13.05.1933
Efri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2175 í B-deild Alþingistíðinda. (3403)

167. mál, kreppulánasjóð

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Ég hafði hugsað mér, að þessu frv. yrðu látin fylgja nokkur orð af hálfu hæstv. stj. En þó að svo hafi ekki orðið, vil ég ekki láta umr. líða hjá án þess að segja nokkur orð um frv. Efni frv. er aðallega það, að útvega fé í sérstakan sjóð, kreppulánasjóð. Þetta er ætlazt til, að gert sé með tvennu móti, og segja 1. og 2. gr. frv. til um aðferðirnar. 1. gr. mælir svo fyrir, að um 7 ára tímabil skuli vaxtagreiðslur þær, sem Búnaðarbanki Íslands á að inna af hendi til ríkissjóðs, renna í kreppulánasjóð. Þótt það eigi raunar ekki við að fara að gera orðalag einstakra gr. að umræðuefni nú, vil ég þó benda á, að með slíku orðalagi 1. gr. er það alveg ótiltekið, hvað mikið á að renna í kreppulánasjóð. Á þessu tímabili geta orðið ýmsar breyt. á vaxtagreiðslum Búnaðarbanka Íslands til ríkissjóðs, en samkv. þessari 1. gr. renna allir þeir vextir í þennan sjóð. Ég hefði viljað hafa þessa gr. svo, að tiltekið væri, að hér sé um vexti af lánum ríkissjóðs til búnaðarbankans að ræða: Ég tel það mjög óviðkunnanlegt, að ekki sé hægt að sjá af gr. sjálfri, við hvaða upphæð sé átt, heldur þurfi menn að leita að því í landsreikningunum og öðrum slíkum heimildum.

Til er ætlazt, að kreppulánasjóði verði aðallega aflað fjár með útgáfu ríkisskuldabréfa, sem bera eiga 4½% vexti. Svo á sjóðurinn að veita lán, sem eftir fyrirmælum frv. verða sæmilega tryggð. Og þetta álít ég, að sé sú rétta leið til fjáröflunar fyrir slíkan sjóð, að fá féð að láni. Ég skal ekki neita því, að það getur verið nauðsynlegt að leggja sérstakar byrðir á ríkissjóð vegna slíkra sjóða. Þar gæti komið til greina til dæmis kostnaður við framkvæmdarstjórn og annan rekstur sjóðsins. Ég hefi bent á það í öðru sambandi, að ég tel óeðlilegt á krepputímum að skattleggja menn til þess að safna í sjóði. Og sama má segja um þær ráðstafanir að leggja skatta á menn til þess að afla útlánsfjár, einmitt þegar hver gjaldþegn í landinu þarf á öllu sínu að halda. Hin almennu fyrirbrigði gera nú vart við sig hér sem annarsstaðar, sem koma í ljós, þegar kreppuástand hefir ríkt nokkra stund, að það fer að verða rýmra um lánsfé, en menn gera sér almennt í hugarlund. Það er nú mjög áberandi í öðrum löndum víða, hvað greiður aðgangur er orðinn að lánsfé, góð kjör og vextir lágir, en tregða er mikil til þess að fá menn til að nota lánsfé, þar sem atvinnufyrirtækin eru ekki arðberandi. En það er eðlilegt, að undir svona kringumstæðum hugsi menn til þess að nota lánsfé til þess, sem því hæfir, en það er fyrst og fremst til allra útlána, þar sem ætlazt er til, að fénu sé skilað aftur. Og ég teldi það mikla bót á þessari löggjöf, ef þessi hv. d. sæi sér fært að gera nokkrar tilfærslur á fjáröflunaraðferðunum milli 1. og 2. gr. frv., svo að ekki yrði gerð krafa um bein framlög úr ríkissjóði í 1. gr., nema þau, er alveg þættu óhjákvæmileg. Ég gæti þá verið með því, að fjárútvegunarheimildin samkv. 2. gr. væri hækkuð svo sem þurfa þætti, í samræmi við slíka breytingu á 1. gr. Þetta er eiginlega aðalatriðið af því, sem ég hefi við frv. að athuga.

Ég get þá farið nokkrum orðum um það, sem ég tel gott við frv. þetta. Ég álít það í alla staði holla og réttmæta braut, er frv. fer, með því að tryggja bændum nauðsynlega aðstoð til þess að geta fengið nauðasamninga um skuldagreiðslur sínar. Þetta er fjárhagslega heilbrigð ráðstöfun, ef henni er skynsamlega beitt í framkvæmdinni, og getur komið að miklu gagni eins og nú stendur á. Ég hefði viljað, að í frv. væri tekið dálítið fastari tökum á því, að afmarka verkefni þessara ráðstafana. Ég hefi séð það á ýmsum till., sem fram hafa komið, bæði frá stj. í upphaflega frv. og brtt. í hv. Nd., að sú tilhneiging gerir sig gildandi, að þegar sé búið að stofna svona stóran sjóð, sé löggjafarvaldinu opin leið í hann og geti ráðstafað fé hans til ýmislegs, sem menn hafa gaman af, að gert sé, en ekki þykir tiltækilegt að setja í fjárl. eða fjáraukal. Það er hættuleg leið, að stofna slíka sjóði með þeim hugsanagangi, að geta vaðið í þá og veitt úr þeim stórar óafturkræfar fúlgur án þess að samþ. Alþ. komi til. Það er einmitt svona ráðstöfun á ríkisfé, sem ætlazt er til, að stjórnarskráin fyrirbyggi með ákvæðum sínum um meðferð fjárl. Og það er hreint og beint verið að fara í kringum stjórnarskrána, ef sjóður er stofnaður í ákveðnum tilgangi og svo er fé hans notað í einhverju allt öðru augnamiði. En þær upphæðir, sem settar eru í fjárl., koma þó alltaf til athugunar á þinginu, og er þá hægt að dæma um það, hvort þær séu nauðsynleg útgjöld eða ekki.

Ég tel það mikinn galla frá stj. hálfu á undirbúningi þessa máls, að hún skyldi ekki strax leggja fyrir þingið óbrjálað álit n. þeirrar, er vann að þessu máli milli þinga. Ég hefi aldrei séð frv. það, er sú n. samdi. Sem fylgiskjal þessa frv. hefir verið látin fylgja tölutafla um hag bænda, sem þessi mþn. hefir samið. En gera má ráð fyrir því, að n. hafi haft eitthvað að segja um þær niðurstöður, sem hún komst að, enda hafði hún samið sitt frv. Þetta frv. hefi ég aldrei fengið að sjá. Og ég tel það ágalla á flutningi málsins frá stj. hendi. En það, sem ég hefi heyrt um þetta frv. n., hefir mér líkað vel. Aftur á móti var ég ekki sem ánægðastur með þetta frv., eins og það kom fram. Og mér er tjáð það, að flest af því, sem ég taldi athugavert við frv., hafi ekki verið í frv. mþn. En flest þessi atriði eru nú aftur komin út úr frv., og skilst mér, að í sinni núverandi mynd sé það ekki langt frá till. n. Ég vil skjóta því til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar hér í d., hvort hún sjái sér ekki fært að láta prenta till. mþn. óbreyttar með nál. sínu, svo að þær komist í skjalapartinn.

Ég hefði verið ánægðari með þetta frv., ef það hefði verið ákveðið í því, að féð, sem þarna þarf til, skyldi vera hreint lánsfé, útvegað með lánum, og látið úti sem lán, að undanskildum nauðsynlegum kostnaði við framkvæmd sjálfrar ráðstöfunarinnar. Ég hefði talið eðlilegra, að í frv. stæði ákvæði þess efnis, að kreppulánasjóður skyldi sjálfur standa straum af ávöxtun og inndrætti þeirra ríkisskuldabréfa, sem þarna verða útgefin. Ég hefi ekki fundið neitt í eðli þeirra ráðstafana, sem hér á að gera, sem gæti gert kreppulánasjóði erfitt fyrir með að standa undir þessari byrði. Ég held, að þessar ráðstafanir væru fjárhagslega heilbrigðari, ef svona ákvæði væri í löggjöfinni sjálfri. Ég sé enga nauðsyn á því að láta þessi lán verða ríkissjóðnum til byrði, og ákvæði um það, að sjóðurinn skyldi sjálfur standa straum af þessum skuldabréfum, þarf ekki að rýra neitt þær ráðstafanir, sem hér á að gera landbúnaðinum til hjálpar.

Ég finn svo ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta við þessa umr., en vildi setja fram þessar aths., svo að n. gæti tekið tillit til þeirra, eftir því, sem henni finnst rétt vera.