17.05.1933
Efri deild: 74. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (3141)

197. mál, innflutningur á jarðeplum

Frsm. (Jón Jónsson):

Eins og sjá má á grg. frv. þessa er það flutt samkv. ósk hæstv. atvmrh. og jafnframt fyrir eindregnar óskir vissra manna úr bændanefndinni. Frv. er samið af bændanefndinn í heild, og sent af henni til stj. Tilgangur frv. er að hvetja þjóðina til þess að búa að sínu og stuðla að aukinni jarðeplaræktun. Nú munu vera flutt inn til landsins jarðepli fyrir um 400 þús. kr., og væri sannarlega gott, ef hægt væri að spara þann útgjaldalið. Hér er ekki geng- ið lengra en að heimila ráðh. að banna innflutning á kartöflum á þeim tímum árs, þegar nægilegt er til af þeim í landinu sjálfu, og það á að gerast í samráði við Búnaðarfélag Íslands. Ég vona, að ekki verði jafnmiklar deilur um mál þetta nú hér í deildinni og urðu um það í hv. Nd. í fyrra, enda hefir það ákvæði verið fellt niður úr því, sem einna mestum ágreiningi olli. Vænti ég svo, að málið fái að ganga til 2. umr.