31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 152 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

1. mál, fjárlög 1934

Lárus Helgason:

Ég á eina brtt. við þennan kafla fjárl., þskj. 296, I, þess efnis, að læknisvitjanastyrkurinn verði hækkaður um 250 kr., sem renni til Álftveringa. Þennan styrk hefðu búendur þessarar sveitar átt að hafa fengið miklu fyrr, samanborið við aðrar sveitir. Það er áreiðanlegt, að margir hreppar hafa um mörg ár haft læknisvitjanastyrk, sem hægari aðstöðu hafa haft en þessi hreppur. Álftveringar geta og mega sækja lækni í tvær áttir, til Víkur eða austur á Síðu, eftir því sem þeir heldur kjósa, og er hvortveggja leiðin mjög erfið yfirferðar, einkum á vetrum. Til Víkur er styttra að fara, og þó er það um 50 km. eyðisandur með vondum vatnsföllum, eins og allir vita, sem þarna hafa farið um. Hin leiðin, til Síðuhéraðs, er allmiklu lengri, og enn verri yfirferðar vegna vatnsfalla og snjóþyngsla á vetrum; verður þarna að fara yfir 20 km. eldhraun eftir tröðum, sem grafnar eru gegnum hraunið og fyllast í snjóalögum á veturna. Verður þá að krækja niður á Meðalland, til þess að komast þessa leið, og lengir það leiðina um meira en helmingi. Ég tel því sjálfsagt, að þessi styrkur verði veittur. Eru fáir hreppar á landinu, sem meir eru styrksþurfar í þessum efnum, ef nokkrir eru, og eina eðlilega afleiðingin af því, ef þessi till. verður felld, er, að strikaður verði út allur meiri hl. af þeim styrkjum, sem veittir eru til læknisvitjana.