17.05.1933
Neðri deild: 76. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2342 í B-deild Alþingistíðinda. (3732)

93. mál, ábúðarlög

Frsm. minni hl. (Steingrímur Steinþórsson):

Hv. frsm. meiri hl. hefir þegar talað alllangt mál um ábúðarlagafrv. og talað mest almennt um það, en lítið um einstök atriði þess. Ég skal reyna að ofþreyta ekki hæstv. forseta og d. með því að brjóta þingsköp og fara of mikið almennt út í þetta mái við þessa 2. umr. En ég vænti, að mér leyfist að segja örfá orð almenns eðlis um málið, þar sem hv. frsm. meiri hl. talaði nær eingöngu um málið eins og það væri 1. umr. þess.

Ég skal taka það fram, að ég er þar á sama máli og hv. frsm. meiri hl., að þetta frv. hefir að ýmsu leyti tekið endurbótum frá því, er það var hér á ferðinni síðast, og á ég þá einkanlega við formshlið frv., sem hefir verið lagfærð að ýmsu leyti.

Það er ekki rétt hjá hv. frsm. meiri hl., að við, sem höfum leyft okkur að bera fram brtt. við frv., höfum tekið út úr því allt, sem hæstv. atvmrh. hefir sett inn í það. (PO: Viðvíkjandi húsabótaskyldunni). Nú, en það var á hv. þm. að skilja, að við hefðum tekið þær allar út. En það er síður en svo; þær standa fjöldamargar eftir.

Ég skal geta þess, að ég hefi mikla löngun til, að málið afgreiðist á þessu þingi, og ég fyrir mitt leyti vil stuðla að því, að það geti orðið. En ég skal þó taka það fram, að ég kýs heldur, að það dragist eitt eða tvö þing, að málið nái fram að ganga og afgreiðist þá á þann hátt, að viðunandi sé, heldur en að það afgreiðist endilega á þessu þingi, e. t. v. með þeim ágöllum, sem margir þm. geta ekki sætt sig við, eins og nú er frá frv. gengið. Að öðru leyti vil ég taka það fram, að ég sé ekki ástæðu til þess, að málið nái ekki afgreiðslu á þessu þingi, enda þótt Nd. geri einhverjar breyt. á því. Ég vil ekki sætta mig svo við ofríki Ed., eins og mér virtist koma fram hjá hv. frsm. meiri hl., þar sem hann taldi sjálfsagt að ganga að frv. óbreyttu, af því að Ed. hefði álitið rétt að samþ. það á þann hátt, sem hún gerði. Inn á slíka skoðun mun ég aldrei ganga og mun óhikað bera fram brtt. án tillits til þess, hvaða afgreiðslu málið hefir fengið í Ed.

Í þessu sambandi má minna á það, að ábúðarlagafrv., sem kennt er við 1884, var búið að vera til meðferðar full 30 ár í þinginu, áður en það endanlega var samþykkt. Það er ekki einsdæmi með mál eins og þetta, að það taki mörg þing að ganga frá þeim, og sú reynsla, sem fengizt hefir af þeim ábúðarlögum, sem staðið hafa óbreytt nú um 50 árin hin síðustu, sýnir, að það er ekki ólíklegt, að hér sé verið að gera löggjöf, sem á að standa um langan tíma. Og þá er enn meiri ástæða til þess að ganga svo frá þeirri löggjöf, að tekið sé fullt tillit til þeirra aðilja, sem hér eiga hlut að máli. —Ábúðarlögin frá 1884 bera þess glögg merki, að það eru landeigendurnir, sem um samning þeirra hafa fjallað, þeir, sem jarðirnar hafa átt, en ekki þeir, sem jarðirnar áttu að leigja. Það má lesa þetta út úr hverri gr. laganna, enda er rétti leiguliða stórkostlega misboðið með þeim lögum. Af þeirri löggjöf hefir skapazt það ástand, sem við þekkjum svo vel, þar sem ábúendur á leigujörðum einstakra manna hafa engar umbætur getað gert, hvorki húsabætur né jarðabætur. Þetta byggist ekki á því, að þeir menn, sem á leigujörðunum hafa búið, hafi ekki verið eins góðir til að sinna sínu starfi og sjálfseignarbændurnir og hafi ekki haft fullan vilja á því, heldur af því, að ábúðarlöggjöfin hefir búið svo að þeim, að þeir hafa ekki getað notið starfskrafta sinna. Mér virðist, að eins og frv. er nú orðið, sé það farið að bera nokkur merki þess, að það séu fingraför jarðeigendanna á því meira en að fullt tillit sé tekið til leiguliðanna.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að þegar frv. kom fyrst fram frá þeirri mþn., sem skipuð var 1927 til þess að fjalla um landbúnaðarmál og þá m. a. og einkum þetta mál, þá hafi það mætt geysimikilli gagnrýni. Ég verð að láta í ljós ánægju mína yfir því, að frv. fór jafnlangt í þá átt og það fór, þegar n. skilaði því. Það er auðséð á þeirri meðferð, sem frv. hefir fengið, að það hafa verið nógu sterk öfl til þess að toga það til baka í svipuð för og ábúðarlögin frá 1884, og því veitti ekki af, að mþn. stigi sporið stórt í till. sínum. Ef það hefði verið stigið skemmra í frv. mþn., þá hefði verið gengið meira til baka en þegar hefir orðið. Því álít ég það vel farið, að n. tók svo róttæka afstöðu í málinu, og ég er sammála þeirri afgreiðslu, sem málið fékk þar. Það, sem fyrir mér vakir, er, að réttur bænda á jörðum sé jafn, hvort sem þær eru í leiguábúð eða sjálfsábúð, að þeir hafi sömu möguleika til þess að gera umbætur og nota starfskrafta sína og að þeir hafi sömu aðstöðu til þess, að þau verk, sem þeir vinna, geti komið þeim sjálfum og þeirra niðjum að notum. Það er skylda þingsins að ganga svo frá þessari löggjöf, að sami réttur til starfa sé skapaður til handa öllum bændum, hvort sem þeir teljast leiguliðar eða sjálfseignarbændur. Það eitt á að vera ráðandi þegar ábúðarlagafrv. verður afgr. Hér má ekki játa hagsmuni þeirra fáu manna, sem eiga leigujarðir, sitja í fyrirrúmi; þeir verða að víkja, svo að bæta megi aðstöðu leiguliða og breyta því ófremdarástandi, sem því miður hefir átt sér stað í þessum efnum. Það er nú svo enn, að nærfellt helmingur bænda eru leiguliðar, og það eru þessar leigujarðir, sem níddar hafa verið niður eða a. m. k. orðið stórum á eftir með allar umbætur, af því að ábúðarlöggjöfin hefir verið haft um fót leiguliða og hindrað eðlilegar framkvæmdir. Þess vegna er hér ekki eingöngu um mál að ræða, sem snertir leiguliðana, heldur er hér um þjóðarmál að ræða, er snertir alla, um annan höfuðatvinnuveg landsins, að hægt sé að skapa sömu skilyrði fyrir búrekstur á leigujörðum og sjálfseignarjörðum. M. ö. o., það verður að þvinga þá menn, sem eiga leigujarðir, til þess að búa svo að leiguliðum sínum, að þeir geti starfað þess vegna sem frjálsir menn. Að öðrum kosti verða þeir að láta jarðirnar af hendi.

Þó það komi þessu máli ekki beint við, þá má þó benda á, að þær aðgerðir, sem þingið er nú að gera viðvíkjandi kreppunni, t. d. með stofnun kreppulánasjóðs og öðrum hliðstæðum ráðstöfunum landbúnaði vorum til verndar og viðreisnar, koma ekki réttilega niður. Þessar ráðstafanir koma þeim bændum að mestu gagni, sem hafa haft aðstöðu til þess að gera umbætur á jörðum sínum undanfarin ár, en þeir menn, og það eru einkum leiguliðar, sem ekki hafa getað lagt út í neinar slíkar umbætur, njóta ekki hlunninda á móts við hina, því þeirra skuldir eru minni, en þeir hafa að öllu leyti miklu verri aðstöðu til búrekstrar framvegis, en það léttir hlutfallslega minna á þeim en hinum, sem aðstöðu hafa haft til umbóta að undanförnu.

Ég skal svo ekki láta þessi almennu orð vera fleiri, en vil þá leyfa mér að fara nokkrum orðum um þær brtt., sem við í minni hl. n. höfum borið fram á þskj. 611. Ég skal taka það fram, eins og sjá má af nál., að hv. þm. Mýr. hefir skrifað undir nál. með fyrirvara, og mun hann því ekki telja sig bundinn við allar brtt., sem fyrir liggja. Að öðru leyti mun hann gera grein fyrir fyrirvara sínum, ef hann telur ástæðu til.

Sumar af þessum brtt., sem hér eru fram bornar, eru fremur smávægilegar. Aftur eru aðrar miklar efnisbreyt. og orka miklu um það, að mínum dómi, að frv. verði svo úr garði gert, að vel sé viðunandi. Ég skal þá fyrst minnast á fyrstu brtt., sem er við 3. gr. Þar stendur svo í frv.: „Hver maður, sem á jörð, er hann nytjar ekki að staðaldri sjálfur, skal skyldur að byggja hana hæfum umsækjanda gegn hóflegu eftirgjaldi, að dómi úttektarmanna“. Okkur virtist þetta ekki að öllu leyti vel heppilega orðað — „er hann nytjar ekki að staðaldri sjálfur“, af því að í 2. gr. frv. er einmitt ákvæði um það, að maður megi ekki hafa ábúð nema á einni jörð, nema með undantekningum þeim, sem þar eru fram teknar. Þess vegna fannst okkur eðlilegra að orða þetta eins og gert er í brtt. okkar: „hver maður, sem á jörð, er hann hefir ekki heimild til að nytja sjálfur“, af því að það er bannað almennt í l. að hafa samtímis ábúð nema á einni jörð. Svo kemur undanþága aftur í seinni málsgr. þessarar sömu gr., ef hann getur ekki byggt jörðina sjálfur, um það, hvernig þá skuli með hana farið. Þá hefir eigandi heimild til þess að nytja jörðina eftir því, sem honum sýnist, um visst árabil.

Þá höfum við gert brtt. við 9. gr. frv. Þar stendur svo, að landsdrottni sé ekki skylt að byggja æfilangt meira af jörð en sem getur framfleytt 36 kúgildum. Það, sem afgangs er, er honum ekki skylt að byggja æfilangt, en má hafa í lausaábúð eins og tíðkazt hefir. Við getum að vísu fallizt á, að ekki sé ástæða til þess, að sama manni sé byggt meira af jörð en sem þessu svarar. En ég fyrir mitt leyti sé enga ástæðu til þess að láta þennan hluta jarðarinnar vera í lausri ábúð eftir sem áður.

Mér finnst óeðlilegt, að einhver jarðarhluti sé hafður í lausri ábúð á þennan hátt, og því höfum við lagt til, að þarna verði skotið inn i, að landsdrottni sé ekki skylt að byggja sama manni æfilangt meira en sem þessu svarar.

Það eru orðnar svo margar undantekningarnar með æfiábúð, eins og frv. nú er orðið, að ég tel ekki ástæðu til þess að gera þær fleiri; æfiábúðarákvæðið fer að verða eins og götótt skjóla, sem engu heldur.

Þá höfum við einnig leyft okkur að bera fram aðra brtt. við 9. gr., síðustu málsgr., sem við leggjum til, að alveg sé orðuð um. Þar er ákveðið að undanskilja leiguliða afnotum af vissum vatnsréttindum, eins og þar er nánar tilgreint. Annars er ég í vafa um, hvernig beri að skilja þessa mgr. Þar stendur svo: „Undanskilin leiguliðaafnotum eru vatnsréttindi, önnur en til heimilisnota og búsþarfa, svo sem til áveitu og rafstöðvar“. Eðlilegast finnst mér að skilja þetta þannig, að það eigi að skoðast sem innskotssetning, — önnur en til heimilisnota og búsþarfa —, og meiningin sé að undanskilja vatnsréttindi til áveitu og rafstöðvar að öðru leyti en sem snertir heimilisþarfir. Annars var n. í vafa um það, hvernig bæri að skilja þetta. Nú álít ég, að ef um mikil vatnsréttindi er að ræða til rafvirkjunar, þá sé ekki ástæða til þess, að leiguliði hafi full umráð yfir því, en hitt þykir mér mjög orka tvímælis, að undanskilja vatn til áveitu. (Atvmrh.: Það á ekki að skilja það svo). Þá er gr. ákaflega óljóst orðuð, og það svo, að það er vissulega ástæða til þess að orða hana um, svo að hún verði skilin rétt. En við höfum nú leyft okkur að orða gr. um eins og gert er í brtt., þar sem það er aðeins tekið fram, að vatnsréttindi til rafstöðva skuli undanskilin leiguliðaafnotum.

Þá kem ég að 3. brtt. okkar, og hún er við 11. gr. frv. Það er einmitt við þann kafla frv., sem aðalbrtt. okkar minni hl. er við. Sá kafli fjallar um hús á leigujörðum og skyldu landsdrottins í sambandi við það. Ég vil þá fyrst taka það fram, að mér virðist 11. gr. vera mjög einkennilega orðuð eins og hún er nú orðin, þar sem í 1. málsgr. segir: „Skylt er landsdrottni að láta fylgja leigujörð sinni nauðsynleg bæjarhús og peningshús í góðu lagi, að dómi úttektarmanna“, en í næstu málsgr. er landsdrottni veitt leyfi til þess að leggja ekki meira til húsabóta en sem nemur 2/3 af landverði jarðarinnar, og þar er talað um, að nægilegt sé, að húsin séu nothæf. Þetta finnst mér ekki geta samrýmzt í sömu gr., því samkv. málvenju er það annað, að hlutur sé nothæfur eða í góðu lagi. Svona mótsagnir í sömu gr. frv. eru nægar út af fyrir sig til þess að það er óhæfa að samþ. hana óbreytta.

Það hefir verið tekin upp sú regla hér í þessari nýjustu útgáfu ábúðarlagafrv. að miða húsaskyldu við landverð jarðar. Að vissu leyti get ég fallizt á, að þetta hafi við rök að styðjast og að það sé eðlilegt að hafa ákveðið hlutfall milli landverðs jarðar og húsaverðs. En það hlutfall, sem hér hefir verið lagt til grundvallar, álít ég í öllu falli fráleitt. Við athugun fasteignamatsins síðasta á landverði leigujarða kemur í ljós, að allmargar leigujarðir hafa landverð neðan við 1000 kr., margar frá 1000—2000 kr. og allur fjöldinn milli 2000—3000 kr., en það er undantekning, ef leigujarðir hafa landverð, er nemi meiru en 3000 kr. Með því að láta húsaskylduna aðeins ná til 2/3 af landverði jarða, þá er sýnilegt, að hér verður um svo lítið fé að ræða, að ómögulegt verður að byggja upp á leigujörðum, svo að í nokkru lagi sé, fyrir það fé. M. ö. o. er húsaskyldunni að miklu leyti velt af landsdrottnum yfir á leiguliða. Við höfum því leyft okkur í minni hl. n. að leggja til, að þetta ákvæði verði fellt burt og húsaskyldan verði ákveðin eins og áður var samkv. 1. málsgr., að landsdrottni sé skylt að láta fylgja leigujörð sinni nauðsynleg bæjarhús og peningshús í góðu lagi, að dómi úttektarmanna. Ég hygg, að ekki sé svo mikil hætta á því, að úttektarmenn muni verða svo um of kröfuharðir um þau hús, sem hér er um að ræða. En ég skal geta þess, að það getur komið til mála að miða við landverð eins og hér er gert, en þá verður að breyta hlutföllunum frá því, sem nú er ákveðið.

Þá er það næst 12. gr., sem við flytjum brtt. við, fyrst og fremst um að fella burt 1. málsgr. og í sambandi við hana aftur 7. málsgr. Þessar tvær málsgr. heyra saman, og verður því annaðhvort að fella þær báðar eða hvoruga. — Leiguliði á samkv. þessum mgr. 12. gr. að leggja fram allt innlent efni og aðdrætti þess og gröft allan, rif tótta, svo og aðdrætti á erlendu efni um allt að 5 km. veg. Þetta er ekki smáræðis hluti af kostnaði við bygginguna. Eftir þessu frv., í því formi, sem það er nú, er víst, að ekki verður byggt upp á leigujörðum nema á sem allra ódýrastan hátt, t. d. torfhús að einhverju leyti í sambandi við timburhús. Ég er ekki að segja, að það geti ekki verið sæmilegar byggingar, en það liggur í hlutarins eðli, að þegar húsaskylda landsdrottins er ekki meiri en hér er ráð fyrir gert, þá verður ekki öðruvísi byggt. Og þar sem um torfhús er að ræða, þar sem aðalvinnan oft er að ná í hið innlenda efni, þá lendir mikill hluti af kostnaðinum á leiguliða. Þetta er því fráleitt og getur ekki komið til mála. Og ég undra mig yfir því, að hv. frsm. meiri hl. mælti svo um áðan, og það með allmiklum þjósti, að allar brtt. okkar væru til spillis eins á frv. Ég fæ ekki skilið, að hægt sé að líta svo á, að það spilli frv., að þessar ósanngjörnu kvaðir á ábúanda séu niður felldar. Leiguliði á ekki einu sinni að eiga þann hluta af byggingunni, sem hann hefir lagt fram. Jú, af einhverri náð er ætlazt til, að ef hann flytur af jörðinni innan 6 ára, á hann að fá nokkurn hluta af framlagi sínu, eða sem svarar 1/6 af framlagi sínu fyrir hvert ár, sem vantar á þann tíma, en úr því á eignarrétturinn á hluta leiguliða algerlega að falla til landsdrottins. Ég get ekki skilið réttlætið í þessu. Mér finnst það minna um of á þær kvaðir, sem lagðar voru á landsetana í gamla daga, konungsþrælana, er skyldir voru til þess að byggja upp jarðirnar og halda þeim við, en voru réttlausir að fá endurgjald fyrir verk sín, til þess að hv. Alþ. geti samþ. slíkt nú á okkar dögum. Því um leið og húsabótaskylda landsdrottins er rýrð svo mjög sem gert er í 11. gr., þá er verið að þyngja kvaðirnar á leiguliðunum, þá er verið að heimta, að þeir fari að leggja miklu meira fram án þess að fá nokkuð fyrir.

Þá kem ég að 3. brtt. okkar, við 12. gr. Hún er aðeins smábreyt. Þar segir í frv., að hafi landsdrottinn greitt leiguliða húsagerðarkostnaðinn samkv. 1. og 2. mgr., megi hækka afgjald jarðarinnar sem svarar allt að almennum útlánsvöxtum Búnaðarbanka Íslands af upphæðinni, auk vátryggingargjalds af húsunum. Brtt. okkar fer fram á, að þessi síðasta setning falli niður. Það er tekið fram í 17. gr., að séu hús vátryggð, skuli landeigandi bera vátryggingarkostnaðinn, og er þá óþarft að tala um vátryggingargjaldið í sambandi við þessi ákvæði í 12. gr.

Þá berum við fram tvær brtt. við 14. gr. Þessi gr. var sett í frv. í fyrra og fjallar um það, að í stað álags þess, sem áður var greitt, skuli tekin upp ný aðferð, nefnilega að greiða fyrningargjald, sem sé ákveðið fyrirfram sem jafnt hundraðsgjald af kostnaðarverði húsanna. Þetta fyrningargjald, eða leiguliðabót, eins og það er nefnt í frv., á að leggja í sérstakan sjóð, er nefnist endurbyggingarsjóður húsa á leigujörðum. Ætlazt er til, að hver jörð hafi sérreikning í sjóðnum og eigi tilkall til séreignar sinnar eða hluta af henni til að endurreisa hús og híbýli jarðarinnar. Um þetta atriði var mikið rætt í fyrra, bæði í landbn. og d., sérstaklega um það, hve há þessi leiguliðabót skyldi vera. Varð þá samkomulag um það hér í d., eftir ýtarlega athugun, að hámark leiguliðabótar væri hæfilegt ½% af steinbyggingum og 1% af byggingum úr öðru efni. En nú er hámark leiguliðabótar ákveðið 2/3% af steinhúsum og 1½% af húsum úr öðru efni. En þetta er of mikið. Þetta gjald er þung kvöð, sem leiguliðar verða að greiða í reiðu fé árlega. Séu vextir 4½% og leiguliðabótin af steinbyggingu ½%, þá væri búið að ná stofnverði byggingarinnar á 50—60 árum. En sæmileg steinhús — og ekki má reikna með öðru en sæmilegum húsum — er ekki ástæða til, að endurbyggi sig á skemmri tíma. Ef um annað efni er að ræða, torf, timbur o. s. frv., mundu húsin með 1% fyrningargjaldi endurbyggja sig á 38 árum. Einnig það virðist mjög sæmilegt. Brtt. okkar færa mark fyrningargjaldsins í svipað horf og var í frv. í fyrra. En það væri athugandi sá möguleiki, að láta þennan sjóð hafa víðtækara hlutverk en að endurreisa jarðarhús, t. d. hvort ekki væri hugsanlegt, að hann mætti nota til viðhalds húsum. Þá horfir þetta nokkuð öðruvísi við. Samkv. frv. í þess núv. mynd er sjóðurinn ekki ætlaður til annars en að endurreisa hús, sem orðin eru ónothæf. Og með það eitt fyrir augum er fyrningargjaldið í þessu frv. tvímælalaust sett of hátt.

Þá höfum við borið fram brtt. við 40. gr. frv. Þar er leiguliða gefin heimild til þess að gera minni háttar jarðabætur á ábýlisjörð sinni án samþykkis landsdrottins, ef þær eru vel og hyggilega gerðar og stuðla að því að hækka jörðina í verði. Skal leiguliði, þegar hann fer af jörðinni, fá jarðabætur þessar greiddar, eftir því sem úttektarmenn meta, að hækka megi þeirra vegna landskuld á jörðinni, þannig að hann fái tólffalda landskuldarhækkunina, en þó eigi yfir kostnaðarverð jarðabótanna, að frádreginni fyrningu. Við álítum, að þessi viðbót, sem bætt hefir verið í frv. af hæstv. ráðh., „en þó eigi yfir kostnaðarverð jarðabótanna, að frádreginni fyrningu“, sé allsendis óþörf, og leggjum því til, að hún verði felld niður. Hafi leiguliði unnið að jarðabótunum með svo mikilli hagsýni, að kostnaður við þær verði minni en ráð er gert fyrir, þá á hann fyllilega skilið að fá það, sem því munar, í sinn hlut. Það er fullkomlega óviðurkvæmilegt að reyna að troða skóinn niður af leiguliðum í svona smáatriðum og rétta landsdrottnum sífellt meiri og meiri fríðindi. — Ég vil benda á það í þessu sambandi, að oft mun vera mjög erfitt að segja um, hvert raunverulegt kostnaðarverð slíkra jarðabóta er. Þetta eru kannske einyrkjar, sem grípa í jarðabæturnar með börnum sínum hverja stund, er færi gefst. Í slíkum tilfellum er mjög erfitt að gefa upp ákveðið kostnaðarverð. Ég skil ekki í því, að hv. Ed. muni gera það að nokkru kappsmáli að halda í þessa viðbót, og vil ég fastlega mælast til þess, að hún sé felld niður.

Næsta brtt. okkar er við 42. gr. Fyrri hluti þeirrar gr. mælir svo fyrir: „Nú vill landsdrottinn gera jarðabót á jörð, sem er í fastri byggingu, og getur hann þá um það leitað samkomulags við leiguliða. Náist ekki samkomulag, getur hann látið gera jarðabótina engu að síður, en bætir leiguliða fullum bótum það, sem verkið kann að spilla leiguliðanotum hans. Þegar jarðabótinni er lokið, getur hann látið úttektarmenn. skoða hana og meta, hversu mikið jarðarafgjald megi hækka við jarðabótina. Getur hann þá afhent hana leiguliða, og ber honum að halda henni vel við og svara henni í gildu standi eða með álagi. Ennfremur ber honum að gjalda árlega þá hækkun á eftirgjaldi, sem metin er fyrir jarðabótina“.

Þarna leggjum við til, að orðin „og svara henni í gildu standi eða með álagi“, falli burt. Annars eru þessi ákvæði frv. alveg fráleit. Hugsum okkur, að landsdrottinn léti gera sléttu á jörð einhvers leiguliða með þessum hætti. Leiguliði yrði að greiða aukna landskuld og landsdrottinn fengi þar borgun fyrir þetta verk, sem þá yrði auðvitað samtímis til þess að auka gildi og dýrleika eignar hans. Hafi leiguliði svo búið á jörðinni ein 30 ár, er sléttan að sjálfsögðu farin að þýfast, og þá yrði hann samkv. þessum ákvæðum að slétta af nýju og skila jarðabótinni sem ný væri. Nei, slíkt nær ekki nokkurri átt. Með þessu móti er landeigendum gefinn laus taumurinn með að nota þetta í hreinu fjárplógsskyni. Gera slíkar bætur á jörðum sínum, láta ábúanda halda þeim við og hirða sjálfir afgjaldshækkunina án þess að bera nokkurn kostnað vegna fyrningar. Ég sé enga ástæðu til þess að ýta undir landsdrottna með að gera umbætur á jörðum sínum að leiguliða nauðugum. Þess vegna er sjálfsagt að fella þetta ákvæði, að leiguliði skuli svara jarðabótum í gildu standi eða með álagi, niður.

Við 47. gr. berum við fram tvær brtt. Þar er svo ákveðið, að úttektarmenn skuli skipaðir til 12 ára. Við leggjum til, að skipunartími þeirra verði færður niður í 6 ár. 12 ára skipunartími er óeðlilega langur. Þetta er auðvitað ákveðið svo í því skyni að fá sem mesta festu í starfið. En reynist úttektarmenn vel, má auðvitað endurskipa þá þegar út er runnin þeirra skipunartími. En reynist maður illa í þessari stöðu, eru 12 ár óþarflega langur skipunartími og skárra að geta losað sig við hann að sex árum liðnum. — Seinni brtt. okkar við þessa sömu gr. er í raun réttri aðeins orðabreyt. Þar er svo fyrir mælt, að úttektarmenn skuli skrifa undir „drengskaparvottorð“. Þetta mun vanalega vera nefnt „drengskaparheit“, og berum við fram brtt. um að breyta því á þá lund.

Síðasta brtt. okkar er við 54. gr. frv. Þar er svo ákveðið, að ákvæði frv. um húsabótaskyldu landsdrottins skuli ekki koma til framkvæmda fyrr en að 5 árum liðnum. Þetta teljum við óþarflega langan tíma. Um opinberar jarðir er það að segja, að þær eru flestar í lífstíðarábúð, svo að húsabótaskyldan kæmi ekki þungt niður hvað þær snertir, þar sem svo fáar jarðir losna úr ábúð árlega. Hvað snertir jarðeignir einstakra manna, þá held ég, að þessi ákvæði komi mjög réttlátlega niður. Þeir jarðeigendur, sem verið hafa góðir landsdrottnar og byggt jarðir sínar um lengri tíma, koma ekki undir ákvæði þessarar löggjafar fyrr en jarðir þeirra losna úr ábúð. En þeir jarðeigendur, sem hafa legið á því lúalagi að hafa jarðir sínar í eins eða tveggja ára ábúð, koma auðvitað strax undir ákvæði löggjafarinnar, og þeir eiga það sannarlega skilið. — Ég get fallizt á það, að rétt sé að veita undanþágur frá ákvæðum þessara 1. nú í bráðina, meðan kreppu þeirri, er nú hvílir sem mara á þjóðinni, er ekki af létt. En ég sé ekki ástæðu til þess að hafa þessa frestun á framkvæmd l. lengri en 2 ár.

Sjálfsagt vonum við allir, að eftir 2 ár verði eitthvað farið að rakna úr því öngþveiti, sem nú ríkir, og því er það, að við berum fram brtt. þess efnis, að í stað 5 ár komi 2 ár.

Þá er ég búinn að minnast á allar þær brtt., sem minni hl. landbn. flytur nú við þetta frv. Sumar þeirra eru þess eðlis, að ég er fús á að taka þær aftur til 3. umr., ef von er um samkomulag við hv. meiri hl. n. og hæstv. atvmrh. um þær. En aftur eru aðrar þeirra þannig, að um þær getur ekkert samkomulag orðið til miðlunar frá okkar hendi við þessa umr. Hv. d. verður annaðhvort að samþ. þær eða fella.