10.05.1933
Efri deild: 68. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (311)

1. mál, fjárlög 1934

Guðmundur Ólafsson:

Ég á hér litla en nauðsynlega brtt. við 12. gr. á þskj. 609. Hún er á þá leið, að framlagið til sjúkraskýla og læknisbústaða sé hækkað úr 5000 kr. í 8000 kr., og gangi þar af allt að 3000 kr. til kaupa á röntgentækjum til sjúkraskýlisins á Blönduósi. Hefir það verið venja, að ríkissjóður legði fram 1/3 í þessu skyni, og er svo hér ætlazt til. Liggur fyrir bréf frá stjórn skýlisins og héraðslækni, og er þar lögð mikil áherzla á, að þetta nái fram að ganga. Svo er ástatt á öllu svæðinu frá Ísafirði til Siglufjarðar, að engin röntgentæki eru til, svo að margir sjúklingar verða á hverju ári að fara til Rvíkur til að láta skoða sig. Það sem og ýtir undir héraðið til að fá þessi tæki, er, að það hefir haft góða héraðslækna undanfarið og aðsókn að skýlinu hefir stórum aukizt síðan núverandi læknir kom síðastl. vor. Ég býst við, að hv. þdm. þyki ekki vel til fallið að vera á móti slíku máli sem þessu, því að það er hart aðgöngu fyrir menn að þurfa að fara til fjarlægra staða og kosta ærnu fé til, til þess eins að vita, hvað að þeim gengur. Læknirinn segir svo í bréfi sínu, og býst ég við, að hann sannfæri þá hv. þdm., sem ég hefi ekki haft áhrif á:

„Það er margt, sem mælir með því að röntgen- og ljóslækningatæki verði hið fyrsta útveguð til sjúkrahússins á Blönduósi. Héraðið er mannmargt. Mikil aðsókn þar af leiðandi að sjúkrahúsinu, bæði úr héraðinu og einnig af utanhéraðssjúklingum. Það ætti ekkert sjúkrahús að vera án röntgentækja, sérstaklega ekkert sjúkrahús, þar sem eitthvað er um að vera. Án þeirra eru læknar iðulega í miklum vanda staddir við aðgreiningu sjúkdóma. Sérstaklega skal ég taka fram, að mikið ríður á að geta greint lungnaberkla á fyrsta stigi. Til þess eru röntgentæki nauðsynleg. Til þess að geta greint krabbamein á byrjunarstigi í ýmsum líffærum, eru engin betri ráð til en röntgenmynd. Til þess að geta hindrað örkuml varanleg þeirra manna, er beinbrotna, er fátt jafnnauðsynlegt og möguleikar til röntgenmyndatöku, og svo má lengi halda áfram.

Önnur hlið málsins er sú, að það bakar héraðsbúum mikil fjárútlát að neyðast til að fara til fjarlægra héraða í þessu skyni. Síðastl. 8 mán. hefi ég þurft að senda 10 sjúklinga til Rvíkur, aðeins til að fá röntgenmynd af þeim. Slík ferð kostar að sumrinu til ca. 150—200 kr. Eða yfir árið sem svarar ½ af stofnkostnaði við röntgenáhaldakaup. Að vetrinum til eru slíkar ferðir eðlilega mun dýrari, eða gersamlega ókleifar.

Það vantar ljóslækningaáhöld við sjúkrahúsið — en óhjákvæmilegt, að slík tæki séu til. T. d. háfjallasól og hitaljós, t. d. solluxlampi. Berklaveikir menn eru iðulega margir eins og gengur við sjúkrahúsið, eða utan þess, en þurfa nauðsynlega á ljósum að halda. Síðastl. sumar ákvað heilbrigðisstjórnin, að berklaveikir menn úr báðum sýslum skyldu sækja til sjúkrahússins hér, ef þeir væru styrkþurfar. Það er því algerlega óverjandi, að þessi nauðsynlegu tæki séu ekki til á sjúkrahúsinu. Nú ber svo vel til, að reisa á öfluga raforkustöð hér í kauptúninu á þessu ári. Skilyrði eru því fengin til þess að reka röntgentæki áhættulítið“.

Þetta skýrir nauðsynina betur en ég get gert. En í sambandi við þetta má geta þess, eins og raunar er drepið á í bréfinu, að í ráði er, að rafstöð verði reist á Blönduósi á næsta sumri, og hefir þá sjúkraskýlið hugsað sér að reisa ljóslækningastofu. Ég hygg, að þótt þröngt sé í búi hjá ríkissjóði, veitist honum eigi erfiðara að greiða sinn þriðja hluta en Blönduóshreppi 2/3. Þeir sem enn væru í vafa um fylgi sitt við málið, geta kynnt sér bréf þau, sem fyrir liggja þetta mál áhrærandi áður en þeir greiða atkv. Annars efast ég ekki um, að hv. d. ljái svo góðu máli sem þessu óskipt fylgi sitt.