29.04.1933
Neðri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1886 í B-deild Alþingistíðinda. (2725)

161. mál, tollalög

Guðbrandur Ísberg:

Ég á brtt. á þskj. 487, sem gengur í þá átt, að hvítöl sé látið vera í sama tollflokki og límonaði. Eftir núgildandi lögum er 30 aura tollur af hverjum lítra af öli og gosdrykkjum, og breytingin, sem frv. fer fram á, er því í rauninni sú, að hækka eingöngu toll af öli, öðru en hvítöli, en ekki af gosdrykkjum.

Ég vil í þessu sambandi leyfa mér að benda á það, að hvítöl á eftir eðli sínu fremur að fylgja límonaði og gosdrykkjum en öli. Það er miklu ódýrara að framleiða það en aðrar öltegundir, og þeir, sem það gera, eiga ekki að hafa leyfi til þess að selja það sama verði, sem annað öl. Hvítölið er notað allmikið með mat, og margir mundu sakna þess, ef verð þess hækkaði að mun. Það er að vísu svo, að samkv. núgildandi lögum er hvítöl í sama flokki og annað öl að því er snertir framleiðslugjald. En þar sem líkt er um framleiðslukostnað hvítöls og límonaðis, þá finnst mér, að hvítöl eigi eftir eðli sínu að vera í sama tollflokki og það.

Ég vil svo ekki fjölyrða frekar um þetta, en vænti, að hv. þdm. taki þessari till. með sanngirni og sjái, að hér er aðeins um að ræða, að hvítöl og gosdrykkir séu áfram í sama tollflokki.