11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2165 í B-deild Alþingistíðinda. (3395)

167. mál, kreppulánasjóð

Steingrímur Steinþórsson:

Ég á hér tvær brtt., og skal ég leyfa mér að fara um þær nokkrum orðum. En þar sem ég hefi ekkert talað í þessu máli ennþá, vil ég fyrst segja örfá orð um það almennt.

Það mun vera álit flestra, að þetta sé það mál, sem mest þörf er að leysa eins og sakir standa nú, og heiður Alþingis liggi við, að sæmilega verði frá því gengið. Afkoma bændastéttarinnar er þannig vegna hins gífurlega verðfalls tvö síðustu árin, að voði er fyrir dyrum, ef ekki eru gerðar gagngerðar ráðstafanir til að bæta úr vandræðunum. Það er óhætt að fullyrða, að sölutekjur meðalbænda í sumum héruðum þessa lands hafa ekki farið fram úr 600 kr. árið 1932. Sjá allir, hvílíkir möguleikar eru þá til að framfleyta heimili, þar sem þarf að kaupa mikið af aðfluttum vörum og þar að auki að halda við öllum þeim tækjum, sem til búrekstrar þarf. Og það, sem ég vildi láta í ljós til viðbótar við það, sem áður hefir verið sagt um afkomu bænda síðustu ár, er það, að ég er hræddur um, að afkoma bænda sé lakari en skýrslurnar hafa gefið til kynna. Bændur hafa orðið að vera svo óvanalega sparsamir, að þeir hafa alls ekki keypt nema það, sem allra nauðsynlegast er til að geta lifað. Þeir hafa jafnvel ekki keypt sér klæðnað, heldur bjargast við þann, sem þeir áttu áður, og þeir hafa ekki keypt eða haldið við svo vel sem þurft hefði þeim tækjum, sem nauðsynleg eru til að reka hvert bú. Slíkur sparnaður er algerlega óeðlilegur og hlýtur að verða til þess, að úr þessu verður að bæta næstu árin og skapar það þá aukin útgjöld. Sjá allir, að með þessu lagi verður ekkert bú rekið til lengdar. Af þessum ástæðum er ég hræddur um, að það komi fram, þegar farið verður að framkvæma þessi l., að ástandið reynist verra en menn hafa gert sér í hugarlund.

N. sú, sem starfað hefir að þessu máli, hefir verið, eins og formaður hennar, hv. þm. Str., sagði, einhuga um aðalatriði þessa frv. Samstarf nm. hefir verið mjög gott. Umr. um frv. hafa líka sýnt, að ágreiningur er aðeins um nokkur atriði og eru aðeins fá af þeim, sem skipta verulegu máli. Það er ekki undarlegt, þótt nokkuð verði skiptar skoðanir um slíkt stórmál sem þetta.

Þær brtt., sem ég flyt nú við frv., eru fram komnar af því, að ég hefi sérstöðu um sum atriði þessa máls. Vil ég þá fyrst leyfa mér að minnast á brtt. á þskj. 642, við 3. gr., að heimilt sé sjóðstjórninni að verja úr kreppulánasjóði allt að 1 millj. kr. sem óafturkræfu framlagi til þeirra stofnana, er þurfa að gefa svo mikið eftir af skuldum samkv. lögum þessum, að þær geta ekki framvegis starfað á heilbrigðum grundvelli.

Hv. frsm. kom dálítið inn á þessa till., og mér er líka kunnugt um, að þessi till. fékk ekki byr í kreppun. En ég skal segja, hvað fyrir mér vakir með þessari till. Ég er hræddur um; að víða verði svo ástatt, að til þess að fullnægja ákvæðum þessa frv. verði ýmsar stofnanir að gefa svo mikið eftir af skuldum, að þær verði í sumum tilfellum alls ekki starfshæfar á eftir. Ég á hér við t. d. sparisjóði og verzlunarfélög, en þó aðallega samvinnufélög, og vitanlega getur hér verið um fleiri stofnanir, sem almenningur sjálfur á og starfrækir, að ræða. Það er vitanlega sjálfsagt, að allar slíkar stofnanir gefi eftir svo mikið sem mögulegt er, t. d. að samvinnufélögin gefi eftir alla sína varasjóði. En þegar svo er komið, sé ég ekki, að hægt sé að ganga lengra, nema það lendi þá á þeim mönnum, sem í félögunum eru, á þann hátt, að grípa verði til hinnar sameiginlegu ábyrgðar, en það eru einmitt þeir sömu menn, sem hér á að bjarga. Með þetta fyrir augum hefi ég borið þessa brtt. fram. Get ég að vissu leyti þakkað hv. frsm. fyrir ummæli hans um till. Hann benti á, að þetta mætti að sjálfsögðu taka til athugunar á næsta þingi, því að þá væri betur hægt að sjá hvort sérstök þörf væri á þessu. Getur vel verið, að á næsta þingi þurfi að athuga fleiri atriði en þetta eina, viðvíkjandi þessari löggjöf, og að því leyti get ég sætt mig við yfirlýsingu hv. frsm., þótt ég hinsvegar álíti, að miklu réttara sé að gefa heimild nú þegar til þess að verja nokkru af fé sjóðsins á þennan hátt, enda hættulaust með öllu, því að vitanlega mundi sú heimild því aðeins verða notuð, að brýn nauðsyn bæri til. Vegna þeirra undirtekta, sem þessi till. fékk í n., hefi ég því miður litla von um, að hún verði samþ. Ég vildi þó láta það koma fram, að ég álít óhjákvæmilegt að gera eitthvað í þessu efni, hvort sem það verður gert nú eða á næsta þingi.

Þá á ég ásamt hv. þm. S.-Þ. brtt. á þskj. 641, um stjórn kreppulánasjóðs. Hefir áður verið minnzt á það, að n. hefði ekki verið á eitt sátt um það, hvernig stjórn sjóðsins skyldi skipuð, og hv. þm. Borgf. hefir nú borið fram brtt. þar um, og leggur hann þar til, að búnaðarbankanum einum verði falin stjórn sjóðsins.

Við flm. þessarar till. leggjum til, að stjórn sjóðsins verði skipuð 5 mönnum; sé einn tilnefndur af Búnaðarbanka Íslands, einn af Landsbanka Íslands, einn af Sambandi ísl. samvinnufélaga og tveir af atvmrh. eftir till landbn. Alþingis. M. ö. o., það er lögð til sú breyt. frá því, sem er í frv., að bætt sé í stjórn sjóðsins einum manni frá Landsbankanum og öðrum frá Sambandinu. Allar þær till., sem fram hafa komið um stjórn sjóðsins, leggja til, að búnaðarbankinn eigi þar fulltrúa einn eða fleiri. Þar með virðist mér þau rök slegin niður, sem hv. þm. Borgf. notaði sínu máli til stuðnings, að rétt væri, að búnaðarbankinn einn ætti að stjórna þessum sjóði, af því að hann hefði mesta kunnugleika á þessum málum. Það eru allir sammála um, að búnaðarbankinn eigi fulltrúa í þessari stjórn, og ég hygg, að sú þekking komi að jafnmiklum notum, þó að í stjórninni sitji fulltrúar frá fleiri stofnunum.

Deilan hefir aðallega staðið um það, hvort aðiljar frá fleiri stofnunum skuli koma inn í þessa stjórn. Nú hefir Landsbankinn gert þá kröfu, að hann eigi fulltrúa í stjórninni. Það leikur ekki á tveim tungum, að þetta mál snertir Landsbankann mjög mikið, því að þar munu skuldabréfin að lokum hafna að mestu leyti. Auk þess hefir hann vitanlega mikilla hagsmuna að gæta í sambandi við þetta á ýmsan annan hátt. Það er því skoðun okkar flm. þessarar till., að sjálfsagt sé, að Landsbankinn eigi fulltrúa í stjórn sjóðsins, fyrst hann óskar þess, og einnig af því, að hann sem aðalpeningastofnun ríkisins og sú stofnun, sem ræður mestu í þeim efnum, á kröfu til þess fremur öðrum aðiljum að hafa áhrif á stjórn þessa sjóðs. Ég þykist líka þess fullviss, að því fleiri stofnanir, sem koma þar til, því víðtækari þekkingu fái sjóðstjórnin á þessum málum yfirleitt.

Um það, að Sambandið eigi mann í stjórn sjóðsins, þá hygg ég, að sú mótbára kunni að koma þar á móti, að fulltrúi Sambandsins yrði ekki fulltrúi bændastéttarinnar yfirleitt, svo að ekki sé eðlilegt, að það fyrirtæki eigi mann í þessari stjórn frekar en önnur fyrirtæki. Þó má benda á, að Sambandið „representerar“ þó miklu meira en helming af öllum bændum landsins, svo að það er ekki hægt að benda á neitt fyrirtæki, sem hefir eins mikilla hagsmuna að gæta í þessu máli. Út frá þessu álít ég rétt, að SÍS eigi fulltrúa í þessari stjórn.

Hv. þm. Borgf. taldi skaðlegt, að hinir stærri kröfuhafar ættu hlutdeild í stjórn sjóðsins. Nú verður að vísu alls ekki komizt fram hjá kröfuhöfunum í framkvæmdinni, og eru einmitt meiri líkur til þess, að góð samvinna verði í þessum efnum og hægara um samkomulag, ef kröfuhafar eiga fulltrúa í stjórn sjóðsins, ekki sízt slík stofnun sem Landsbankinn, enda leggur Landsbankinn nokkurt kapp á þetta. Ég vil mótmæla því, að SÍS sé eingöngu kröfuhafi. SÍS er fyrst og fremst fulltrúi bænda, þótt e. t. v. mætti segja, að það væri kröfuhafi jafnframt, en lengra verður heldur ekki gengið en að segja, að SÍS sé jöfnum höndum kröfuhafi og fulltrúi bænda, sem hjálparinnar eiga að njóta.

Ég er sammála hv. þm. Borgf. um það, að ekki sé rétt að skapa óróa um sjóðinn, en ég álít, að meiri líkur séu til þess, að órói skapist um sjóðinn, ef hin aðferðin er höfð, sem hv. þm. heldur fram, án þess ég á nokkurn hátt vantreysti þeirri stofnun, sem hv. þm. vill fela stjórn kreppulánasjóðs. Er heppilegra að byggja þetta á sem breiðustum grundvelli, svo að sem flestir verði við þetta tengdir í framkvæmdinni, sem búast má við, að verði að ýmsu leyti óvinsæl. — Mun ég svo ekki fara fleiri orðum um þetta atriði. Ég veit það, að hv. þm. Borgf. gengur gott eitt til með þeim till., sem hann ber fram. Skoðanamunurinn er aðeins um það, hvað heppilegast sé að gera í þessu efni.

Hæstv. atvmrh. talaði á móti brtt. okkar á þeim grundvelli, að óheppilegra væri að hafa stjórnina skipaða 5 mönnum en 3. Má vera, að það sé þyngra í vöfunum, en ég held þó, að þetta verði ekki talið miklar röksemdir á móti till. Þá færði hæstv. ráðh. það til, að ekki væri ljóst af till. okkar, hve lengi stj. ætti að starfa. Er það rétt, að ekkert er tekið fram um þetta í till., og mun þó engum hafa dottið í hug, að stj. yrði eilíf, en hinsvegar þóttumst við mega ganga út frá því, að athuga yrði þessa löggjöf og endurskoða þegar á næsta þingi, svo að þá yrði jafnframt hægt að taka afstöðu til þess, hvort stj. ætti að hætta störfum um næstu áramót eftir að sjóðurinn tekur til starfa eða sitja áfram. Annars geri ég þetta ekki að kappsmáli, þar sem tækifæri verður til að breyta þessu síðar.

Ég sé svo ekki ástæðu til að taka fleira fram um þetta mál, og mun ég ekki taka aftur til máls, nema mér gefist sérstakt tilefni til.