18.04.1933
Neðri deild: 52. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 353 í D-deild Alþingistíðinda. (2491)

99. mál, björgunarstarf og eftirlit með fiskibátum á Vestfjörðum

Jón Auðunn Jónsson:

Ég hefi getið þess við umr., að yfirgangur togara, einkum erlendra, hefir aukizt mikið við Vesturland. Á síðustu haustvertíð kvað svo að því, að sjómenn og útgerðarmenn hafa áreiðanlega misst afla og veiðarfæri af þessum orsökum sem svarar 60-70 þús. kr. Þarna er mjög aflasælt frá því í september og þangað til í janúar, og nálega allir togarar, sem ísfiskveiðar stunda hér við land á þeim tíma, sækja þangað afla sinn. Það er því fyllsta þörf á því, að eitt skip sé að staðaldri á þessum tíma fyrir Vesturlandi, til að annast ásamt landhelgisgæzlu björgunarstarf og eftirlit með fiskibátum og veiðarfærum þeirra. Ég býst við. að till. n. um að vísa þessu máli til stj. verði samþ. En ég vil leyfa mér að leggja hæstv. stj. það á hjarta, að þarna er að ræða um hagsmuni allra landsmanna, þar sem um svo mikla útgerð er að ræða, og að auk þess er hægt, án verulegs kostnaðarauka, að framkvæma þetta eftirlit samhliða landhelgisgæzlunni. Ég sé ekki ástæðu til að orðlengja þetta frekar, því að í grg. fyrir till. hefir það verið tekið skýrt fram, svo og við umr., hve nauðsyn á aðgerðum í þessu máli er aðkallandi.