29.04.1933
Neðri deild: 61. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1890 í B-deild Alþingistíðinda. (2729)

161. mál, tollalög

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hér er um að ræða tolla, sem allir ættu að geta verið sammála um, hvort sem þeir eru til hægri eða vinstri í stjórnmálum. Deilurnar eru mestar til hægri og vinstri, ef leggja á tolla á nauðsynjavörur. En þegar um svonefndar eyðsluvörur er að ræða, þá má helzt vænta samkomulags.

Á hvítöl hefir verið lagður sami tollur og á annað öl, og ef það er ódýrast af öllu öli, þá sé ég ekki ástæðu til þess að breyta til um það. Það ætti að þola hækkunina betur en annað öl. Og þó að tollurinn verði hækkaður um 4 aura á flösku, þá verður álagningin aðeins 2 til 3 aurar á flösku, ef gert er ráð fyrir, að framleiðendur beri nokkuð af tollinum. Ég vorkenni ekki manni, sem drekkur eina hvítölsflösku á dag, að greiða 3 aurum meira fyrir hana en áður. Hækkunin næmi aðeins 90 aurum á mánuði. Ég teldi það misrétti, ef hvítöli væri gefin sérstaða gagnvart öðru öli.

Stj. hefir verið spurð að því, hvaða ráðstafanir yrðu gerðar gegn okri innlendra framleiðenda. Á þessu stigi er engu meiri ástæða til þess að gera ráðstafanir gegn okri heldur en undir gildandi lögum, þar sem útlendingar eru svo að segja útilokaðir frá markaðinum og því ekki um samkeppni að ræða. Ef ástæða yrði til, eftir fengnum upplýsingum, þá gæti hvert þing gripið í taumana og sett einhver ákvæði viðvíkjandi þessu. Í þessu sambandi er engin ástæða til þess að flagga með því, að hér sé um innlenda framleiðslu að ræða, sem ætti að njóta vildarkjara. Auk þess er það villandi að kalla kaffibætinn innlenda framleiðslu, þó að erlendum hráefnum sé hrært hér saman af fáum mönnum. Þetta skapar að vísu dálitla atvinnu í landinu, og er það vitanlega strax betra heldur en að flytja það algerlega unnið inn. En ég held, að ekki sé ástæða að kvarta undan þessari tollhækkun á meðan tollurinn verður ekki eins hár og áður, þegar allt var flutt inn af þessum vörutegundum.

Þetta frv. er komið fram til þess að afla ríkissjóði tekna, og til einskis annars.