18.05.1933
Efri deild: 75. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1894 í B-deild Alþingistíðinda. (2741)

161. mál, tollalög

Frsm. meiri hl. (Ingvar Pálmason):

Frv. þetta er flutt í Nd. af hæstv. forsrh., en er þó ekki stjfrv. Efni frv. er, eins og hv. dm. vafalaust vita, það, að hækka innflutningsgjaldið af öli og kaffibæti. En um leið og innflutningsgjaldið á þessum vörutegundum hækkar, þá hækka líka tollar til ríkissjóðs af samskonar innlendri framleiðslu. Í frv. er gert ráð fyrir að hækka toll á öli upp í 1 kr., þ. e. a. s. 80 aura, en þar við bætist gengisviðauki, svo að hækkunin nemur samtals 1 kr. Tollur á kaffibæti er færður upp í kr. 1,60, með gengisviðauka 2,15 kr.

Svo er fyrirmælt í núgildandi tolll., að af ísl. framleiðslu skuli greiða 1/3 hluta innflutningsgjalds. En nokkuð sérstaklega stendur á með þessar vörutegundir. Aðflutningur á öli er nú miklu minni en áður fyrr, og aðflutning á kaffibæti má nú þegar telja horfinn. Þarna hefir ríkissjóður orðið fyrir stórfelldum tekjumissi, og því er sanngjarnt, að tollar af þessum vörutegundum séu nokkuð hækkaðir, að íslenzkir framleiðendur þeirra greiði hærri toll en gert er ráð fyrir í núgildandi l. Þess ber einnig að gæta, að þau fyrirtæki, sem stofnsett eru fyrir 1928, njóta ívilnana með þessar tollgreiðslur, svo að tollurinn verður mun lægri á þeim. Það er svo t. d. með ölgerð hér á landi, að hún mun njóta þeirra mestu ívilnana um tollgreiðslur, sem yfir höfuð þekkjast. Samt er gert ráð fyrir, að þessi tollahækkun muni auka tekjur ríkissjóðs árlega um 60 þús. kr. af ölinu, og 80 þús. kr. af kaffibætinum.

Fjhn. þessarar d. hefir nú athugað frv. og meiri hl. hennar komizt að þeirri niðurstöðu, að rétt sé að mæla með því til samþykktar. Ég tel ekki ástæðu til að gera afstöðu hv. minni hl. að umræðuefni. Hann hefir ekki skilað nál. enn, en ég býst við, að hann geri grein fyrir afstöðu sinni.

Svo held ég, að ég hafi þessi orð mín ekki fleiri, málið er ljóst og einfalt, og ég geri ráð fyrir því, að flestir hv. dm. hafi þegar kynnt sér það. En fyrir hönd meiri hl. fjhn. legg ég til, að frv. verði samþ.