaklega þætti hentugt að stofna nýbýli, að þá mætti taka land upp í greiðslu. Þess vegna vildi n. ekki útiloka alveg þessa leið, en þó bæri að líta á hana sem undantekningu, en hitt aðalreglu, að greitt verði með peningum. Í sambandi við þessa höfuðbreyt. hefir n. gert ýmsar brtt. um tilfærslu greina í frv., úrfellingar eða viðauka við greinar, sem leiðir af þessari höfuðbreytingu.

Þá er önnur breytingin, sem n. leggur til, sú, að peningagjaldinu, sem í frv. er 80 aurar af ha. á ári í 30 ár, verði breytt í 1 kr. af ha. á ári í 40 ár. Er þetta gjald greiðsla höfuðstóls og 5% vaxta af því fé, sem Flóaáveitan telst þá skulda ríkissjóði og ætlazt er til, að hún endurgreiði. Með þessu gjaldi verður greiðslan fyrir utan vexti 17 kr. á ha., ef miðað er við allt áveitusvæðið, sem er 11—12 þús. ha., en miðað við allt það fé, sem ríkissjóður beinlínis hefir lagt til Flóaáveitunnar, verður gjaldið samkv. till. n. samtals um 200000 kr., eða 14% af framlagi ríkissjóðs, og er þá sleppt öllum öðrum óbeinum styrkjum úr ríkissjóði, bæði samkv. jarðræktarlögunum o. fl. Verður tæplega annað sagt en að mjög hóflega sé farið í sakirnar í till. n.

Þá taldi n. ekki réttlátt, þegar land yrði tekið upp í greiðsluna, að jafnmikið yrði gefið fyrir landið, hvort sem það væri áveituengi í góðri rækt eða óræktað beitiland, eins og gert var ráð fyrir í frv. Því hefir n. lagt til, að ræktað land og óræktað land skuli meta með hlutfallinu 3 á móti 2.

Þá er það að síðustu ein aðalbreyting, sem n. leggur til, að þriggja manna n. sú, er frv. gerir ráð fyrir, að hafa skuli umsjón og yfirstjórn áveitumálanna, verði lögð niður. N. leggur til, að atvinnumálaráðuneytið skuli hafa þetta starf með höndum með aðstoð Búnaðarfél. Íslands. Það er auðséð, að á þann hátt kostar þessi yfirstjórn ríkið miklu minna heldur en verða mundi eftir frv. N. hefir ekki sett nein ákvæði í sínar brtt. nm það, hverjir greiða skuli kostnaðinn við umsjón þessara mála, en hún gengur út frá því sem sjálfsögðu, að þann aukna kostnað, sem Búnaðarfélag Íslands verður fyrir vegna þeirrar aðstoðar, er það veitir, greiði ríkissjóður félaginu.

Þó svo virðist, að með brtt. n. sé gerð allmikil röskun á frv. milliþinganefndarinnar, þá eru höfuðbreytingarnar ekki aðrar en þær, sem ég hefi nú skýrt frá. 1. brtt. n., sem að efni til er eins og 11. gr. frv. með þeim breytingum, sem nauðsynlegar eru vegna þeirrar höfuðbreytingar um reglur á greiðslu áveituskuldanna, sem ég áður hefi skýrt frá, að það skuli vera aðalregla, að sú greiðsla sé í peningum. Þess vegna er það rétt, að byrja á því ákvæði, sem 11. gr. frv. fjallar um, flytja greinina fram og gera að 2. gr. Þá er af sömu ástæðu 5. gr. frv. gerð að 3. gr., ofurlítið breytt. Ég skal geta þess, að í niðurlögum 2. gr. og 3. gr. eins og þær verða samkv. brtt. eru ákvæði, sem tryggja ríkinu aðstöðu til þess bæði að krefjast og eins að heimila, að gjöldin séu greidd í eitt skipti fyrir öll með landi, þegar það telst nauðsynlegt til þess að hægt verði að stofna nýbýli á landi ríkissjóðs, þannig, að við land, sem ríkissjóði hefir verið afhent frá einni jörð, sé hægt að bæta skák frá landi annarar eða annara jarða, eftir því sem hæfilegt þykir til stofnunar nýbýla.

3. brtt. n., um 4. gr. frv., er ennfremur að efni til skyld 5. gr. og fjallar um mat á landi upp í áveitugjaldið með þeirri breyt., sem stafar af mismunandi mati á ræktuðu og óræktuðu landi.

Þá er 5. brtt., við 6. gr. frv., sem verði 5. gr., þar sem gert er ráð fyrir því, hvert tillit skuli tekið til þeirra mannvirkja, sem kunna að vera á því landi, sem tekið er upp í greiðslu. Hefir n. gert hér þá breyt. með tilvitnun til jarðræktarlaganna, að mannvirkin skuli lögð í dagsverk, hvert á 3 kr., og að þar frá dragist sá hluti, sem ríkið hefir sérstaklega lagt til mannvirkisins, eins og gerist um jarðræktarframkvæmdir, sem teknar eru upp í landskuld af kirkju- og þjóðjörðum.

Þá er með 6. brtt. lagt til, að 7. gr. frv., um verksvið áveitunefndarinnar, falli niður, og er það samkv. því, sem ég áður hefi skýrt frá. 7. brtt., um að 8. gr. verði 7. gr., fellir af sömu ástæðu orðið „nefndinni“ burt og sömuleiðis orðin í niðurlagi gr., og er það í samræmi við það, sem ég áður hefi tekið fram. Virðist það rétt, að kostnaður þessi falli samkv. landskiptalögunum á báða aðila.

Þá held ég, að ekki gerist þörf að víkja nánar að hinum einstöku brtt. Þær síðustu eru allar beinar og rökréttar afleiðingar af þeim breyt., sem gerðar eru á fyrra hluta frv., og ég hefi áður skýrt frá.