17.05.1933
Efri deild: 74. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 98 í C-deild Alþingistíðinda. (3142)

197. mál, innflutningur á jarðeplum

Jón Baldvinsson:

Eins og hv. frsm. landbn. upplýsti, þá munu vera fluttar hér inn árlega kartöflur fyrir um 400 þús. kr., en það mun að magni til vera um 40-50 þús. tunnur. Þessi mikli innflutningur þessarar vörutegundar sýnir berlegast hina gífurlegu þörf landsmanna fyrir þessa fæðutegund. Það myndi því koma illa niður á þeim, ef ætti að svipta þá möguleikunum á því að fá þessa góðu og hollu fæðu. Ég get að því leyti tekið undir með hv. landbn., að það væri æskilegast, að landsmenn gætu framleitt svo mikið af kartöflum, að þeir gætu fullnægt sjálfum sér, en svo er ekki, og er ekki sýnilegt, að verði á næstu árum. Hvað bann þetta snertir, þá er ég viss um, að það yrði til þess að hækka íslenzkar kartöflur stórkostlega í verði. Ég býst nefnilega við, að Búnaðarfélag Íslands vildi sem lengst halda í bannið og gefa ekki undanþáguna fyrr en skortur væri orðinn á kartöflum í landinu. En eins og kunnugt er, þá tekur það töluverðan tíma að útvega vörur til landsins frá útlöndum. Skemmsti tími, sem um getur verið að ræða, er hálfur mán. En það getur líka tekið allt að 11/2 mán. að útvega vörur til ýmsra staða utan Rvíkur. Gæti því svo farið, að tilfinnanlegur skortur yrði á þessari vöru sumstaðar á landinu, enda þótt undanþágan yrði veitt með töluverðum fyrirvara. Ég sé að vísu, að n. ætlast ekki til þess, að þetta innflutningsbann gildi samtímis alstaðar á landinu. Má því vera, að þeir hlutar landsins, sem ekki geta ræktað kartöflur, geti orðið lausir við bannið, en það er ekki öruggt samkv. frv., þar sem fara á eftir till. Búnaðarfélags Íslands um þetta. Verði það ekki, þá tel ég frv. herfilega árás m. a. á þá bændur landsins, sem ekki geta ræktað jarðepli og eru því neyddir til þess að kaupa þau frá útlöndum. Frv. má því alls ekki verða að lögum.

Það er kunnugt, að áhugi manna fyrir jarðeplaræktun hefir aukizt allmjög nú á síðustu árum, en hitt er líka kunnugt, að þekkingin á ræktuninni hefir ekki verið eins mikil og skyldi, og að hún hefir þeirra hluta vegna gengið misjafnlega. Það hafa komið fram miklar skemmdir í kartöflunum sumstaðar á landinu, sem hafa gert mikið tjón. Bannið gæti þannig haft þau áhrif, að það ekki einungis hækkaði verðið, heldur líka að hafðar yrðu á boðstólum skemmdar vörur, sem væru jafnskaðlegar og heilsuspillandi eins og góð jarðepli eru heilsubætandi og nauðsynleg fjölda manna. Ég vil því mælast til, að hv. landbn. taki frv. þetta aftur, því að það er alls ekki tímabært nú. Hitt má vel vera, að það verði forsvaranlegt að fara þessa leið, sem það gerir ráð fyrir, eftir nokkur ár, þegar landsmenn hafa fengið þekkingu og aðstöðu til þess að framleiða nægilega mikið fyrir sig sjálfa af þessari vöru. En ennþá vantar mikið til þess, að svo sé. Ég tel ekki, að frv. þetta eigi að verða að lögum að svo vöxnu máli.