19.05.1933
Neðri deild: 78. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 258 í C-deild Alþingistíðinda. (3713)

36. mál, útflutninsgjald af landbúnaðarafurðum

Frsm. minni hl. (Ólafur Thors) [óyfirl.]:

Ég er hissa á þessum löngu umr. um svona ómerkilegt frv., og þó að ég sé frsm. minni hl., þá hefi ég ekki tekið mikinn þátt í þeim ennþá og mun ekki gera það.

Mig undrar einna mest á ræðu hv. l. þm. N.-M., og þá m. a. á því, að honum hafði ekki skilizt, að það væri neinn munur á því annarsvegar að stuðla að því, að útflutningsgjald á vissri framleiðsluvöru sjávarútvegsmanna væri fært niður, og þessu máli, þar sem farið er fram á að afnema með öllu útflutningsgjald. Það er meiri grautarhausinn, sem ekki skilur þetta, ef hann á annað borð leggur sig í bleyti. En það er með öllu óviðeigandi og ástæðulaust að vera hér að bera þeim mönnum á brýn illvilja í garð bænda, sem í þessu sambandi hafa minnzt á, að fyrir þinginu liggi frv. um stórvægilegan styrk til bænda, sem ber með sér skilning löggjafans á nauðsyn bænda. Og samtímis er verið að bera fram frv. eins og þetta, sem í sjálfu sér er þýðingarlaust, því bændur gera hvorki að standa né falla með samþykkt þess eða falli.

Þetta frv. er svo auðvirðilegt, að það má fullyrða með óyggjandi rökum, að engan mann, þeirra er því er ætlað að vernda, skipti það nokkru. Það er margt í ræðu þessa hv. þm. og annara hv. þm., sem gefur tilefni til andsvara, en ég ætla þó að mestu leyti að neita mér um að tæta í sundur þær rökvillur, sem hjá þeim hafa komið fram.

Hv. 2. þm. Rang. og hv. 1. þm. Skagf. vil ég benda á það, að ég get ekki séð, að það séu frambærileg rök, að þó að játað sé, að það þurfi að styrkja bændur með vissum og viðeigandi ráðstöfunum, þá liggi það í hlutarins eðli sem afleiðing af þeirri játningu, að það beri að létta af þeim öllum gjöldum. Ég get ekki séð, að krafan um afnám útflutningsgjalds á landbúnaðarafurðum geti átt sér stoð í þeirri staðreynd, að bændur eru styrksþurfar vegna árferðis og kreppu. Það væri ákaflega örðugt að lögfesta ákvæði bændum eða öðrum stéttum til framdráttar, ef ekki mætti veita þeim styrk nema áður væri búið að létta af þeim öllum gjöldum, sem þeir bera samkv. almennum skattalögum. Það mætti þá með sama sanni segja, að ekki væri ástæða til þess að greiða bændum lágmarksverð á kjöti meðan heimtaðir eru svo og svo margir aurar af sykurkg. og kaffikg. og annari matvöru. Allir hljóta að sjá, út á hvaða braut þetta leiðir. Það má heita, að með þessu verði ómögulegt að lögfesta ákvæði einni eða annari stétt til framdráttar, ef fyrst á að undanþiggja hlutaðeigandi stétt þeim gjöldum, sem hún innir af hendi samkv. almennri skattalöggjöf.

Hv. 1. þm. Skagf. sagði, og ég vil halda því á lofti, að það væri í sjálfu sér ekki aðalatriðið, hvort útflutningsgjaldið væri stórt eða smátt, heldur það, að gjaldið væri ósanngjarnt og því ætti að afnema það. Ég get gefið hv. þm. rétt í þessu, en ég vil þá bára spyrja hann, hvort hann sé reiðubúinn að taka afleiðingum af þessari skoðun sinni og aflétta því útflutningsgjaldi, sem enginn óbrjálaður maður getur annað en viðurkennt, að sé ákaflega ósanngjarnt, eins og að leggja 20-30% útflutningsgjald á síld. Útflutningsgjaldið á síldartunnunni er nú 1 kr.; undanfarin ár hefir það verið 1.50 kr. og stundum 3 kr. Hráefnið hefir komizt upp í 60-70 kr., en er nú í 3 kr. Þetta er ósanngjarnt, og þessi hv. þm. og allir, sem honum eru sammála hvað þetta snertir, verða þá að ljá þessu máli lið, og ég get gefið þeim tækifæri til þess.

Það má vel vera, að þetta gjald kæmi réttlátar niður með því að afnema útflutningsgjaldið af landbúnaðarafurðum og taka í þess stað upp hina gömlu tíund. En ef það er tilgangurinn að létta ekki gjaldinu af bændum, heldur koma löggjöfinni þannig fyrir, að allir bændur eigi við sama rétt að búa í þeim efnum, þá hefði ég kunnað betur við, að afnám útflutningsgjalds á landbúnaðarafurðum hefði verið borið fram sem afleiðing af því og jafnframt löggjöf um tíund.

Ég er sammála því, sem hv. 1. þm. S.-M., hv. þm. V.-Sk. og hv. þm. Ak. gleggst tók fram í sinni ræðu, að það er í sjálfu sér vansæmd fyrir bændastéttina, að þetta frv. er fram komið á þinginu. Og um gildi frv. skal ég segja það, að ég veit, að ég segi það satt, að svo að segja hver hv. dm. er í hjarta sínu heldur óánægður yfir því, að frv. er fram komið, þó að sumir þeirra hafi af ýmsum ástæðum slæðzt til þess að ljá því fylgi sitt. Frv. er nauðaómerkilegt og í sjálfu sér andstætt hugarfari flestra hv. dm., og m. a. þeirra, sem það hafa flutt. Það munu ekki margir hv. þm. gerast til þess að mótmæla þessu.