26.05.1933
Efri deild: 81. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 293 í D-deild Alþingistíðinda. (2426)

195. mál, Þingvallaprestakall

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég vil reyna að vera stuttorður, af því að ég býst ekki við, að það verði miklu við bætt í þessu máli. Þetta er gamall kunningi hér. Frá því 1919 hefir í báðum d. og Sþ. verið stór barátta um þetta mál. Það var hafin ný stefna, sem gekk út á að vernda Þingvelli. Nú liggur till. fyrir, sem stefnir í þá átt, að Þingvellir komist í samskonar niðurníðslu og þeir voru komnir í. Hér hafa verið, þó í litlu sé, einskonar átök milli kirkjunnar og ríkisvaldsins. Þetta hafa verið einskonar Staðamál í litlum stíl. Það er rétt að nefna það atvik, sem kom fyrir, þegar brauðið losnaði eftir fráfall síra Jóns heitins prests þar. Þá lá fyrir beinlínis skipun þingsins um það, að Þingvallabrauð skyldi ekki veitt skilyrðislaust, eða jörðin skyldi ekki vera byggð nema til stutts tíma. Biskupinn yfir Íslandi hefir sennilega ekki vitað um þetta, því að hann auglýsti brauðið þvert ofan í bann Alþingis, og ríkisstj., sem þá var, gætti ekki að þessu fyrr en um seinan og ekki varð við snúið, og brauðið var veitt síra Guðmundi Einarssyni, þvert ofan í vilja Alþingis. Ennfremur hafði presturinn heldur ekki gætt vilja Alþingis, því að hann hafði byggt tvær af þessum jörðum, sem átti að friða, upp á lífstíð, og sú gleymska hans eða vöntun á samstarfi við Alþingi varð til þess síðar meir, að það varð að kaupa bændurna fyrir allmikið fé til þess að hætta búskap þar. Það er rétt, að hv. þd. viti um þessi átök, því að þau sýna, að það er fyrr en nú, að um þetta hafa verið tvær skoðanir. Kirkjan hefir viljað halda í gamlan vana í þessum efnum og haldið í það með meira forsi en sanngjarnt var eins og hér stóð á. Ég hygg, að það hafi verið 1925, sem Alþingi kaus n., sem reyndi að ná samkomulagi við prestinn á Þingvöllum. Það voru flokksmenn hv. tillögumanns, hv. þm. Borgf. og Árni Jónsson ritstjóri, sem stóðu fyrir þessu. Það tókst ekki að ná samkomulagi við prestinn um aðstöðu til þess að þingið gæti haft þar sína hátíð, og þannig stóð það þegar ég kom í stj. Hátíðarnefndin sendi ályktun til þingsins og bað um, að þannig yrði losað um hnútana á Þingvöllum, að Alþingi gæti komið þar fram sínum nauðsynlega vilja í sambandi við hátíðina og annað mál, friðunina. Eins og hv. tillögumaður veit, var þáv. þm. Seyðf., Jóhannes Jóhannesson, form. alþingishátíðarnefndar. Það kemur fram í umr. 1928, að n. hafði óskað eftir þessu. Hann sagði, að það þyrfti að athuga betur, hvort það þyrfti að leggja niður brauðið, en vildi ekki greiða atkv. um það. Þá kom það fram í umr., að presturinn, sem var á Þingvöllum, hafði verið búinn að krefja bæði núv. hv. 1. landsk., sem fjmrh. og forsrh., og hv. þm. Str., sem síðan varð forsrh., um 1200 kr. leigu eftir stjórnarhúsið á Þingvöllum. Þetta og önnur atriði urðu til þess, að þingið ákvað, að nú skyldi úr því skorið, að Þingvellir væru fyrst og fremst staður þingsins, en annars hafði enginn neitt við það að athuga, að þar væri kirkja og kristnihald. Þingin, sem staðið hafa frá 1919, hafa litið svo á, að það væri Alþ., sem ætti að hafa umsjón og vernd Þingvalla með höndum. Hinsvegar hefir aldrei verið þrengt þar að kristilegri starfsemi, eins og líka hefir komið fram í umr. hér, þegar um það var deilt, hvort það ætti að vera presturinn, sem gæti sett Alþingi og ríkisstj. stólinn fyrir dyrnar, t. d. með húsaleigu, með því að byggja jarðir, þar sem átti að friða skóginn, o. fl. Þetta verður til þess, að á Alþingi 1928 kemur fram frv. um að leggja niður prestakallið, og var það bein afleiðing af frv., sem samþ. var á þinginu 1927, sem ég minntist á í fyrradag, þar sem stofnað var nýtt brauð hér í Mosfellssveitinni. Þeir, sem vildu vinna að verndun Þingvalla, vildu hlynna að málinu með því að setja prest að Mosfelli til þess að stunda andlegar þarfir Þingvallasveitar líka.

Á Alþingi 1928 gengu fyrst fram friðunarlögin, sem skáru úr um þetta efni og sýndu, hvað Alþingi ætlaðist til. Þegar búið var að samþ. friðunarlögin, þá var borið fram frv. af tveimur þm. um að leggja niður brauðið á Þingvöllum. Þetta mál gekk í gegnum Ed. og hefði gengið í gegnum Nd., ef ekki hefði staðið svo á, meðan málið var fyrir Nd., að presturinn, sem þá var á Þingvöllum, fékk annað brauð, sem hann vildi heldur, Mosfell í Grímsnesi. Við það leystist málið. Þingið var alveg sannfært um, að það myndi engum manni detta í hug eftir hátíðina, að þar yrði farið að hugsa um búskap eða það yrði farið að byrja á þeirri ágengni við Alþingi, sem komið hafði fyrir áður. Sést það á meðferð þessa máls á Alþ. 1928, hvað Alþingi var sannfært um, að það gæti ekki komið til mála að hafa þarna ábúð, sem gengi á móti anda friðunarstarfseminnar. Ed. var búin að samþ. og Nd. hafði gengið inn á það við 1. umr. að borga prestinum á Þingvöllum 2 þús. kr. biðlaun í 5 ár til þess að sýna honum þá fyllstu sanngirni, ef hann yrði að hverfa frá jörðinni. Sú eina ástæða til þess, að málið gekk ekki fram, var, að maðurinn fékk annað brauð; annars hefði því verið haldið lengra áfram. Þá vil ég leiðrétta misskilning, sem kom fram í ræðu hæstv. kirkjumálaráðh. í fyrradag og sem aftur var endurtekinn og gert meira úr af hv. tillögumanni. Það er sá misskilningur, að Þingvallanefnd hafi í raun og veru ekki neitt að segja um bæinn á Þingvöllum. Þangað sé hægt að setja prest hvenær sem er. Ég vil, til þess að skýra þetta, vitna í friðunarlögin frá 1928. Þó að þau kveði ekki beinlínis á um þetta, sýna þau samt greinilega anda þingsins. Þar segir svo: „Frá ársbyrjun 1930 skulu Þingvellir við Öxará og grenndin þar vera friðlýstur helgistaður allra Íslendinga“. Svo er sagt, að þetta svæði eigi að vera undir vernd Alþingis, Þingvallanefnd ráði yfir öllu þessu svæði. Á hinu friðlýsta svæði og í landi fjögra eða fimm jarða, sem nefndar eru, má ekki gera neitt jarðrask, húsabyggingar, vegi, rafleiðslur eða önnur mannvirki, nema með leyfi n.

Dettur hæstv. ráðh. það í hug, að n. komi húsin á Þingvöllum ekki við? Ég játa það, að ég hafði búizt við öðru af hæstv. ráðh., og er hræddur um, að hann hafi ekki kynnt sér málið nógu vel. En raunar ræður n. öllum hlutum þarna og notum af þeim, þar til 1. um friðun Þingvalla hefir verið breytt. Ég tek það fram, að það hefir verið fastur vilji Alþ. undanfarin ár, að þessi friðun Þingvalla yrði framkvæmd á sem beztan og fullkomnastan hátt. T. d. má n. láta taka með eignarnámi jörð austan við friðunarsvæðið, ef hún telur það nauðsynlegt. Það er Þingvallan., sem hefir öll yfirráð á þessu svæði, og það er Þingvallabær, sem á þetta land. Og vilji ráðh. athuga þetta betur, þá mun hann sjá, að allir leigusamningar um þessa jörð eru gerðir af Þingvallan. Hún er svo mikill húsbóndi þarna, að ekki má gera smáskurð á friðunarsvæðinu án vilja hennar og vitundar. Þessi misskilningur hæstv ráðh er eðlilegur, þar sem hann hefir ekki starfað á þingi fyrr en nú. Hann hefir ekki fylgzt með því, hvernig Alþ. síðan 1919 hefir alltaf verið að draga í sínar hendur yfirráðin yfir Þingvöllum. Og það var yfirleitt álitið óhappaverk, þegar biskup auglýsti brauðið til umsóknar í trássi við þingið. Og enn er í gildi þál. frá Sþ. um það, að ekki skuli auglýsa brauð þannig. En ég vil benda hv. till.manni á það, að þó að presturinn sitji ekki á Þingvöllum, geta þessar 100 sálir þarna í sveitinni fengið prestsþjónustu. Presturinn gæti verið búsettur á annari jörð. T. d. er nú laus lítil en góð jörð, Arnarfell, sem liggur vel fyrir prestssetur í þessum sóknum. Ég talaði í gær vil hreppstjórann í Þingvallasveit, m. a. um þessa jörð, og óskaði eftir því, að þessi jörð yrði ekki byggð, eða a. m. k. ekki byggð svo fast, að Alþ. gæti ekki tekið hana sem prestssetur, ef því sýndist svo. Og sé hv. flm. alvara með að fá prest þangað, en ætli

sér ekki aðeins að hefja stríð við Alþ. út af friðuninni, þá er þarna opin leið, sem Alþ. gæti farið í þessu máli.

En ég get sagt bæði hæstv. ráðh. og hv. 6. landsk., að þótt prestur yrði skipaður nú í Þingvallasveit, með aðsetur á Þingvöllum, þá yrði hann húsvilltur. Honum yrði úthýst á Þingvöllum. Og það er víst, að Alþ. lætur þetta mál ekki niður falla, þó að biskup veitti þetta brauð í trássi við vilja þess. Eins og heimatrúboðið danska, sem í 25 síðustu árin hefir verið að reyna að þrengja sér inn hér á landi án þess að ná nokkrum árangri, eins mun þetta ekki verða alveg varnarlaus sókn. En eigi að troða fótum vilja Alþ. í þessu máli, mun það taka til sinna ráða. En ég ætti að segja hæstv. ráðh. og hv. flm., hvað menn úr Þingvallasveitinni segja mér um þörfina á presti þar. Þar var messað annanhvern sunnudag, og venjulegast komu til kirkjunnar þetta 4-5 manneskjur, af næstu bæjunum. Þó var presturinn ágætismaður og góður prestur. En sóknin er svo fámenn, að þar er eiginlega ekkert að gera fyrir prest, og því síður nú, þegar útvarpið flytur stöðugt ræður héðan úr Reykjavík.

Nei, þessi till. er komin fram af hreinpólitískum ástæðum. Hún á að verða vopn gegn friðuninni, og er það áframhald af stefnu Íhaldsflokksins í þessu máli, sem alltaf hefir verið á móti friðun Þingvalla. Sá ágæti fyrirrennari hv. flm., fyrsti kvenfulltrúi okkar, sem að mínu áliti stóð hv. 6. landsk. að öllu leyti framar, komst í svo mikinn ham, er rætt var um þetta hér á þingi, að hún sá ástæðu til þess að biðja afsökunar fyrir hörku í málssókninni. — Það er vitað, að umrædd sveit hefir ekki þörf fyrir fleiri messur en hún fær nú, og að margir af þeim, sem skrifa undir áskorunina um prest, lýsa því yfir prívat, að þeir muni ekki frekar sækja kirkju hér eftir en hingað til. Það eru prestarnir sjálfir, sem þarna hafa hönd með í bagga. Þeir vilja af atvinnuástæðum, að fjölgi í stétt sinni, og smala svo slíkum undirskriftum undir áskoranir um fjölgun presta og komið hafa fram í þessu máli. Fólk skrifaði undir þetta af bóngæzku, en ekki sannfæringu.

Hv. þm. stakk upp á því, ef presturinn skyldi hafa lítið að gera á Þingvöllum, gæti hann séð um barnafræðslu í sveitinni. Það yrði líkt með það og kirkjustarfsemina, að það eru ekki mörg börn þar til þess að sækja skóla. Enda er miklu betra húsnæði til kennslu á næsta bæ, sem ekki er einu sinni notað til fullnustu, sökum þess hvað börnin eru fá.

Hv. þm. gaf í skyn, að ég væri á móti prestum. Ég vil mótmæla þessu. Hvað snertir hina pólitísku hlið kirkjumálastjórnarinnar, þá var ég í kirkjumálan. hér á árunum, og sú n. undirbjó þau einu kirkjulegu l., sem sett hafa verið hér á landi síðan 1910. Þó að aðrir ráðh. hafi ef til vill staðið nær heimatrúboðinu danska, eða farið oftar í kirkju en ég, hafa þeir þó ekki stutt kirkjuna með sanngjörnu löggjafarstarfi eins og ég. Og ég vil í því sambandi beina nokkrum orðum að hæstv. kirkjumrh. Hann veit, að sá flokkur, sem ég tilheyri, fékk aðkast frá flokksmönnum hv. 6. landsk. fyrir starf sitt í þágu kirkjumálanna. Það, að Framsfl. notaði aðstöðu sína til þess að bæta kjör prestanna, var notað til árása sem eyðslusemi, en í raun réttri var það aðeins uppfylling á sanngjörnum kröfum prestastéttarinnar. Og mér eru það vonbrigði, ef hæstv. kirkjumálaráðh. ætlar nú að fara að leggja út í stríð við þann flokk, sem þannig hefir staðið á verði um kirkjuleg málefni og hagsmuni prestastéttarinnar. Það er ekki rétt, að ég sé að reyna að verja Þingvelli fyrir prestum, heldur er mér umhugað um, að þessi þjóðgarður okkar Íslendinga sé varinn fyrir ágangi. Og hæstv. kirkjum.ráðh. ætti að vita það, að ekki þýðir neitt að leggja út í slíka baráttu við Alþ., þar sem þingið síðan 1919 alltaf hefir barizt fyrir því að vernda friðun Þingvalla undir öllum kringumstæðum. Og ég vil í þessu sambandi láta þess getið, að þótt ég sé ekki kirkjurækinn eða áhangandi Bjarmastefnunnar, þá hefir það hrifið mig djúpt, þegar ég hefi séð þau miklu og voldugu guðshús, sem liðnar kynslóðir hafa byggt úti í löndum, ég hefi fundið áhrifin frá byggingunum sjálfum, þá stemningu, sem byggingameistararnir hafa vitað af og ætlazt til að hrifi hugi safnaðanna í samræmi við kenningar kristindómsins. Hér á landi hafa ekki verið byggðar fallegar kirkjur, og veldur því sennilega vöntun á hentugu byggingarefni. Sú eina fallega kirkja, sem til er hér á landinu, er byggð af erlendu trúarbragðafélagi, sem hér á fremur lítil ítök. En það er einn staður á Íslandi, sem alltaf hefir sömu áhrif á mig og dómkirkjur Suðurlanda. Og það eru Þingvellir. Staðurinn hrífur menn djúpt með hátign sinni, og má sjá þess bezt merki við hátíðahöldin 1930. Þá var það svo með marga Íslendinga, að þeir þekktu varla sjálfa sig, svo breyttir voru þeir. Þeir, sem annars voru vanir að þamba áfengi við öll hátíðleg tækifæri, drukku ekki vín, af því að þeir vildu ekki rjúfa helgi staðarins. Það er þessi æðri skilningur á gildi Þingvalla, sem liggur á bak við allar friðunarráðstafanirnar. Það hefir vakað fyrir mönnum að láta náttúruna njóta sín sem bezt, og því væri það goðgá að fara nú að byrja aftur búskap á Þingvöllum, sem gæti orðið til þess að eyðileggja útlit staðarins. Ég vil taka t. d. eitt atriði úr baráttunni með og móti friðuninni. Það var með naumindum, að það tókst að hindra, að sett yrði rafstöð í gjána og Öxarárfoss virkjaður. Ég er hræddur um, að lítil prýði hefði orðið að slíku mannvirki. Því var það tekið fram í friðunarl., að engin mannvirki eða jarðrask mætti gera á Þingvöllum án leyfis n. Alþ. 1928 vildi ekki, að Öxarárfoss yrði virkjaður. En það var hægt að gera áður með því að presturinn leyfði það. — Hv. þm. átaldi það, að ég hefði átt þátt í því, að bærinn var byggður á Þingvöllum. En það var hátíðarn., sem heimtaði, að það yrði gert. Hún taldi ekki fært að sýna staðinn eins húsaðan og hann var. Það kom ríkinu við. En ríkinu sem slíku kom ekki við að byggja þar kirkju. Það er mál safnaðarins, og hátíðarn. gat ekki farið að gera mál safnaðarins að sínu máli. (Dómsmrh.: Er kirkjan safnaðarkirkja?) Það má vera, að hæstv. dómsmrh. vildi gangast fyrir kirkjubyggingu þarna og leggja einar 70 þús. kr. í það fyrirtæki. Annars finnst mér, að þarna ætti að koma fram trúarskörungseðli hv. flm. till., og hún ætti að gangast fyrir því, að þeir ríku íhaldsmenn í Reykjavík, sem þrásæknastir eru í kirkjurnar, legðu á sig gjafir til kirkjubyggingar á Þingvöllum. (GL: Það þýðir lítið að fá þar kirkju, ef enginn prestur má vera þar). Ja, þó hefir nú verið byggð stór kirkja á Grund í Eyjafirði án þess að þar sé nokkur prestur.

Um sálma síra Matthíasar get ég verið fáorður. Það vita allir, að það lá við borð, að kirkjustjórnin ræki síra Matthías frá embætti. Og officielt hefir kirkjan ekki fengizt til þess að gefa út sálma hans. Sálmabókin hefir verið prentuð upp aftur og aftur full af óendanlega miklum leirburði, af því að kirkjustjórnin hefir forsmáð sálma síra Matthíasar og annara góðskálda. (GL: Vill ekki þm. nefna dæmi upp á leirskáldin?). Ég vil biðja hv. þm. að athuga sjálfa sálmabókina, telja sálma síra Matthíasar og telja svo saman, hver muni eiga þar flesta sálmana. Og sá, sem á þar flesta sálmana í hlutfalli við síra Matthías, er mesta leirskáldið.

Hv. þm. talaði um menningarstarfsemi prestanna. Ég veit það, að prestar unnu talsvert að menningarmálum áður fyrr, þegar þeir voru einu lærðu mennirnir í sveitunum. Nú hefir þetta breytzt, svo að þeir munu hafa lítið annað að gera en að sinna sínum störfum. Ég veit ekki nema um einn prest, sem vinnur nú kappsamlega að uppfræðslumálum, en það er sr. Sigtryggur Guðlaugsson að Núpi. Hann hefir fórnað mjög miklum tíma í uppfræðslustörf, en það mun nú annars orðið fátítt. Og á Þingvöllum er varla þörf fyrir slíkt.

Hv. þm. þótti það ljóður á ráði núverandi umsjónarmanns á Þingvöllum, að hann gæfi ekki kaffi eins og verkast vildi. En það var einn hv. alþm. að hvísla því að mér rétt í þessu, að presturinn á Sauðanesi, sem mun vera allnákominn hv. 6. landsk., hafi auglýst það á kirkjuhurðinni, að þar yrði ekki gefið kaffi eftir messu. Svo það er auðséð, að þessi ljóður getur líka verið á ráði presta. Ég er ekki að lasta prestinn neitt fyrir þetta, heldur aðeins að minnast á það til samanburðar.

Þá var hv. þm. að tala um það af mikilli vandlætingu, að umsjónarmaðurinn á Þingvöllum skyldi ekki setja upp bátinn á Þingvallavatni á haustin. Þessi bátur rúmar 40-50 manns, og verður ekki settur á land nema með dráttarvél, sem ekki er til við Þingvallavatn. Og það er eins ósanngjarnt að ætlast til þess, að umsjónarmaðurinn setji þennan bát upp, eins og það, að ætlast til, að hv. 6. landsk. gerði það.

Hv. þm. gat ekki neitað því, að umsjónarmaðurinn hefir sömu laun og hann hafði sem kennari hér í Reykjavík, og um 80 kennarar hér hafa nú þetta kaup. Þessi maður fór burt frá sínu kennarastarfi hér og tók að sér þetta starf, þótt gera mætti ráð fyrir, að hann verði rekinn þaðan fyrirvaralaust, ef flokksmenn hv. 6. landsk. komast í meiri hl. á þingi. Þessi maður hefir áreiðanlega meiri og betri tilfinningu fyrir Þingvöllum en hv. 6. landsk. Þessi maður á hugmyndina að þjóðgarði á Þingvöllum, og það er þessi maður, sem hefir gróðursett flest grenitrén þar, sem nú vaxa um 40 cm. árlega. Hann er búinn að gróðursetja þarna á Þingvöllum nokkur þúsund tré. Ég vil í því sambandi minnast þess með þakklæti, að sr. Jón Thorsteinsson gróðursetti nokkur tré við bæinn á Þingvöllum. Nú eftir 28 ár, eru þessi tré orðin 3 mannhæða há. Og þetta er eini lífræni votturinn, sem prestarnir á Þingvöllum hafa látið eftirkomendunum í té.

Sú ástæða með till. er einskis virði, að Þingvallasveitarbúar séu prestlausir, 2 ágætir prestar þjóna þessu brauði. Enda er aðaltilgangurinn ekki sá, að fá prest á Þingvöll, heldur leyfi til þess að setja þar upp kúabú.

Þá segir hv. þm., að það sé ófriður og ósætti á Þingvöllum. Þar til er því að svara, að það er aðallega frá Reykjavík; frá flokki hv. þm. er haldið uppi látlausri agitation á móti friðun Þingvalla. Það eru skrifaðar greinar um menn í Þingvallasveit í íhaldsblöðin hér og allt gert til þess að espa menn upp á móti friðuninni.

Það er eitt dæmi, sem hefir komið fyrir nýlega, sem sýnir það helzt. Það er það, að tveir bændur höfðu haft allmikinn sauðfjárbúskap inni í girðingunni, og það var búið að borga þeim til þess að hætta búskap þarna allmikið fé. (GL: Hvað mikið?). Það getur hv. þm. vitað. (Dómsmrh.: 15500 kr. — GL: Úr kirkjujarðasjóði?). Það var það, sem það var metið. Það er a. m. k. gert í ákveðnum tilgangi að bjarga Þingvöllum frá áníðslu þessara manna. En hvað var svo gert undir áhrifum manna hér í Reykjavík? Það, að þessir menn, sem var búið að borga 15500 kr. fyrir að hætta búskap, gerðu það ekki. Þeir hafa haft féð þar í vetur í skóginum, og Þingvallanefndin hefir síðast fyrir fáum dögum, á mildan og föðurlegan hátt, gert ráðstafanir til þess, að slíkt kæmi ekki fyrir aftur. Heldur hv. þm., að það sé ekki ófriður að þessu gagnvart Þingvöllum? Heldur hann, að það sé óeðlilegt, þó að umsjónarmaðurinn, sem er að reyna að vinna að því, að Þingvellir klæðist skógi, vilji ekki láta slíkt líðast?

Ég er ekki að ásaka þessa bændur. Þetta er náttúrlega ekki nema dugnaður, en mér hefir aldrei dottið í hug, að þeir leyfðu sér að gera þetta nema undir áhrifum fólks héðan úr Reykjavík, sem reynir að gera allt, sem það getur, til þess að friðunin verði sem erfiðust.

Ég er búinn að taka það fram, að hvergi eru brotin eins mörg hlið eins og á Þingvöllum. En hverjir eru það, sem gera það? Það eru þeir, sem vilja ekki friðun Þingvalla, það er að segja þjóðernishreyfingin, sem er að hreyfa sig í landinu. Þar kemur fram sá „kultur“, sem þetta nýja kristilega þjóðerni er byggt á hér á landi. Það er sá níðingsskapur við mannvirkin á Þingvöllum.

Hv. þm. sagði, að það væri ill stefna, sem hefði verið hafin á Þingvöllum í fjármálum, og nefndi fyrst og fremst, að bærinn á Þingvöllum hefði kostað 70 þús. kr., og svo væri girðingin þar að auki. Ég get sagt hv. þm. það, að í slétturnar, sem kýrnar eiga að lifa á, eyddi hátíðarnefndin 15 til 20 þús. kr., en þær eru prýði á Þingvöllum, í staðinn fyrir að þýfið gerði þá ljóta og óeðlilega, og einnig er girðingin og trjáplönturnar til mikillar prýði, og Þingvöllur er nú meir og meir að færast í það horf, sem hinir þjóðlegu menn vilja hafa hann. Honum hefir verið meir og meir breytt í betra horf heldur en hann var meðan Íhaldið hafði þar öll ráð.

Það getur vel verið, að hv. 6. landsk. telji eftir þennan kostnað við Þingvelli. En ég þykist vita, að hv. þm. telji ekki eftir, þó að svindlararnir hér í Reykjavík, vinir hv. þm., búi margir í 100 til 150 þús. kr. húsum, þeir mega sukka og eyða eins og þeir vilja. (GL: Nöfn þessara vina minna). Hv. þm. hlýtur að vita, hvaða flokksbræður hans eiga þessi fínu hús. En ég tel, að þessu fé væri engu lakar varið til þess að friða Þingvelli heldur en að byggja villur yfir sprúttsala í bænum, sem byggja yfir sig fyrir 100 til 150 þús. kr., sem svo kaupa unglinga til skemmdarverka fyrir þá peninga; sem þeir spara frá sprúttsölunni til þess að leggja út í þennan hernað.

Þá er bezt að minnast á Svartagil um leið, af því að þar var tekinn maður fyrir bruggun nýlega. Það hafði víst fundizt hjá honum ein flaska. Jón heit. Magnússon hafði búizt við, að þessi jörð yrði lögð í eyði. En mér þótti það ekki rétt, og vildi styðja að því, að þarna kæmist upp nýbýli. Þarna var byggður bær fyrir nokkrum árum. Ég þykist vita, að hv. þm. kunni illa við þetta, en þessi fátæki maður, sem hv. þm. vill vera að kasta steini að hér í þingsalnum, mun hafa verið sveitlægur hér í Reykjavík. En hv. þm. hefir verið fátækrafulltrúi til skamms tíma, og eftir því, sem kunnugir menn segja, þá hefir þessi vesalings bóndi verið afvegaleiddur af vinum sínum hér, því að eitt af því, sem hefir verið aðalúttekt hans hér í bænum, hefir verið ger og sykur, sem sagt er, að sé aðaluppistaðan í þeim iðnaði, sem hv. þm. minntist á, svo ég verð að leyfa mér að ásaka fátækranefnd Reykjavíkur fyrir að spilla þessum landseta á Þingvöllum, og það á svo mjög áberandi hátt.

Þá sagði hv. þm., sem mun hafa stafað af nokkuð eðlilegum ókunnugleika, að Þingvallanefndin hafi haft veitingar handa þessum heiðursgestum, sem þar voru. Þetta er mesti misskilningur hjá hv. þm. Nefndin hefir ekki haft neinn kostnað af gestunum á þennan hátt. Það er aðeins bústaður, sem þar er. Og það er gistihús á staðnum, þar sem menn geta fengið mat. En einstaka maður, eins og t. d. Gunnar Gunnarsson, hafa haldið hús í þessum herbergjum þar. En þetta þarf hv. þm. ekki að telja eftir, þó að landið hafi sýnt heiður nokkrum mætum mönnum útlendum og íslenzkum, með því að þeir byggju þar, byggju þar á rólegan hátt á þessum fagra stað. En þar hefir ekki verið nein matarvist af landsins hálfu.

En að því leyti, sem hv. þm. minntist á Sigrid Undset, þá er það rétt, að hún er mikið skáld, að vísu ekki kirkjulegt skáld, af því hún skrifar talsvert mikið af bókum, sem snerta katólska tímann í Noregi, enda er hún sjálf katólsk. En ég efast yfirleitt nokkuð um, þótt svo hefði viljað til, að Sigrid Undset hefði hitt prest á Þingvöllum, að hann hefði getað kennt henni neitt sérstaklega það, sem henni væri nauðsyn á að fá að vita. Ég efast um, að hún hefði óskað eftir því, að yfir henni væri haldinn kirkjulegur fyrirlestur, þó að hún væri þar nokkra daga til þess að sjá staðinn. Ég held, að það sé algerður misskilningur hjá hv. þm., hvernig skáld eins og Sigrid Undset velja sér félaga. Heldur hv. þm., að þessir Nobelsverðlaunamenn fari í skóla til okkar smælingjanna, og það til prestanna okkar?

Ég hefi þá gengið í gegnum ræðu hv. þm., og ég vonast eftir því, að það sjáist í þingtíðindunum, að þar standi ekki steinn yfir steini af því, sem hv. þm. hélt fram. Það, sem stendur fast eins og áður, er það, að Alþingi er búið að friða Þingvelli, búið að sjá fyrir hinni kirkjulegu þörf staðarins, og yfirleitt búið að sjá vel fyrir öllu. Hinsvegar á að vera þar þjóðgarður, en ekki búskapur, sem vinnur á móti skógræktinni, og þess vegna er það, að það er ekki hægt að samþ. þessa till. hv. þm., nema því aðeins, að þingið vilji hjálpa til að rífa niður það starf, sem þar hefir verið unnið síðan árið 1919.