02.06.1933
Neðri deild: 92. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 2459 í B-deild Alþingistíðinda. (3977)

179. mál, innflutningsbann á niðursoðinni mjólk

Jón Auðunn Jónsson:

Í öðrum löndum munu vera lög um það, hvaða innihald skuli vera í mjólkinni til þess að vera talin niðursuðuhæf, en hér eru engin slík lög til. Í Englandi voru sett lög nú fyrir ári síðan um það, að ekki mætti sjóða niður aðra mjólk en sem inniheldur 9,5% af rjóma, og ennfremur má ekki sjóða niður mjólk nema því aðeins, að kýrnar, sem hún er úr, hafi fengið grænfóður eða nýslegið hey. Það má alls ekki sjóða niður mjólk úr þeim kúm, sem fóðraðar eru inni á gömlu heyi eða kjarnfóðri. Þessi skilyrði eru sett í Englandi, og ef þetta er ekki fyrir hendi, þá þykir ekki tiltækilegt að sjóða mjólkina niður.

Þetta er ekki hér, en hinsvegar er mér skýrt frá, að nýlega hafi verið efnagreind mjólk, sem var soðin niður hér á landi, og í henni hafði ekki reynzt nema kringum 8% af rjóma. (PO: Hver hefir gefið þær upplýsingar?). Hann heitir Þorgeir Jónasson. (PO: Er hann heildsali sér í Rvík?). Það veit ég ekki, hvort hann er heildsali. En það er nauðsyn á að gera ráðstafanir til þess að tryggja mönnum, að sú mjólk, sem er soðin niður, sé sæmilega góð, ef á að fara að einoka þessa vöru hér á landi. Þetta er eins og hv. 3. þm. Reykv. tók fram, aðeins gert til þess að halda uppi verði á þessari vöru. Hinsvegar er þetta alveg óþarft að öðru leyti. Ég veit ekki betur en þessi eina niðursuðuverksmiðja, sem er hér á landi, geti selt alla sína mjólk. Annars má búast við því, að menn reyni fremur, þeir sem hafa aðstöðu til, að taka útlenda mjólk, þegar svona á að fara að. En það eru skipin, sem sigla til útlanda, sem hafa aðstöðu til þess, þó þau hinsvegar hafi ekki notað þá aðstöðu sína, heldur hefir þorri útgerðarmanna skipt við niðursuðuverksmiðjuna íslenzku, til þess að reyna að halda henni uppi, og það jafnvel á þeim tíma, sem varan, sem hún framleiddi, reyndist skemmd. En nú get ég hugsað, að hugur útgerðarmanna verði annar heldur en var og á að vera. Það er engin nauðsyn á að banna þessa vöru; hún hefir gengið greiðlega út, sú sem verksmiðjan í Borgarnesi framleiðir. Og ekki er nauðsyn á að banna þessa vöru vegna þess, að hún sé eitur.

Það er skylda þeirra manna, sem harðast ganga fram í því að koma þessu á, að sjá um, að sú vara, sem við eigum að nota, sé góð og óskemmd. (PO: Þetta er sú bezta vara, sem hér er fáanleg). Hún hefir þó reynzt skemmd og auk þess ekki með sambærilegu fitumagni við erlenda mjólk. (PO: Þetta er hrein og bein lygi. — Forseti hringir). Til þess að segja þetta þarf hv. þm. Borgf. að fá efnagreiningu á þessari vöru.

Þó að lagður væri tollur á þessa vöru til þess að styrkja þessa innlendu framleiðslu, þá er enginn á móti því, en að banna hana nær ekki nokkurri átt. En ef það verður tekið upp að banna þennan innflutning, þá get ég hugsað hér, að við yrðum fyrir barðinu á þeirri pólitík að ætla að banna innflutning á þessari nauðsynjavöru, þar sem hvergi í heiminum eru til hliðstæð dæmi.

Ég vil beina því til hæstv. stj., að hún sjái um, að við þurfum ekki, þó að þessi lög verði samþ., að búa við lakari vöru heldur en annarsstaðar er framleidd, og væri þá ekki úr vegi, að hún athugaði löggjöf annara þjóða um þessi efni.

Hv. þm. Borgf. verður að kannast við það, að þegar mjólkin frá niðursuðuverksmiðjunni í Borgarnesi reyndist skemmd, þá var bæði ég og aðrir að hjálpa til að halda verksmiðjunni uppi af góðum huga, en þegar svona er farið að, sem nú er útlit fyrir, þá er ekki óeðlilegt, þó að menn verði tregari til að styrkja slík fyrirtæki, þegar það er sýnilega gert til þess að knýja fram óeðlilega verðhækkun.