02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 381 í D-deild Alþingistíðinda. (2546)

184. mál, alþýðufræðslulöggjöf

Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Menntmn. var sammála um, að tími væri til kominn að endurskoða alþýðufræðslulöggjöf landsins. Það er vitað, að á síðustu árum hefir orðið ör vöxtur og margar breyt. á alþýðufræðslustarfi í landinu. En það hefir engin heildarskipun verið gerð um þau mál síðan 1907, sem fræðslulögin eru frá, með nokkurri bót frá 1926. 1930 voru sett 1. um héraðsskóla í sveitum og gagnfræðaskóla í kaupstöðum, og þá myndaðist nýr liður í alþýðufræðslustarfseminni hér á landi. En þegar þessi liður í alþýðufræðslunni hefir bætzt við, kemur hann ekki eins og eðlilegur liður í heildarstarfsemina, heldur er þvert á móti æðimikið misræmi um þennan lið sjálfan út af fyrir sig, t. d. gagnfræðaskólarnir. Þar er samræmið ekki meira en það, að sumstaðar eru gagnfræðaskólarnir 3 og jafnvel 4, og samstarfið hjá þeim er ekki betra en það, að sumir hafa sérréttindi til þess að útskrifa menn sem gagnfræðinga og láta þá ganga upp í æðri skóla án frekara prófs, en fjöldinn allur er útilokaður frá því. Á Akureyri hefir annar gagnfræðaskólinn þessi sérréttindi, án þess að hægt sé að sjá í raun og veru nokkra ástæðu til þess. Í Reykjavík hafa 2 gagnfræðaskólar þessi réttindi, en 1 ekki. Um starfsvið virðist ekki vera sérstaklega ákveðið innan þeirra.

Um barnafræðsluna í landinu gilda nú 3 eða 4 fyrirkomulög, þar sem er eftirlitsfræðsla, farkennsla, fastir skólar og heimavistarskólar. En það fer eftir staðháttum, hvað framkvæmt er á hverjum stað, en þó alls ekki alltaf eftir því, sem aðstæður mundu helzt kalla að. Auk þess er þannig komið, að skólaskyldan er mismunandi. Í kaupstöðum allvíða er tekin upp skólaskylda til 8 ára, sem vel getur verið, að þörf sé á eftir breyttum aðstæðum heimilanna, en í l. frá 1907 er skólaskyldan ákveðin til 10 ára, sem virðist gilda úti um sveitir landsins. Það má vel vera, að það sé einhver nauðsyn fyrir slíkri skólaskyldu og að það opinbera hafi eitthvert eftirlit með fræðslu barna fyrir innan 10 ára aldurs úti um sveitirnar. Það var svo, að prestarnir litu eftir þessari undirbúningskennslu áður en skólaskyldan kom út um sveitir landsins, en þetta hefir verið fellt niður, svo þeim er ekki lengur gert að skyldu að gera það. En mér er kunnugt um, að sumir þeirra gera það engu að síður, og ég er sannfærður um, að þeir gera mikið gagn með því fyrir sína sveit, því það mun vera algengt, að börn komi ólæs í skólann og fákunnandi í reikningi 10 ára að aldri. Mér virðist ekki vera óviðeigandi, að sú athugun fari fram, hvort ekki væri rétt að veita prestunum rétt til þess að hafa þetta eftirlit með höndum, sem vildu það af fúsum vilja og án endurgjalds, aðeins fyrir sinn áhuga á þessu starfi.

Það skal að vísu frá minni hendi ekki vera fullyrt neitt um það, hvað sá árangur er mikill frá hinum mörgu skólum til þess að auka alþýðufræðsluna í landinu, en ég tel víst, að þeir komi að meira og minna liði. En það þori ég öruggt að fullyrða, að með betri skipun og samstarfi milli skólanna en verið hefir megi ná ennþá betri árangri fyrir það fé og stofnanir, sem upp hafa verið settar.

Það, sem ætlazt er til, er eins og till. ber með sér, að reynt verði að koma á heilsteyptu skipulagi um þessa hluti og samstarfi milli hinna einstöku stofnana, og að reynt verði, eftir því sem kostur er á, að takmarka tilkostnaðinn, án þess að kennslustarfsemin biði nokkuð tjón af, með því að hagnýta betur þá krafta, sem fyrir eru, heldur en hingað til hefir átt sér stað. Ennfremur vakir fyrir okkur, að meira tillit þurfi að taka til staðhátta. Það hæfir ekki það sama fyrir margbýlið í kaupstöðunum og strjálbýlið úti um sveitirnar. Það þarf vissulega að vera sveigjanleiki í því, hvernig þetta er framkvæmt, og ekki einskorðað við það, sem gert er í fjölmennum löndum og þar, sem bezt hagar til í kaupstöðunum, sem eru að vaxa hér upp. Í þessu tilliti er ég sannfærður um, að hægt er að nota starfskrafta prestanna meira en gert hefir verið.

Á síðustu árum hefir löggjöfin stefnt að því að útrýma prestum og áhrifum þeirra. Það er ekki hægt á móti því að bera. Það hefir meira að segja verið reynt að bægja þeim frá því að vera prófdómarar. En ég er viss um, að slík stefna er í óþökk mikils fjölda alþýðumanna úti um sveitirnar.

Ég tel víst, að prestar geti víða á landinu framkvæmt þetta eftirlit á ferðum sínum og styrkt mjög skólastarfið og að ekki sé vert að slá hendinni á móti þessari hjálp, því í mörgum tilfellum eru þessir menn mjög vel menntaðir og vel til þess hæfir að leiðbeina um þessi efni, og engu síður en fjöldinn af kennurum, án þess að þeir séu nokkuð lastaðir. Auk þess höfum við sett í till., að athugað yrði með skólaskyldualdurinn, hvort ekki mundi heppilegast að hafa hann mismunandi. Eftir að þessir nýju liðir komu inn, gagnfræðaskólarnir og héraðsskólarnir, þá er ég sannfærður um, eftir þeirri reynslu, sem ég hefi haft í þessum málum, að 1 ár í unglingaskóla eða alþýðuskóla er alveg eins mikið og 2-3 ár á aldrinum 9-12 ára hvað þekkingu og þroska snertir.

Ég get hugsað mér, að heppilegra væri að láta börnin ekki byrja mjög ung í skólanum, heldur láta skólaskylduna ná nokkuð fram á unglingsaldurinn. En það er sannarlega full þörf þess, að þetta sé athugað og reynt að koma einhverri heildarskipun á það.

C-liðurinn er um takmörkun námsgreinafjölda. Ég held, að það sé ekki ofmælt, að kennslan er skemmd nú fyrir börnum með því að láta þau strax í byrjun fara að grauta í mörgum námsgreinum. Afleiðingin verður sú, að undirstöðuatriðin lærast illa, og sá grautur, sem þau hafa fengið í sig úr þessum mörgu námsgreinum, gleymist fljótt. Á fyrstu árunum þarf að leggja alla áherzlu á það að kunna vel fáar námsgreinar.

Í 3. lagi fer till. fram á, að það sé athugað, hvort ekki sé hægt að leggja meiri stund á hagnýt námsefni en verið hefir. Þessa er mikil þörf, og í þessu efni hefir víðast hvar átt sér vanræksla stað.

Síðan þessi þáltill. okkar kom fram hafa menntmn. Nd. borizt mótmæli gegn henni frá settum fræðslumálastjóra og Kennarasambandi Íslands. Mótmæli gegn því, að alþýðufræðslul. landsins væru endurskoðuð! Ég verð að segja, að ég er mjög undrandi yfir því, að nokkur stétt, sem lætur sér annt um sitt starf og tekur við öllum fáanlegum styrkjum úr ríkissjóði til þess að geta rækt starf sitt, skuli mótmæla því, að löggjöf landsins viðvíkjandi starfssviði hennar sé endurskoðuð. Í bréfi fræðslumálastjóra er það tekið fram, að óheppilegt sé að setja ströng 1. um þetta efni, því að betra sé að fara eftir reglugerðum!

Ég held, að þetta sé ekki viturlegt fyrirkomulag og að það sé mjög illa farið, að yfirmenn kennarastéttarinnar séu að vekja tortryggni til þeirra manna, sem vilja gera sitt til þess, að alþýðufræðslan geti komizt í sem bezt horf. — Í bréfinu frá stj. kennarasambandsins segir m. a., að þetta sé „dulbúin tilraun til að koma fram niðurskurði á alþýðufræðslu landsins. Afleiðing þeirra yrði hnignandi alþýðumenntun, einkum meðal hinna fátækari stétta, laklegri undirbúningur undir framhaldsnám, framkvæmd þeirra mundi verða til þess að draga allt skólakerfi landsins skör lægra en nú er“. Og þó er samræmið ekki meira en svo, að í upphafi bréfsins stendur, að þetta séu viturlegar till. og ágætar.

Ég vil segja þessum góðu mönnum, að það sé nógur tími til þess að fara að mótmæla og gera okkur tortryggilega, þegar búið er að leggja fram þær till., sem yrðu afleiðing þeirrar rannsóknar, sem hér er ætlazt til, að fari fram. Og ég skal taka það fram, að ég mun halda áfram að vinna að bættri alþýðufræðslu af öllum mínum kröftum, þrátt fyrir öll mótmæli þeirra.