05.05.1933
Neðri deild: 66. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2144 í B-deild Alþingistíðinda. (3383)

167. mál, kreppulánasjóð

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Ég vil þakka hv. kreppun. fyrir þá vinnu, sem hún hefir lagt í það að koma þessu frv. fram, um leið og ég læt nokkur orð falla um till. hennar. N. hefir orðið ásátt um að fella úr frv. 25. gr., en hefir í huga að semja sérstakt frv. um sama efni, eða, eins og kom fram í ræðu hv. frsm., að skipta frv. síðar í fleiri kafla og taka upp í þetta frv. sem einn kafla efni frv., sem bændanefndin hefir undirbúið, um sérstakar ráðstafanir vegna kreppunnar. Ég vil biðja hv. kreppun. að taka það form til rækilegrar athugunar, og í sambandi við það væri æskilegt, að hún vildi taka 1. brtt. sína, sem fjallar um 2. og 3. gr., og þær aðrar brtt., er standa í sambandi við þetta, aftur til 3. umr. Ef n. hnígur að því ráði, að fella allt þetta efni í eitt stórt frv., þá er ástæðulaust að fella niður 2. gr.

Það gladdi mig, að n. hefir rannsakað rækilega það atriði, sem felst í 23. gr. frv., og ætlar hún að flytja brtt. við þá gr., er kemur að 3. umr. Ég vil mælast til viðtals við hv. n. um þær brtt., áður en þær verða bornar fram.

Um aðrar brtt. hv. kreppun. skal ég ekki fara mörgum orðum, ég tel þær yfirleitt til bóta, eru flestar þeirra aðeins smávegis lagfæringar. Hvað snertir ræðu hv. þm. Seyðf. þá hefir hv. frsm. n. svarað henni að mestu. Hann beindi þeirri ásökun til stj., að hafa ekki látið fara fram rannsókn á högum smáútgerðarmanna, iðnaðarmanna, verkamanna og sjómanna, hliðstæða þeirri, sem fram fór á afkomu bænda. Ég þarf að vísu ekki að taka þær ásakanir til mín, þar sem ég fer ekki með sjávarútvegsmálin né atvinnubótamál kaupstaðanna. En ég vil þá víkja að þessu efni með nokkrum orðum. Það má vera, að slík rannsókn sé nauðsynleg, en ef maður athugar það mikla verðfall, sem orðið hefir á afurðum bænda, og þá geysilegu lækkun á því kaupi, sem þeir raunverulega fá fyrir vinnu sína, þá er það ekki nema sanngirniskrafa f. h. landbúnaðarins að gera fyrst ráðstafanir bændunum til bjargar. Og það er ofmælt hjá hv. þm. Seyðf., að smáútvegsmenn og þeir aðrir, sem hann telur upp í brtt. sínum, hafi orðið fyrir eins þungum búsifjum af völdum kreppunnar og bændurnir.

Brtt. hv. þm. Seyðf. og samflokksmanna hans við 18. gr. frv. hefir hv. frsm. n. þegar talað um. En ég vil árétta það, að 18. gr., eins og hún nú er, felur þegar í sér að nokkru leyti það, sem hv. till.menn fara fram á, þar sem áskilið er, að ef efnahagur lántakanda breytist svo, að honum verði auðvelt að greiða lán sitt á skemmri tíma að dómi sjóðsstjórnar, þá geti hún gert honum að greiða hærri afborganir af láninu. Hinsvegar er rétt, að n. taki til athugunar hvort setja megi inn í frv. einhver skýrari ákvæði í þessa átt. En stórmikill galli væri það, ef aldrei væri hægt að gera hreint upp skuldaviðskiptin eins og mundi óhjákvæmilegt, ef brtt. hv. þm. Seyðf. ná samþykki þingsins, svo að menn ættu það alltaf yfir höfði sér, að þau skuldaskil, sem gerð hefði verið, gætu raskazt og orðið að engu. Hitt hygg ég, að hv. þm. Seyðf. hafi ekki athugað nógu vel, er hann heldur því fram, að þeir, sem eigi jarðir og stór bú, hafi mestan hagnað af þessum ráðstöfunum. Þar er það fyrst að athuga, að þeir menn hafa sjaldnast miklar lausaskuldir, sem eiga fasteignir til þess að setja að veði. Því að jafnan er hægt að fá lán með betri kjörum, ef hægt er að setja fasteignir að veði fyrir þeim. Þá er og á það að líta, að komið gæti fyrir, að sumir fátækustu bændurnir verði að fá sveitarábyrgð sem viðbótartryggingu a. m. k. Og ef illa fer, svo að afborganir greiðast ekki í kreppulánasjóðinn, þá eru það vitanlega þeir, sem mest hafa umvélis og hæst útsvör bera, er verða að bera baggann. Og ég verð að segja það, að það yrðu mikil mistök í framkvæmd þessara ráðstafana, ef þeir fengju ekki mest eftirgefið af skuldum og mesta hjálpina, sem versta eiga aðstöðuna.

Viðvíkjandi brtt. hv. 1. þm. Eyf. á þskj. 509, vil ég taka undir með hv. fram. n. um það, að þar vantar allar skýrslur til að byggja á. Ég er líka hræddur um það, að í framkvæmd gæti þessi hjálp komið allmisjafnlega niður milli smábýlabændanna innbyrðis, ef binda á kreppulánasjóðshjálp til þeirra við 57. gr. búnaðarbankal. Ég get búizt við því, að í framkvæmdinni geti það orðið svo, að sá, sem á einni kúnni fleira eða lítið eitt stærri kálgarð, gæti komizt í þann flokk, að hann fengi hjálp, en sá, sem ætti verri aðstöðu, yrði út undan. Þessi brtt, þarf nákvæmrar athugunar, og vil ég mælast til þess, að hv. flm. taki till. aftur til 3. umr. Að öðru leyti verð ég að viðurkenna, að þeir menn, er svo stendur á fyrir, eiga fyllilega skilið aðstoð hins opinbera. Og ég játa það, að enn hafa þeir ekki fengið þá hjálp, sem l. frá undanförnum þingum hafa gert ráð fyrir. En mér þætti æskilegt, að athugað væri í n., hvort þessi leið skyldi farin, eða hvort fyndist ekki önnur heppilegri.