02.05.1933
Neðri deild: 63. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1906 í B-deild Alþingistíðinda. (2773)

150. mál, almennur ellistyrkur

Vilmundur Jónsson:

Við hv. þm. Mýr. flytjum brtt. við þetta frv. á þskj. 498, og er aðalefni þeirra að breyta fyrirkomulagi ellistyrktarsjóðanna þannig, að tekjur sjóðanna verði ekki innheimtar með nefskatti allra gjaldenda jafnt, eins og verið hefir, heldur jafnað niður á gjaldendur í hverju umdæmi eftir efnum og ástæðum. Er ljóst af fyrstu brtt. okkar, hvernig við hugsum okkur þetta í framkvæmdinni, og hinar aðrar brtt. eru í samræmi við það. Slík niðurjöfnun er almennt viðurkennd að vera miklu sanngjarnari en nefskatturinn, sem nú er, og vænti ég því þess, að brtt. okkar fái góðar undirtektir og nái fram að ganga.

Mér koma spánskt fyrir upphafsorð grg. fyrir þessu frv., en þau eru þessi: „Það virðist ekki ætla að ganga svo fljótt sem skyldi, að almenn tryggingarlöggjöf komist á“. Mér koma þessi orð spánskt fyrir vegna þess, að við jafnaðarmenn höfum nú flutt á tveim þingum frv. til l. um almenna tryggingarlöggjöf, og hefir hv. flm. þessa frv. og höf. grg., hv. þm. Vestm., átt sæti í þeirri n., sem um frv. hefir átt að fjalla, án þess að þess hafi orðið vart, að hún hafi rankað við sér, að sjá skyldu sína í þessum efnum. Það er eins og hv. þm. búist við, að almenn tryggingarlöggjöf detti ofan úr skýjunum einn góðan veðurdag, án þess að nokkur, sem þar megnar einhvers, hreyfi til þess hönd eða fót. A. m. k. hefir hv. þm. ekki fundið skyldu hjá sér til að reyna að knýja þessa löggjöf fram, þrátt fyrir þau hjartnæmu orð grg., sem ég tilfærði.

Þá vil ég mótmæla því í nál. fjhn., þar sem gumað er af ellistyrktarsjóðunum. Þar segir m. a.: „Það er víst, að styrkir þeir, sem gamalt fólk hefir fengið úr sjóðnum, hafa í fjölda tilfella forðað því frá hinni erfiðu göngu til sveitarsjóðanna og glætt og aukið sjálfsbjargarhvöt þess“. — Þessir styrkir eru svo hlægilega lítilfjörlegir, að það er meira til að gera gys að þeim, sem þá fá, en að það geti haft nokkra þýðingu fyrir afkomu þeirra, hvað þá að þeir geti forðað fólki frá að lenda á sveitinni. Ellistyrkirnir, sem veittir eru, eru tíðast þetta frá 20—30 kr. á ári, og verða því ummæli eins og þau, sem ég tilfærði úr nál., varla tekin alvarlega, enda geta þau ekki verið alvarlega meint.

Samkv. till. okkar þm. Mýr. fá sjóðirnir nokkru meiri tekjur en áður, þótt eftir sem áður verði þeir þess ómegnugir að forða fólki frá sveit. Höfuðendurbæturnar yrðu fólgnar í því, að teknanna yrði aflað á sanngjarnari hátt. Höfum við hugsað okkur, að ríkissjóður leggi sjóðunum kr. 1.50 fyrir hvern mann, karl sem konu, 18 ára eða eldri, heimilisfastan í hreppnum eða kaupstaðnum, og síðan, að hlutaðeigandi hreppur eða kaupstaður leggi fram kr. 3.00 fyrir hvern heimilisfastan mann, karl sem konu, 18 ára eða eldri. Verða framlög ríkis og hlutaðeigandi kaupstaðar eða hrepps allmiklu hærri með þessu móti einnig fyrir það, að færri falla undan af þeim, sem gjaldið er miðað við, en nú gera það samkv. gildandi ellistyrktarsjóðslögum.