29.03.1933
Efri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 393 í D-deild Alþingistíðinda. (2631)

130. mál, kaup hins opinbera á jarðeignum

Jón Þorláksson [óyfirl]:

Fyrst umr. voru teknar upp um þetta mál, þá vil ég ekki láta hv. 3. landsk. standa hér einan uppi með þá skoðun, að hér sé verið að fara af stað með mjög ómaklega tilraun um að nota kreppuástand landbúnaðarins til að gera byltingu á búnaðarástandinu, sem alveg er óséð, hverjar afleiðingar muni hafa. Ég kannast að vísu við það, að raddir hafa heyrzt úr sveitunum hin síðustu ár, að menn vildu helzt losna við jarðir sínar á einhvern hátt. Og ef ekki væri hægt öðruvísi, þá á þann hátt, að hið opinbera keypti þær fyrir eitthvert verð. En þetta er áreiðanlega kreppufyrirbrigði, og ekkert annað. Og það kemur fram nú. af því menn eru í vandræðum með að láta búskapinn bera sig hér á landi sem annarsstaðar, vegna þess að sveiflurnar á gengi verðmælikvarðans hafa tekið stöðvun á þann hátt, sem landbúnaðinum er sérstaklega óhagstæður. Hv. flm. nefndi eitt dæmi — og ætlast til, að löggjöfin stefni að því að fyrirbyggja slíkt. Hann nefndi jörð, sem seld hafði verið árið 1909 á 7000 kr., en 1931 hafi sama jörð verið seld á 30000 kr., og þó tekið undan henni eitthvað af hlunnindum. Þetta er nú ekkert ákaflega sannfærandi dæmi, ef það er brotið til mergjar og borið saman við annað, er gerzt hefir á þessu 22 ára tímabili, sem líður á milli þessara tveggja söluára. Verðið í krónutali hefir að vísu rúmlega ferfaldazt, og eitthvað hefir verið tekið undan. En sé það nú borið saman við verkakaupið í Rvík, þá sést, að það hefir hækkað á sama tíma úr 25 aurum upp í 136 aura eða meira á klukkustund. Þetta er hækkun í aura- og krónutali, en þýðir í rauninni það, að þrátt fyrir allt umrót á gildi verðmælikvarðans, þá hefir verðið á fasteignum haldizt í hlutfalli við önnur verðmæti í þjóðfélaginu. Þetta hefir verkamannakaupið gert líka. Það hefir sexfaldazt á þessum 22 árum og svarar því fullkomlega til þeirrar verðhækkunar, sem orðið hefir á jörðunum. Þetta dæmi er því ekkert annað en ímynd þeirrar verðbreytingar, sem á öllu hefir orðið síðan 1909.

Þegar því farið er fram á að losa bændurna við jarðir sínar, þá er í raun og veru verið að tala um það, að losa bændastéttina við að eiga verðmæti, er halda gildi sínu á hverju sem veltur, og fá verðbréf eða annað í staðinn, sem reynslan hefir sýnt, að fallið getur niður í 1/6 af upphaflega verðgildi sínu á 22 árum. Það getur verið, að sumir bændur hafi ekki áttað sig á þessu enn. En ég er sannfærður um, að ef farið verður inn á þessa braut, þá verður það einungis til ógagns þeim atvinnurekstri, sem nú er talinn þurfa að losa sig við jarðeignirnar. Ég þykist nú reyndar vita, að þótt þessi till. gengi fram nú, að bændastéttin mundi átta sig á þessu áður en til framkvæmda kæmi af völdum till. Þeir mundu átta sig á því, að það er ekkert, sem tryggir eins vel framtíð bændastéttarinnar eins og eignarréttur hennar á fasteignum. Engar aðrar eignir eru eins öruggar að halda verðmætum sínum eins og fasteignirnar. hverju sem á gengur. Mín sannfæring er sú, að ef sú neyð, sem nú ríkir í landbúnaðinum, væri notuð til þess að stiga þetta ógæfuspor, að losa bændur við jarðirnar, þá væri um leið höggvið á þá langsterkustu taug, er heldur fólki við sveitirnar. En hinsvegar skil ég það vel, að hv. flm., út frá sínu sjónarmiði og þess flokks, er hann fyllir, vilji nota það tækifæri, sem núv. neyðarástand veitir, til að höggva þetta skarð í eignarrétt einstaklinganna. Það kippir sér vitanlega enginn upp við það, þó svoleiðis till. komi úr þeirri átt.