21.02.1933
Neðri deild: 6. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 174 í D-deild Alþingistíðinda. (2336)

38. mál, kreppunefnd

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég get eftir atvikum verið því meðmæltur, að slík n. sem þessi verði skipuð. Að vísu er það ekki höfuðnauðsyn vegna kreppumálanna, því að hér í þinginu eru margar n. með eðlilegri verkaskiptingu og þurfa því ekki að girða fyrir heppilega nefndarafgreiðslu slíkra mála. En þar sem svo er ástatt, að einn þingflokkurinn hefir enga fulltrúa í n. þessum, þá er sanngirni, að sérstök n. verði skipuð í þessi mál, svo flokkurinn fái þar n.-atkv., fyrst hann óskar þess. Til slíkrar n. ætti vitanlega að vísa öllum kreppumálum allra atvinnugreina og höfuðstétta í landinu, og e. t. v. kæmi það til greina, ef þinginu sýndist, að vísa þangað einhverjum þeim kreppumálum, sem snerta hag ríkissjóðs sjálfs, því að hann á við kreppu að búa eigi síður en aðrir hér á landi. — Ég lýsi sem sagt yfir meðmælum með því, að n. verði skipuð. En fari svo, að till. verði samþ., þá óska ég, að n. verði ekki kosin fyrr en á næsta fundi.