10.05.1933
Efri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 362 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

1. mál, fjárlög 1934

Jón Þorláksson:

Ég á hér 3 brtt. á þskj. 609. Sú 1. er um það, að veittur verði Ingólfi Þorsteinssyni námsstyrkur til vélfræðináms, að upphæð 1200 kr., undir rómv. lið VIII. Þessum nemanda var á síðasta þingi veittur styrkur að sömu upphæð, og upp á það byrjaði hann vélfræðinám sitt í Þýzkalandi. Ég skal geta þess, að hann lauk hér burtfararprófi við stærðfræðideild menntaskólans árið 1931 með 1. einkunn. Hann hefir prýðilegustu meðmæli frá kennurum sínum, og ég get ekki annað en talið rétt að halda áfram að veita honum þennan námsstyrk, sem byrjað er á, því annars er hætt við, að hann verði að hætta námi og það verði honum sjálfum og landinu lítils virði.

Þá er næsta brtt. frá mér undir rómv. lið XVII, að við 15. gr. fjárlagafrv. verði tekinn upp nýr liður í sambandi við fjárveitingu til bókasafna, sem sé 5000 kr. til Alþýðubókasafns Rvíkur. Þetta bókasafn var opnað í apríl 1923 og upphaflega stofnað fyrir nokkurn hluta af andvirði togara, sem seldur var héðan úr landi á stríðsárunum. Það hefir síðan vaxið mjög, einkanlega eftir árið 1928, þegar það fékk nýtt húsnæði. Ég skal aðeins til samanburðar nefna örfáar tölur á útlánum úr safninu meðan það var í fyrra húsnæðinu eða frá 1923 til 1927. Þá voru venjulega lánuð milli 25 og 32 þús. bindi og stóð nokkuð í stað. En það hefir nú á síðari árum farið upp í 85 þús. bindi. Gestir á lesstofu voru þessi sömu fyrri ár, sem ég nefndi, 4—7 þús. á ári. En síðustu 2 árin hafa þeir farið upp fyrir 17 þús. á ári.

Ég tel ekki þörf á að nefna fleiri tölur, en þetta er því til stuðnings, að þetta bókasafn er nú orðið langmest sótta bókasafnið á landinu, að undanteknu sjálfu Landsbókasafninu, og léttir ákaflega mikið á Landsbókasafninu um notkun bóka.

Það má að vísu segja, að þetta bókasafn sé að mestu fyrir Rvík, og sá hugsunarháttur er til, að það séu aðrir, sem eigi tilkall til fjárveitinga úr ríkissjóði, en þeir eigi að borga þangað skatt og að öðru leyti að sjá um sig sjálfir. Þess ber þó að geta, að þetta safn er líka mikið notað af utanbæjarmönnum, sem dvelja hér vetrarlangt við nám. Einnig er það talsvert notað í fiskiskipum, sem ganga héðan úr bænum. Þetta bókasafn hefir verið þannig útbúið, að það lánar út í fiskiskipin og njóta þess þar jafnt innanbæjarmenn og utanbæjarmenn. Af hálfu bæjarsjóðs Rvíkur eru þessu safni veittar 30 þús. kr., og mér sýnist þess vegna ekki annað sæmra en að ríkissjóður styrki þetta safn líka. Ég fer því fram á 5000 kr. fjárveitingu til þessa bókasafns.

Loks er 3. brtt. mín við 16. gr. 14. b. um dýralækna. Brtt. er undir rómv. lið XXV., um það, að tekin verði upp í þetta frv. samskonar fjárveiting, 300 kr., til Eggerts Magnússonar og stendur í núgildandi fjárlögum handa þessum manni til að stunda dýralækningar, og var hún sett inn í fjárlögin í fyrra hér í þessari hv. d.

Ég skal til viðbótar því, sem ég sagði þá um þetta, aðeins geta þess, að mér hafa borizt frá sýslumanninum í Dalasýslu meðmæli sýslunefndarinnar þar, til þess að hann haldi þessum styrk. Þau eru þannig orðuð, að nefndin lýsir því yfir, að hún votti honum sín beztu meðmæli í þessu efni og telur rétt, að hann fái slíkan styrk áfram, sem hann hefði nú á þessu ári.

Þá á ég enn brtt. ásamt 2 öðrum hv. þm. á þskj. 624, sem ég vænti, að hæstv. forseti hafi útvegað leyfi til að koma mætti til umr. Brtt. er við 22. gr. fjárlagafrv. undir rómv. tölul. XVII, og fer fram á það, að í staðinn fyrir heimild handa ríkisstjórninni til þess að ganga í ábyrgð fyrir samvinnufélag sjómanna og verkamanna á Seyðisfirði fyrir láni til að kaupa fiskiskip, komi heimild til að ganga í ábyrgð fyrir allt að 350 þús. kr. láni til þess að reisa síldarbræðslustöð á Seyðisfirði, sem geti unnið úr allt að 600 málum síldar á sólarhring, og fari lánið ekki fram úr 70% stofnkostnaðar stöðvarinnar. Um þetta mál hefir hv. þm. Seyðf. sent fjvn. Nd. og líka fjvn. þessarar d. áskorun frá almennum borgarafundi á Seyðisfirði, þar sem þess er óskað, að ríkisstj. verði heimiluð að ganga í slíka ábyrgð. Hann hefir ennfremur útvegað bráðabirgðaáætlun um stofnkostnað slíkrar síldarbræðslustöðvar. Og er áætlunin 385 þús. kr. og byggist á því, að notuð verði til þess eign, sem þarna er til, pakkhús og 2 bryggjur.

Eins og kunnugt er hefir atvinnulífið í fiskiverum Austfjarða orðið fyrir þungum áföllum og meiri kreppu á síðastl. áratug en atvinnulíf manna við sjó í öðrum landshlutum.

Þetta stafar að nokkru leyti af hinum sérstöku náttúruskilyrðum, sem eru fyrir hendi á Austfjörðum, og að nokkru leyti beinlínis af aðgerðum löggjafarvaldsins. Ég skal nú gera grein fyrir þessu.

Um þorskveiðarnar er svo ástatt fyrir Austurlandi, að það er sérstökum erfiðleikum háð að stunda þær þannig, að þær verði arðberandi. Þetta stafar af því, að meðfram landinu, utan fjarðanna, er svo harður straumur, að þeir, sem þangað sækja sjó, verða undantekningarlaust að fella niður sjósókn þá dagana, sem straumur er stærstur. Hversu góður afli sem er, ganga úr sjósókn nokkrir dagar í hvern straum. Þetta er mikill hnekkir frá náttúrunnar hálfu fyrir fiskiveiðarnar, þó það nái að vísu ekki til veiðanna, þegar fiskur gengur inn á firðina sjálfa og ekki heldur út á opnu hafi, en þær eru fremur sjaldan stundaðar, og lítill skipastóll, sem getur sinnt þeim veiðiskap.

Áður fyrr voru blómatímar á Austfjörðum. Það er vitanlegt, að þeir stöfuðu ekki eingöngu af þessum fiskveiðum, þær hafa alltaf verið sömu erfiðleikum háðar af náttúrunnar hálfu, heldur stafaði það fyrst og fremst af síldinni. Það eru nú yfir 30 ár síðan aðalsíldveiðin fluttist frá Austurlandi til norðurlandsins. Þennan tíma hafa Austfjarða kauptúnin orðið að bjargast við fiskveiðarnar að mestu leyti. En með fiskveiðalöggjöfinni frá 1922 var þessum landshluta gerður sérstakur hnekkir, því að eitt af því, sem menn í kauptúnunum á Austfjörðum höfðu áður sér til mikillar atvinnu, voru viðskiptin við útlend fiskiskip, sem þangað leituðu, bæði seldu þeim nauðsynjar þeirra og keyptu fisk úr þeim, sem svo var verkaður þar í plássinu. Með fiskiveiðalöggjöfinni frá 1922 varð sú breyting, að útlend fiskiskip fengu miklu erfiðari aðstöðu um viðskipti sín við landsmenn, og viðskipti þeirra við Austfjarðahafnirnar hafa síðan minnkað að mjög verulegum mun. Hér við bætast svo þeir almennu erfiðleikar, sem gengið hafa yfir sjávarútveginn á 2 tímabilum þennan síðasta áratug, sem sé frá 1920—1923 og svo aftur kreppan frá 1926—1927, enda er það kunnugt, að bankaútbúin í þessum landsfjórðungi hafa orðið fyrir sérstaklega miklum töpum. Nú á síðustu árum hefir legið fyrir, hvaða ráðstafanir eigi að gera til þess að létta hag þessa landshluta, sem að ýmsu leyti er blómlegur og með sérstaklega góðar hafnir og að því leyti hentuga aðstöðu til sjávarins.

Mönnum hefir orðið það ljósara og ljósara, að viðreisnarvonin liggur ekki í neinu öðru en því, sem áður reyndist gott til blómgunar, en það eru síldveiðarnar. En nú er svo högum háttað, um markað fyrir síld, að það er ekki til þess von, að Austfirðingar geti tekið síldveiðarnar upp aftur af neinu kappi, nema til sé síldarbræðslustöð til þess að taka við þeirri síld á hverjum tíma, sem ekki þykir fært að salta til útflutnings eða gera útflutningshæfa á annan hátt. Nú er komið svo, að menn á Seyðisfirði hafa horfið frá þeirri hugmynd að fá ríkisábyrgð til að koma á bátaútvegi til þorskveiða, heldur hafa þeir nú óskað eftir ríkisábyrgð til að koma á fót síldarbræðslustöð. Ég er sannfærður um það, af mínum kunnugleika í þessum landshluta, að það er sú eina braut, sem fær er til þess að létta erfiðleika þeirra manna, sem þar þurfa á sjávarútveginum að lifa. Tel ég þess vegna rétt að taka myndarlegum og föstum tökum á þessu málefni, og það því fremur, þar sem nú er ekki farið fram á meira en mjög viðráðanlega upphæð, sem sé ábyrgð fyrir 350 þús. kr. láni, sem hægt er að setja talsverða tryggingu fyrir. Ég vil ekki staðhæfa, að það sé alveg fullnægjandi trygging, ef illa skyldi fara, en ég hygg, að það fari þá illa fyrir fleiru, ef þessu fyrirtæki farnast svo, að það geti ekki skilað aftur þeim höfuðstól, sem í það er lagt. Nú eru á Austfjörðum mjög skiptar skoðanir um það, eins og jafnan verður á slíkum stöðum, hvern staðinn eigi að velja handa þessu fyrirtæki. Það er alltaf svo, að hvað sem á að gera fyrir sjóplássin á Austfjörðum, þá eru 3 eða jafnvel 4 staðir, sem keppt er um, og þykir hver hafa nokkuð til síns ágætis. Það eru Seyðisfjörður, Norðfjörður, Eskifjörður og jafnvel Fáskrúðsfjörður. En eins og öllum högum er háttað, og ef á að leggja óhlutdrægan dóm á þetta, og ég held, að ég geti litið óhlutdrægt á þetta mál, þá held ég rétt að gera þessa byrjun á Seyðisfirði. Það er fyrst og fremst og aðallega af þeim ástæðum, að Seyðisfjörður er það plássið, sem í raun og veru hefir orðið fyrir mestum hnekki af þeirri rás viðburðanna, sem ég áðan nefndi, og það er því brýnni þörf og beinlínis lífsnauðsyn, að þar sé komið upp ráðstöfunum til varanlegra umbóta á atvinnulífinu.

Einn staðurinn a. m. k., Norðfjörður, hefir betri skilyrði til þess að hagnýta sér þorskveiðarnar, og þess vegna ekki eins brýn nauðsyn að fá til sín slíkt atvinnufyrirtæki sem þetta. Hinsvegar held ég, að Seyðisfjörður sé a. m. k. ekki lakar settur en hinir firðirnir um aðflutning hráefnis, síldarinnar, þegar svo ber undir, að hana þarf að flytja lengra að. En síldarverksmiðjan verður auðvitað fyrst og fremst og aðallega fémæt af því að firðirnir fyllast af síld, sem ekki er hægt að nota nema þetta fyrirtæki sé til, og þá er það ekki síður Seyðisfjörður en hinir firðirnir, sem fyrir þeim höppum geta orðið. Á Seyðisfirði hafa menn nú hafizt handa um fjáröflun, og þó að upphæðin, 35 þús. kr., sé ekki sérlega há, þá verður að líta á, að atvinnulífið á þessum stað er í alveg sérstaklega erfiðu ástandi, og þess vegna er ekki von, að miklar fjárhæðir séu þar lausar, og borið saman við Siglufjörð, en þar hefir ríkissjóður orðið að leggja fram allt fé til stöðvarinnar, þá verður ekki sagt, að halli til óhags fyrir þetta fyrirtæki, þó að hlutaðeigendur sjái sér ekki fært að leggja fram meira en 35 þús. kr. í reiðum peningum, auk þess sem ætlazt er til, að bæjarstjórnin á Seyðisfirði leggi fram ábyrgð fyrir fyrirtækið. Vil ég svo að lokum mæla sem bezt með þessari till., af því að ég er sannfærður um, að með henni er farið inn á rétta leið til úrlausnar mesta vandamáli þess landshluta, sem þar á hlut að máli.