12.05.1933
Neðri deild: 72. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1849 í B-deild Alþingistíðinda. (2616)

133. mál, lokunartími sölubúða

Jóhann Jósefsson:

Ég vil styðja það, sem hv. þm. Ak. sagði um þetta mál. Það er engin ástæða til að setja svo skörp ákvæði um, að sendisveinar megi ekki vinna eins lengi og búðirnar eru opnar. Í þessu sambandi vil ég benda hv. dm. á það, að það hefir alls ekki verið óþægindalaust fyrir almenning, að þessar lokunarreglur voru innleiddar, sem nú eru í löggjöfinni. Það hefir verið gengið nokkuð langt í því efni, og sérstaklega er það orðið svo víða, að verkafólk hefir óþægindi af of stuttum sölutíma í búðum. Vestmannaeyjum hefir verið gengið svo langt í því að loka sölubúðum svo snemma dags, að fólk, sem er í fiskvinnu og ætlar sér venjulega að hlaupa í búð að vinnu lokinni, um kl. 6 eða að ganga 7, kvartar mjög undan því, hve snemma sé lokað búðum. Það gæti valdið allmiklum auknum óþægindum, ef einnig ætti að þrengja vinnutíma sendisveina til muna og þeir mættu ekki vinna jafnvel á meðan búðir eru opnar. Ég mæli því með því, að brtt. hv. þm. Ak. verði samþ.