02.06.1933
Efri deild: 87. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (3311)

168. mál, viðbótar- tekju- og eignarskattur

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Þegar ég miða skattþungann við brúttótekjur, þá á ég ekki við, að skatturinn sé reiknaður af brúttótekjum. Hann er vitanlega reiknaður af skattskyldum tekjum. En þegar á að gera sér grein fyrir afkomu manns, þá verður að miða við brúttótekjur, og það er aðalatriðið.

Ég gæti nefnt fjölda dæma því til sönnunar, að skattþegnar yrðu ekki eins hart úti og sagt hefir verið; en ég skal að þessu sinni aðeins nefna tvö:

Tökum mann, sem hefir 27 þús. kr. í tekjur og 340 þús. kr. eign. Þetta er sæmilega efnaður maður. Hann greiðir í skatt samanlagt 5000 kr. og útsvar til bæjarins 9300 kr. Þetta eru samtals 14300 kr., eða um 53% af tekjunum, en þess ber að gæta, að þessi maður hefir sterkan bakhjarl í eigninni.

Tökum annan mann, sem hefir 81 þús. kr. í tekjur og yfir ½ millj. kr. eign. Hann greiðir alls í skatt 20 þús. kr. og í útsvar tæp 30 þús. Þetta gerir samtals tæp 50 þús. kr., eða um 62% af tekjunum.

Þessi og önnur dæmi hrekja það, að skattur fari yfir 100% af tekjunum, og bera þess jafnframt vott, að það er rétt að leggja brúttótekjur til grundvallar, ef leitað er eftir afkomu manna. Hitt er mjög villandi, að draga fyrst skatt undanfarinna ára frá tekjunum, áður en hundraðstalan er útreiknuð.