02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 315 í C-deild Alþingistíðinda. (3926)

42. mál, eftirlit með sparisjóðum

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson) [óyfirl.]:

Ég vil minna á það í þessu sambandi, að þótt nál. væri gert í fyrra, sem mun hafa verið samið af hv. 1. þm. Eyf., og till. gerð þá, bæði af hv. 1. þm. Eyf. og hv. 1. þm. Skagf. um að vísa málinu til stj., þá munu þær aldrei hafa komið til atkv. (StgrS: Það er rétt). En þar sem þetta kemur nú til atkv. og verður sennilega vísað til stj., mun stj. fara með það eins og fyrir er mælt í nál. Ég vil geta þess, sem ég raunar gat um í fyrra, að þótt sumum þyki eftirlitsmaðurinn hafa verið starfslítill sum árin, þá á það rót sína að rekja til mikilla veikinda, sem nú hafa breytzt til batnaðar, svo að hann hefir getað starfað meira á seinasta ári en áður. Stj. mun hafa þá meðferð, sem þarna er um getið, og verða við tilmælum n., ef málinu verður vísað til stj., sem ég tel æskilegast, að verði gert.