06.03.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 347 í D-deild Alþingistíðinda. (2473)

39. mál, ríkisféhirðisstarfið

Bjarni Ásgeirsson:

Ég skal engan dóm á það leggja, hvað væri hægt að spara mikið við þessa ráðstöfun, sem hér er rætt um. Hefði verið starfandi n. hér í Sþ., þá hefði verið sjálfsagt að vísa þessu til hennar til frekari athugunar. En fyrst því er ekki að heilsa, tel ég heppilega afgreiðslu að vísa till. til hæstv. stj.

En fari svo, að þingið fallist á þessa lausn, sem í till. felst, þá vildi ég benda á, hvort ekki væri heppilegra að leita samninga við Búnaðarbankann en Landsbankann um þetta mál. Mér er kunnugt um það, að marga daga er slík ös í Landsbankanum, að þar virðist bæði starfskröftum og húsrúmi ábótavant. Þó að Búnaðarbankinn sé vaxandi stofnun, þá álít ég, að hann hefði miklu betri aðstöðu til þess að taka þetta starf að sér, og mun flytja skrifl. brtt. við þáltill. þess efnis, að í stað Landsbankans komi Búnaðarbankinn.