27.05.1933
Neðri deild: 84. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2434 í B-deild Alþingistíðinda. (3808)

205. mál, ráðstafanir vegna viðskiptasamnings við bresku stjórnina

Héðinn Valdimarsson:

Þetta frv. leiðir af sjálfu sér eins og skýrt er frá í grg. En ég vildi aðeins skýra frá því, að við 2. umr. mun ég flytja brtt. við 3. gr., þannig að aftan við bætist, að ríkisstj. setji reglugerð um það, hvernig innflutningi á kolum skuli hagað.

Það kemur af því, að við megum ekki flytja inn meira en 23% af kolamagninu, sem inn er flutt, frá öðrum löndum en Bretlandi, og við munum nú kaupa allmikið af kolum frá Póllandi, en ef innflytjendur kynnu að óska eftir meiri innflutningi þaðan en 23%, þá er nauðsynlegt, að stj. geti ákveðið skiptingu innflutningsins milli innflytjenda, og um það vantar ákvæði. Ég hefi talað um þetta við hæstv. forsrh. og hann sagðist mundu verða því fylgjandi, að þetta ákvæði væri sett.