27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 151 í C-deild Alþingistíðinda. (3252)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Tryggvi Þórhallsson:

Ég sé, að hæstv. fjmrh. er ekki viðstaddur. Annars geri ég ráð fyrir, að hann hefði mótmælt orðum hv. 3. þm. Reykv. Ég kann ákaflega illa við, að menn séu nafngreindir hér til að niðra þeim, þar sem þeir geta ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Það er algerlega órökstuddur sleggjudómur hjá hv. 3. þm. Reykv., að þessi maður, sem hann nefndi, sé sérstaklega rangsleitinn maður. Ég læt það álit um þennan mann koma frá mér, sem er honum mjög vel kunnugur, að hann er hinn úrskurðarbezti maður og myndarlegasti á þessu sviði, sem ég þekki, og við hliðina á orðum hv. 3. þm. Reykv. læt ég í ljós mitt fyllsta traust til þessa manns.