29.03.1933
Efri deild: 29. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í C-deild Alþingistíðinda. (3539)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Frsm. minni hl. (Jón Þorláksson) [óyfirl.]:

Brtt. mín felur það í sér, að gjald þetta skuli fellt niður án þess að íþyngja ríkissjóði með tekjumissi, því að með henni er ríkissjóður losaður við útgjöld, er nema þeim hluta útflutningsgjaldsins, er fella á niður.

Í ræktunarsjóðslögunum er svo ákveðið, að ríkissjóður skuli smátt og smátt leggja fram fé til ræktunarsjóðs, er nemi einni milljón króna. 1925 voru svo samþykkt lög um hækkun á útflutningsgjaldi, og var svo ákveðið, að ræktunarsjóður nyti þeirrar hækkunar, þó þannig, að frá 1. jan. 1927 átti þessi hækkun að skiptast svo, að ¾ rynnu til strandgæzluskips, en ¼ til ræktunarsjóðs. Var þannig ætlazt til, að gjaldaukinn af landbúnaðarafurðum rynni til ræktunarsjóðs, en útflutningsgjald af sjávarafurðum til landhelgisgæzlu. Sá hluti útflutningsgjaldsins, sem frv. fer fram á að falli niður, er því sá, er gengið hefir til ræktunarsjóðs. Ef frv. verður að lögum, er ekki sanngjarnt, að ríkissjóður haldi áfram að greiða tillagið, þar sem gert er ráð fyrir sérstökum tekjum til þess. Að því er snertir höfuðstól ræktunarsjóðs er það að segja, að hann er 2684000 kr., en hv. frsm. meiri hl. mun hafa átt við þá upphæð, er ríkissjóður átti að greiða, og er nú komin á 8. hundr. þús.

Greiðsla úr ríkissjóði til ræktunarsjóðs var síðasta ár 44 þús. kr., eða sama upphæð og útflutningsgjald að landbúnaðarafurðum.

Nú er það svo, að ræktunarsjóður fær ekki fé til útlána með því að stofna höfuðstól, heldur sem milliliður milli lánveitenda og lántakenda. Hann gefur út jarðræktarbréf og hefir á þann hátt haft 2921000 kr. í umferð. Þessi fjáröflunarleið stendur sjóðnum enn opin, og skiptir því litlu máli fyrir útlánastarfsemi sjóðsins, hvort hann fær 40-60 þús. kr. úr ríkissjóði eða ekki. Mér finnst óeðlilegt að leggja á skatta til að safna í sjóð, sem á að lána mönnum peninga. Viðhorf manna gagnvart skuldum og lánum er líka annað en það var 1925. Þá þótti mest um vert, að hægt væri að veita bændum sem mest lán, en nú er kvartað yfir því, að meira lánsfé sé komið í landbúnaðinn en hann geti risið undir. Hvað sem segja mátti um þetta framlag 1925, er það úrelt nú. Brtt. gerir frv. aðgengilegra, því að verði hún samþ., er hag ríkissjóðs ekki íþyngt meira en þörf er á.