18.04.1933
Neðri deild: 52. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í D-deild Alþingistíðinda. (2410)

88. mál, björgunarstarf og eftirlit með fiskibátum á Faxaflóa

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

N. hefir fyrir löngu athugað þetta mál og gefið út nál. á þskj. 257. Henni var ljóst, hvílík nauðsyn er á því, að komið sé skipulagi á björgunarstarfsemina á þeim stað, þar sem smábátaútgerð er mest stunduð, eða hér við Faxaflóa. Þeim málum verður ekki komið í fullkomlega gott horf, fyrr en hægt er að gera út sérstakan, hentugan björgunarbát, sem gæti fylgt fiskibátunum úr höfn og í. En því miður er ástæðum ríkissjóðs og landsmanna þannig háttað nú, að n. telur ekki unnt að ráðast í slíkt fyrirtæki að sinni. En þá er ekki nema eðlilegt, að gripið sé til þess ráðs að skora á ríkisstj. að láta strandvarnarskip annast þessa gæzlu, eins og áður hefir verið ákveðið gagnvart Vestmannaeyjaflotanum. En undanfarin ár hefir ekki verið hægt, vegna fjár- skorts, að halda úti að staðaldri báðum björgunarskipunum, heldur hafa þau verið látin annast eftirlitsstarfsemina til skiptis, til þess að spara útgerðarkostnaðinn. Hefir tekizt að færa hann allmikið niður hin síðustu ár. Vegna áframhaldandi fjárhagsörðugleika má búast við því, að svo verði einnig að haga því næsta ár, því að það mundi skapa mjög mikinn aukinn kostnað að láta annað landhelgisgæzluskipanna fylgja þessum flota að staðaldri.

Það er kunnugt, að góð samvinna hefir verið milli Slysavarnafél. Ísl. og yfirstjórnar varðskipanna um að leita að og hjálpa bátum, sem hafa verið í hættu staddir. N. treystir því fyllilega, að svo verði áfram. Og í því trausti, að sú samvinna verði framvegis framkvæmd með eins mikilli lipurð og verið hefir hingað til, leggur n. til, að málið verði afgr. með þeirri rökst. dagskrá, sem hún flytur á þskj. 257.