09.05.1933
Efri deild: 67. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1818 í B-deild Alþingistíðinda. (2253)

154. mál, áveitu á Flóann

Magnús Torfason:

Mér er skylt að hefja mál mitt með því, að lýsa þakklæti fyrir meðferð málsins, og þá ekki sízt til hv. landbn. hér í deildinni. Ég get fylgt öllum brtt. n. og hefi ekkert við þær að athuga, svo að þess vegna þyrfti ég ekki að segja meira.

En sakir þess, sem fram hefir komið í umr., vil ég geta nokkurra atriða, sem þýðingu hafa og eru til skýringar.

Hv. 4. landsk. sagði, að það orkaði tvímælis hvort ágóði væri fyrir ríkissjóð að sælast eftir löndum í áveitugjald. Þetta er alveg rétt, ef það væri meiningin að fara að reka á eftir stofnun nýbýla. En ef nýbýlastofnunin fer eftir eðlilegri rás, getur þetta ekki orðið ríkissjóði til útgjalda. Ég þykist vita, að ábúendur myndu yfirleitt vilja leigja þessi slægjulönd af ríkissjóði. Vera mætti, að sú leiga yrði ekki há, a. m. k. austan til í Flóanum, meðan kreppan stendur yfir, því að jarðarafgjöld þar hafa yfirleitt verið ákveðin í peningum, en ekki í landaurum, og því hafa afgjöldin ekki lækkað að sama skapi og afurðirnar. Því er ekki hægt að leggja þann skatt á þessar jarðir, sem ella hefði mátt.

Hv. 4. landsk. sagði, að fleiri bændur vildu greiða áveituskatt í peningum en láta land af hendi. Mér er óhætt að segja svo mikið, að þetta muni geta orkað tvímælis. Þeir, sem búa næst við Ölfusá, munu flestir heldur kjósa peningaborgun, en þeir, sem búa austur í Flóanum, fremur að láta land af hendi. Jarðirnar við Ölfusá eru verðmeiri en hinar, vegna betri samgangna og markaðsaðstöðu. Ég fór austur um síðustu helgi, m. a. til að kynna mér þetta mál, og hafði tal af ýmsum glöggum og góðum mönnum, og fannst það koma fram, að fleiri vildu láta af hendi land en fé.

Um brtt. við 2. gr. er það að segja, að mér hefir virzt það vaka fyrir mönnum eystra, að þeir vildu, að lögin væru í samræmi við Flóaáveitulögin frá 1917, og að því er stefnt hér, og mun ég því greiða brtt. þeirri atkv.

Þótt gjaldið sé ekki hátt, verður þetta þó nokkur upphæð með tíð og tíma, en leiga fyrir slægjur myndi líka verða nokkur fúlga. Greiðsla bændanna er ekki mikil, en ríkið hefir þegar fengið nokkra uppbót með allmjög hækkuðu fasteignamati á jörðum á þessu svæði. Og það fær líka uppbót á þann hátt, að á þessu svæði verða betri búþegnar en ella, vegna þessa áveitufyrirtækis, og aukin menning í öllum greinum, svo að ríkissjóður sker upp bæði sýnileg og ósýnileg verðmæti af áveitunni.