11.05.1933
Neðri deild: 71. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 282 í C-deild Alþingistíðinda. (3824)

169. mál, einkennisbúninga og önnur einkenni

Frsm. minni hl. (Bergur Jónsson):

Eins og sést á nál. á þskj. 605, hafa 2 nm., hv. þm. Vestm. og ég, ekki getað samþ. þetta frv. Ástæðan er sú, að okkur finnst þetta skerða frjálsræði manna, ef þeir mega ekki bera merki, er sýni, hvaða stofnunum eða félögum þeir tilheyra. Það er ástæðulaust, ef ekki er um stjórnmálaflokka að ræða, að félög eins og t. d. stúkur, stúdentafélög o. fl. þurfi að sækja um heimild til ráðherra um það, hvort þau megi bera merki eða ekki. Það á að vísu ekki að banna þeim félögum eða stofnunum, sem þegar hafa merki, að bera þau áfram, en þau verða að sækja um heimild til þess til ráðherra innan 14 daga, en það virðist skapa mönnum áþarfa ómak.

Í öðru lagi verður erfitt að hindra það, að menn beri einkenni, ef menn einsetja sér að nota þau og nokkur alvara fylgir. Það er hægt að brúka merki, sem menn taka ekki eftir í fljótu bragði eða vita ekki, hvað þýða.

Hv. flm. heldur því fram, að einkenni eða einkennisbúningar verði til þess, að hægara verði að koma við stjórnmálaæsingi og það muni jafnvel létta undir bardaga og skærur. En ég get ekki séð, að þetta bann verði til þess að hindra æsingar; síður en svo. Ef um verulega mannmarga flokka er að ræða, sem ganga með einkenni eða í einkennisbúningi, þá er ríkisvaldið hér á landi ekki svo öflugt, að það geti hindrað það. Lögreglan stendur algerlega varnarlaus fyrir nokkrum hundruðum manna.

En ef litið er á hitt, að það gæti átt sér stað, að hægara yrði að koma af stað bardögum, þá yrðu þó a. m. k. ekki framin bræðravíg, ef menn bæru einkenni, þá kæmu höggin þar niður, sem til var ætlazt. Ég get sem sagt ekki séð, að bann við þessu hefði nokkur áhrif á eða mundi draga úr, ef til alvarlegra áfloga kæmi.